Enskumælandi ráð vinnur ekki gegn íslensku

Undanfarna daga hafa orðið heilmiklar umræður um enskumælandi íbúaráð sem starfandi er í Mýrdalshreppi. Ráðið var reyndar stofnað fyrir tveimur árum en stofnun þess virðist ekki hafa vakið sérstök viðbrögð á þeim tíma. Upphlaupið núna er því óhjákvæmilegt að setja í samband við umræður undanfarið um fjölgun útlendinga í samfélaginu og ýmis vandræði sem hún skapi. Ég get alveg tekið undir það að vitanlega hefði verið best að ekki hefði þurft að stofna þetta ráð. Vitanlega væri best ef innflytjendur töluðu íslensku reiprennandi og gætu tekið fullan þátt í lýðræðislegri umræðu í samfélaginu án þess að þurfa sífellt að sitja undir gagnrýni og jafnvel háðsglósum vegna ófullkominnar íslensku eins og mörg hafa lent í.

En það er bara ekki þannig og þar er ekki aðallega innflytjendunum sjálfum um að kenna. Meginábyrgðin liggur hjá okkur, innfæddum Íslendingum. Við ráðum fólk til starfa án þess að gera nokkrar kröfur um íslenskukunnáttu og án þess að gefa því tækifæri til að læra málið. Það er vont, og enn verra er ef við ætlum líka að útiloka fólkið frá þátttöku í lýðræðislegri umræðu. Ef enskumælandi ráð gefur fólki kost á þátttöku í samfélagsumræðu og stjórnmálum sem það hefði ekki haft annars er það vitanlega miklu betri kostur en að skortur á íslenskukunnáttu útiloki fólk frá slíkri þátttöku. Það er betri kostur fyrir samfélagið og lýðræðið, dregur úr skautun og hættunni á því að hér verði til tvískipt samfélag Íslendinga og innflytjenda.

Það sem meira er – þetta er líka miklu betri kostur fyrir íslenskuna vegna þess að það gerir innflytjendur ánægðari í íslensku samfélagi, fær þá til að upplifa sig sem hluta af samfélaginu, og eykur þannig líkurnar á því að þeir finni hjá sér hvöt og þörf til að læra íslensku. „Núna líður okkur ekki eins og við séum útskúfuð úr samfélaginu okkar“ segir formaður enskumælandi ráðsins í Vík, og eins og fundargerðir ráðsins sýna hefur þar mikið verið rætt um inngildingu og möguleika á aukinni og bættri íslenskukennslu. Í nýrri yfirlýsingu Samtaka kvenna af erlendum uppruna er líka bent á að ráð af þessu tagi auki bæði tækifæri og hvata innflytjenda til að bæta íslenskukunnáttu sína, auk þess að hvetja til virkrar samfélagsþátttöku.

Í umræðunni hefur verið bent á að fæstir innflytjenda eigi ensku að móðurmáli og því gefi enskumælandi ráð þeim ekkert frekar tækifæri til að tala móðurmál sitt en þátttaka í stjórnsýslu á íslensku myndi gera. Það er auðvitað alveg rétt, en það sem hér skiptir máli er að enskan er hlutlaus – þar stendur fólk jafnt að vígi og þarf ekki að búa við þann aðstöðumun sem verður á milli Íslendinga og innflytjenda þegar umræður fara fram á íslensku. En meginatriðið er að enskumælandi ráð er ekki markmið í sjálfu sér, heldur viðbrögð við vanda. Einangrun innflytjenda og tilkoma tveggja aðskilinna samfélaga í landinu er það versta sem getur komið fyrir íslenskuna og stofnun enskumælandi ráðs vinnur gegn slíku.