Evstur

Í gær var hér spurt hvort framburður með rödduðu hljóði, v, væri að verða algengari í lýsingarorðinu efstur – þ.e. evstur [ɛvstʏr̥]. Í venjulegum framburði er þarna óraddað f-hljóð en í miðstiginu efri er hins vegar raddað hljóð, v, þótt skrifað sé f. Inni í orðum er meginreglan sú að á undan sérhljóðum og rödduðum samhljóðum, t.d. r, kemur raddaða hljóðið v, í orðum eins og efi [ɛːvɪ] og efri [ɛvrɪ], en á undan órödduðum samhljóðum eins og s og t kemur óraddaða hljóðið f, í orðum eins og ofsi [ɔfsɪ] og aftur [aftʏr̥], og þess vegna mætti búast við órödduðu f í efstur [ɛfstʏr̥]. Framburðurinn evstur er hins vegar þekktur en lítið er hægt að byggja á rituðum textum um tíðni hans þar sem bókstafurinn f getur bæði staðið fyrir hljóðið f og v.

Lítill vafi er á að þennan framburð má rekja til áhrifa frá miðstiginu efri þar sem f stendur fyrir raddað hljóð, enda raddað r á eftir. Svipuð áhrif einnar beygingarmyndar á aðra eru vel þekkt – það er rík tilhneiging til að stofn orðs haldi alltaf sömu hljóðum, enda þótt það gangi gegn venjulegum hljóðreglum. Sem dæmi má nefna sögnina segja þar sem borið er fram tvíhljóðið ei þótt skrifað sé e enda er almenn regla að sérhljóð tvíhljóðist á undan gi og gj. En boðhátturinn segðu er líka borinn fram með ei þótt þar komi hvorki gi gj á eftir – það eru áhrif frá öðrum nútíðarmyndum orðsins. Aftur á móti er venjulega borið fram einhljóðið e í þriðju persónu viðtengingarháttar þátíðar sem er skrifuð eins, (þótt þau) segðu – áhrifin ná ekki til þátíðarinnar.

Þótt framburðarmyndin seigðu í boðhætti gangi gegn almennum hljóðreglum málsins er hún því bæði skiljanleg og eðlileg, enda dettur engum í hug að amast við henni. En öðru máli gegnir um evstur. Málfarsbankinn segir: „Orðið efstur er ekki borið fram „evstur“. Réttur framburður er „efstur“.  Baldur Jónsson segir í Málfregnum 1988: „Þó að sleppt sé öllum smekkleysum, klaufaskap og álitamálum verður því ekki neitað að í útvarpi og sjónvarpi er allt of mikið um ambögur sem varla verða kallaðar neitt annað en málvillur. Ég nefni t.d. framburðinn evstur fyrir efstur [...].“ Jónas Kristjánsson segir í DV 1989: „Og málhelti af ýmsu tagi er útbreitt, ekki síður meðal „evstu“ fréttaþula í sjónvarpi en annarra, sem þar koma minna fram.“

Vitanlega er miklu eldri og ríkari hefð fyrir framburðinum efstur með órödduðu f – en það er líka hefð fyrir því í málinu að viðurkenna ýmis gamalgróin tilbrigði í framburði eins og alkunna er. Erfitt er að fullyrða nokkuð um aldur framburðarins evstur – eins og áður segir er ekki hægt að byggja á rituðum textum um tíðni hans og sama gildir vitaskuld um aldurinn. Mér finnst ég þó hafa heyrt þessum framburði bregða fyrir í að minnsta kosti 40-50 ár og minnst er á hann í textum frá því fyrir 1990 eins og áður segir, og hann gæti verið mun eldri. Áhrifsbreyting af þessu tagi er fullkomlega eðlileg og það er komin svo löng hefð á framburðinn evstur að það er engin ástæðu til að amast við honum, hvað þá kalla hann rangan.