Forystukonur og forkonur
Um daginn var hér nefnt að vorið 2023 samþykkti færeyska Lögþingið breytingar á „stýrisskipan“ Færeyja sem gera ráð fyrir að -kvinna komi í stað -maður í starfsheitum í stjórnsýslunni þegar konur gegna störfunum – landsstýriskvinna, løgkvinna, løgtingsforkvinna og fleira. Ég veit ekki til að það hafi komið til tals að gera sambærilega breytingu á íslenskum lögum eða stjórnarskrá. Hins vegar hafa einstakar konur sem sitja á þingi stundum titlað sig sem þingkonur eða Alþingiskonur í stað þingmenn eða Alþingismenn. Þetta tíðkaðist athugasemdalaust allt frá því að fyrsta konan var kosin á þing árið 1923 en þegar þingkonur Kvennalistans vildu kalla sig svo árið 1983 var allt vitlaust – þá fór þetta að snúast um vald.
Ég tek eftir því að kosningabarátta Katrínar Jakobsdóttur er rekin undir kjörorðinu „Kraftmikil forystukona“. Það sýnir auðvitað að eðlilegra þykir að vísa til hennar sem forystukonu en forystumanns vegna þess að orð sem enda á -maður tengjast frekar körlum í huga fólks. Fjölmörg dæmi eru því um að búin hafi verið til orð með seinni liðinn -kona við hlið orða sem enda á -maður, en ein þeirra samsetninga með -maður sem venjulega er notuð jafnt um karla og konur er formaður. Þegar Stúdentaráð Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu árið 2018 að starfsheitið formaður Stúdentaráðs væri ónothæft var ekki brugðist við með því að taka upp kvenkyns starfsheiti, t.d. forkona, heldur var karlkynsorðið forseti tekið upp í staðinn.
En orðið forkona er samt til í málinu og hefur verið síðan á nítjándu öld. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Kirkjublaðinu 1895: „En aptur útvegaði Barrows sjer fylgi margra merkra karla og kvenna, […] frú Potter Palmer forkonu, frú Charles Henrotin varaforkonu kvennstjórnarinnar á sýningunni […].“ Í Kvennablaðinu sama ár segir: „Þessi bókfærsla hefir misjafnt gildi, og fer það eftir dugnaði forkonunnar.“ Í Fjallkonunni 1898 segir: „„Þetta mál er ekki á dagskrá“, sagði forkonan.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1928 segir: „Forkona hins sósíalistiska fjelags ljet ekki segja sjer þetta tvisvar.“ Dæmin eru vissulega ekki mörg, og nokkur dæmi eru einnig um að notkun orðsins forkona sé gagnrýnd þar eð konur séu menn.
Á seinustu árum eru fáein dæmi um að konur í forystu félaga titli sig forkonur og rúm hundrað dæmi eru um orðið í Risamálheildinni. Mér dettur ekki í hug að hvetja til þess að konur taki þetta starfsheiti almennt upp, enda er ég yfirleitt lítið hrifinn af því að tengja starfsheiti við kyn þeirra sem gegna störfunum. Hins vegar finnst mér líka ástæða til að benda á að auðvitað er forkona gott og gilt orð en engin málspjöll, og engin ástæða væri til að amast við því ef það breiddist út – við þyrftum bara að venjast því. Það er engin málfræðileg ástæða fyrir því að okkur þykir eðlilegt að tala um Katrínu Jakobsdóttur sem forystukonu en undarlegt að tala um hana sem (fyrrverandi) forkonu Vinstri grænna – það er bara venja, og slíkar venjur geta breyst.