TEAM-Iceland verður Afreksmiðstöð Íslands

Síðastliðið haust birtist á vef Stjórnarráðsins tilkynning frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu undir fyrirsögninni „Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs“. Þar sagði: „TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.“ Á fleiri stöðum í tilkynningunni er svo talað um „TEAM-Iceland verkefnið“. Á sínum tíma var það gagnrýnt hér harðlega að ráðuneytið skyldi velja verkefni sínu heiti á ensku. Í skýringum ráðuneytisins á heitinu var sagt að TEAM-Iceland væri „fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum“ en sú skýring samræmdist á engan hátt notkun heitisins í umræddri tilkynningu um verkefnið þar sem heitið var margsinnis notað um starf innanlands.

Í gagnrýni minni lagði ég til að verkefninu yrði fundið íslenskt heiti, sem – í stíl við átakið Áfram íslenska – gæti t.d. heitið Áfram Ísland. Nú hefur umræddur starfshópur um íþrótta- og afreksmiðstöð skilað lokaskýrslu sinni sem heitir einmitt Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs. Þar er talað um Afreksmiðstöð Íslands en TEAM-Iceland aðeins nefnt á einum stað: „Margar þjóðir, sem sett hafa á fót afreksmiðstöðvar, nota heitið Team og nafn landsins, t.d. heitir afreksmiðstöð Danmerkur Team Danmark og afreksmiðstöð Eistlands notar heitið Team Estonia. Hópurinn telur mikilvægt að afreksmiðstöðin hafi íslenskt heiti en gerir ráð fyrir að alþjóðlegt heiti hennar verði Team Iceland í samræmi við framangreint.“

Það er vitanlega ekkert við það að athuga að Afreksmiðstöð Íslands eigi sér annað heiti sem notað er á alþjóðlegum vettvangi. Um slíkt eru fjölmörg dæmi, þótt reyndar vilji brenna við að erlenda heitið verði ofan á og sé einnig notað í íslensku samhengi. Nægir þar að nefna Icelandair sem lengi hét Flugleiðir á Íslandi þótt enska heitið væri notað annars, en nú hefur íslenska heitið verið aflagt. Vonandi verður raunin ekki sú í þessu tilviki að Team Iceland verði aðalheitið – en það er á ábyrgð okkar málnotenda að fylgjast með því og sjá til þess að svo verði ekki. En þetta dæmi sýnir að það skiptir máli og hefur áhrif að gera athugasemdir við óþarfa enskunotkun, og starfshópur ráðuneytisins á skilið hrós fyrir að taka gagnrýni til greina.