Hagsmunaárekstur sem verður að leysa
Í gær skapaðist hér heilmikil umræða um grein sem Snorri Másson skrifaði á Vísi og setti inn í þennan hóp. Þar gerir hann að umræðuefni enskumælandi ráð í Mýrdal sem var stofnað fyrir tveimur árum og á að vera „vettvangur fyrir erlenda íbúa sveitarfélagsins til að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum áfram“ eins og sagt var í tilkynningu þegar ráðið var stofnað. Snorri segir að nú fari „stjórnsýsla í landinu fram á íslensku og ensku; því verður ekki lýst öðruvísi“. Þetta er reyndar ekki rétt því að ráðið er aðeins ráðgefandi og því ekki beinn hluti af stjórnsýslu hreppsins. Snorra þykir sérstaklega athugavert að þetta ráð skuli hafa fengið samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar og spyr: „Er þetta í alvöru verðlaunaefni?“
Snorri telur „kostulegt út af fyrir sig að Byggðastofnun skuli veita sveitarfélögum hvatningarverðlaun fyrir að minnka hlut íslenskrar tungu í opinberri stjórnsýslu“. Þótt ráðið sé ekki beinn þáttur í stjórnsýslu sveitarfélagsins veikir þetta óneitanlega stöðu íslenskunnar sem eina opinbera tungumáls landsins (fyrir utan íslenskt táknmál) og gæti rutt brautina fyrir aukna enskunotkun á fleiri sviðum. Það er vitanlega rétt hjá Snorra að stofnun ráðs af þessu tagi er í ósamræmi við íslenska málstefnu þar sem áhersla er lögð á að íslenska né nothæf og notuð á öllum sviðum þjóðlífsins. Það má líka vel halda því fram að stofnun ráðsins dragi úr hvata innflytjenda til að læra íslensku og vinni þannig gegn stöðu íslenskunnar í samfélaginu.
En málið hefur líka aðra hlið sem snýr að mannréttindum og lýðræði. Haft er eftir sveitarstjóra Mýrdals að það „hafi komið í ljós að stór hluti samfélagsins væri í raun frekar afskiptur og hefði hvorki rödd né tækifæri til að koma sínum hugmyndum á framfæri og taka raunverulega þátt í stefnumótunum og stjórnvaldsákvörðunum í sveitarfélaginu“ en „Sökum aðstæðna hafa ekki allir sömu tækifæri til þess að læra íslensku […]“. Formaður ráðsins segir: „Ég var búinn að búa í Vík í átta ár en fannst ég aldrei tilheyra að fullu eða geta haft einhver áhrif á samfélagið. Það er frábært að þarna sé kominn vettvangur fyrir íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif innan stjórnsýslunnar og geta komið sínum hugmyndum á framfæri.“
Snorri telur að ráðið sýni uppgjöf – í því „birtist okkur sú sýn að eina leið íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif, eða í það minnsta áhrifamesta leið þeirra til að gera það, sé að stjórnsýslan færist yfir á ensku. Eins og það sé varla hægt að ætlast til þess úr þessu að umræddir íbúar læri íslensku og hafi áhrif eftir þeirri leið.“ Hér má nefna að Mýrdalshreppur hefur ekki, frekar en flest önnur sveitarfélög, sett sér málstefnu þrátt fyrir skýr ákvæði Sveitarstjórnarlaga: „Enn fremur skal koma fram hvaða gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á annarri tungu en íslensku.“
Í tilkynningu Byggðastofnunar um viðurkenninguna er vikið að báðum hliðum málsins, stöðu íslenskunnar og lýðræði og mannréttindum: „Enskumælandi ráð eflir samfélagslega þátttöku íbúa sem annars væri hætt við að yrðu jaðarsettir og gefur erlendum íbúum vettvang til þess að koma sjónarmiðum og áherslum sínum á framfæri. Allar fundargerðir ráðsins eru skrifaðar bæði á íslensku og ensku og veita þannig ráðsmeðlimum og þeim sem lesa fundargerðirnar jafnframt aukna innsýn í íslenska tungu en eru um leið öllum skiljanlegar. Ráðið hefur fjallað um íslenskukennslu og hefur fjallað umtalsvert um leiðir sem hægt væri að fara til þess að efla stöðu tungumálsins í enskumælandi hagkerfi, sem ferðaþjónustusamfélög jafnan eru.“
Í þessu máli kemur glöggt í ljós það sem ég hef margoft skrifað hér um: Með atvinnustefnu sem byggist á láglaunastörfum þar sem fólk vinnur langan vinnudag, og með því að leggja alltof litla áherslu á kennslu íslensku sem annars máls, erum við að búa hér til tvískipt samfélag. Það er eðlilegt að ætlast til þess að íslenska sé notuð og nothæf á öllum sviðum, en jafnframt er eðlilegt að fólk sem hefur ekki verið búin nægilega góð aðstaða og tækifæri til að læra málið vilji njóta lýðræðislegra réttinda til þátttöku í samfélaginu. Eins og staðan er núna verður árekstur milli hagsmuna íslenskunnar og hagsmuna innflytjenda. Við verðum að finna leið til að leysa úr því þannig að réttur fólks sé virtur án þess að það komi niður á íslenskunni.