Mér finnst ég getað sigrað heiminn
Ég hnaut um fyrirsögnina „Stundum finnst mér ég getað sigrað heiminn“ á Vísi í gær. Ástæðan fyrir því að ég staldraði við er sú að þarna er notuð myndin getað sem er lýsingarháttur þátíðar – eða strangt tekið sagnbót – af sögninni geta, en sögnin finnast tekur venjulega með sér nafnhátt og því hefði mátt búast við Stundum finnst mér ég geta sigrað heiminn. En þegar ég fór að skoða þetta kom í ljós að myndin getað í stað geta er mjög algeng í öllum samböndum þar sem geta er hjálparsögn – tekur með sér sögn í lýsingarhætti þátíðar / sagnbót. Eins og bent er á í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er sagnbótin getað þegar geta er hjálparsögn, þ.e. í merkingunni 'vera fær um', en annars getið, t.d. Oft kemur góður þá getið er.
Þetta er ekki nýtt – stöku dæmi má finna allt frá lokum 19. aldar. Í Þjóðólfi 1897 segir: „Maður á að getað dansað án þess að hafa lært það sérstaklega.“ Í Nýjum kvöldvökum 1914 segir: „Ó, þér ætlið aldrei að getað skilið mig.“ Í Vísi 1914 segir: „Þjóðverjar voru svo vel undirbúnir, að ekki gátum vér vænst þess, stöðvunarlaust að getað rekið flóttana.“ Í Nýju kirkjublaði 1915 segir: „eg vildi getað lofað guð.“ Í Fálkanum 1936 segir: „Flestir munu getað giskað á, að þessi maður er enginn annar en Smith sá, sem bjargaði lífi Andrews.“ Í Alþýðublaðinu 1942 segir: „Henni fannst það gráthlægilegt, að hún skyldi getað elskað Eðvarð af jafnmikilli ástríðu og var.“ Í Morgunblaðinu 1962 segir: „Þarf að getað gert við og unnið á verkstæði þess á milli.“
Þótt slæðingur sé af dæmum um getað í stað geta alla tuttugustu öldina eru dæmin lengst af hlutfallslega svo fá að þau gefa ekki ótvíræða vísbendingu um málbreytingu heldur gæti verið um tilviljanakennd eða einstaklingsbundin frávik að ræða – á tímarit.is eru u.þ.b. 500 sinnum fleiri dæmi um að geta en að getað. En síðan 1980 hefur dæmum farið ört fjölgandi, sérstaklega þó eftir 2010, og eru á allra síðustu árum svo mörg að augljóst er að þarna er málbreyting í gangi. Það er líka athyglisvert að öfugt við margar nýjungar er þessi ekki bundin við samfélagsmiðla – þótt meirihluti dæma sé vissulega þaðan eru einnig fjölmörg dæmi úr mjög formlegum textum, svo sem útgefnum bókum, dómum, lagafrumvörpum og Alþingisræðum.
Langsamlega algengasta hjálparsögnin með geta er hafa, og hún tekur með sér sagnbótina getað. Ekki er ólíklegt að þetta sé undirrót breytingarinnar – málnotendum finnist eðlilegt að nota getað einnig með öðrum hjálparsögnum sem annars taka með sér nafnhátt. Það auðveldar eða ýtir undir þessa breytingu að í eðlilegum framburði verður ð í áherslulausum atkvæðum í enda orðs oft mjög veikt eða hverfur alveg og þess vegna er iðulega lítill sem enginn framburðarmunur á geta í mun geta gert það og getað í hefur getað gert það. Þess vegna er alveg hugsanlegt að þessi breyting hafi lengi verið útbreiddari en ritaðar heimildir benda til en verði meira áberandi þegar textum í óformlegu málsniði fjölgar og prófarkalestur minnkar.
Breytingin verður aðeins þegar geta tekur með sér aðra sögn en ekki þegar hún tekur með sér fornafn – og aðeins þegar geta stendur á eftir sögn. Þau örfáu dæmi sem finna má um að getað það / þetta á eftir sögn og Að getað fremst í setningu eru öll af samfélagsmiðlum og gætu verið stafsetningarvillur frekar en breytt orðmynd. Það er því ekki þannig að geta sé að breyta um nafnhátt, heldur er sagnbót sums staðar komin í stað nafnháttar. Breytingin er líka óháð því hvort sögnin sem fer á undan geta tekur með sér að eða ekki – við fáum bæði ég vildi getað gert þetta, í stað ég vildi geta gert þetta, og ég ætti að getað gert þetta, í stað ég ætti að geta gert þetta. Þetta sýnir að að tilheyrir þarna undanfarandi sögn frekar en vera nafnháttarmerki.