Posted on Færðu inn athugasemd

Það er ekkert rúm fyrir stærra rúmm

Í umræðum hér í dag um orðið fram bar framburð orðsins rúm á góma en þekkt er að það er oft borið fram með stuttu sérhljóði, rúmm. Ég veit ekki hversu gamall sá framburður er, en vísbendingar um hann má finna a.m.k. frá byrjun 20. aldar. Í Ísafold 1902 segir: „Herbergi með rúmmi og húsgögnum óskast til leigu nú þegar.“ Í Stefni 1903 segir: „Í svefnherberginu á að minnsta kosti einn gluggi að vera opinn nótt og dag, og láttu rúmmið standa á miðju gólfi.“ Í Íslendingi 1923 segir: „Hann lét leggja talsíma inn að rúmmi sínu.“ Í Nýjum kvöldvökum 1927 segir: „Kvað hann mig þurfa að halda kyrru fyrir, helst að liggja í rúmminu nokkra daga.“ Í Bræðrabandinu 1931 segir: „Því næst fór hún upp í rúmmið aftur og í sömu stellingar og fyr.“

Í Þjóðviljanum 1960 segir Árni Böðvarsson: „Og í orðinu rúm bera Norðlendingar fram stutt ú og langt m, eins og ritað væri rúmm. Það gera Sunnlendingar ekki.“ Og Árni bætir við: „Fyrir nokkrum áratugum var farið að nota orðmyndina gúm í stað gúmmí, og þótti hún fara betur í íslenzku. Sigurður Nordal prófessor hefur sagt mér að fyrir þeim mönnum sem vöktu þessa orðmynd til lífs hafi það vakað að hún yrði borin fram gúmm, alveg eins og Norðlendingar segja rúmm, þegar flestir aðrir landsmenn segja rúm (með löngu ú-i).“ Þótt ég sé Norðlendingur og hafi verið á máltökuskeiði þegar þetta var skrifað kannast ég ekki við framburðinn rúmm að norðan, en auðvitað gæti hann hafa þekkst annars staðar en í Skagafirði.

Ég hef hins vegar oft heyrt þennan framburð hér í Reykjavík og hann er mjög algengur í nútímamáli – í  Risamálheildinni eru a.m.k. þrjú þúsund dæmi um mm í beygingarmyndum orðsins rúm. En eins og lýst er Íslenskri nútímamálsorðabók hefur orðið ólíkar merkingar –'langt húsgagn með dýnu til að sofa í; pláss, rými; sá hluti tilverunnar sem menn skynja að hægt er að hreyfast í (á alla vegu), vídd' – og í umræðu um þetta kom Ásgeir Berg Matthíasson með góða ábendingu: „Ég tel mig bera „rúm“ fram mismunandi eftir því hver merkingin er. Allavega finnst mér eðlilegt að segja „rúmm“ þegar merkingin er sérstakt húsgagn sem sofið er á og „rúm“ í öðrum merkingum (t.d. „Skv. afstæðiskenningunni eru tími og rúm óaðskiljanleg“).“

Axel Kristinsson bætti svo við: „Einmitt. Orðið er þannig að skiptast í tvö orð með mismunandi merkingu og framburði en stafsetningin hangir í hefðinni og verður þannig óskýrari en talmálið.“ Ég nota ekki framburðinn rúmm og hef enga tilfinningu fyrir þessu en lausleg athugun í Risamálheildinni bendir til þess að fleiri hafi þá tilfinningu að rúmm sé aðeins notað um 'húsgagn til að sofa á' en ekki í öðrum merkingum orðsins. Þannig eru nánast engin dæmi með tveimur m-um í samböndunum tími og rúm eða rúm og tími, og ekki heldur í samböndum eins og rúm fyrir eitthvað. Þetta þyrfti vissulega að skoða miklu nánar, en það er mjög athyglisvert ef orðið rúm er þannig að klofna í tvennt eftir merkingu.

Posted on Færðu inn athugasemd

TEAM-Iceland verður Afreksmiðstöð Íslands

Síðastliðið haust birtist á vef Stjórnarráðsins tilkynning frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu undir fyrirsögninni „Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs“. Þar sagði: „TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.“ Á fleiri stöðum í tilkynningunni er svo talað um „TEAM-Iceland verkefnið“. Á sínum tíma var það gagnrýnt hér harðlega að ráðuneytið skyldi velja verkefni sínu heiti á ensku. Í skýringum ráðuneytisins á heitinu var sagt að TEAM-Iceland væri „fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum“ en sú skýring samræmdist á engan hátt notkun heitisins í umræddri tilkynningu um verkefnið þar sem heitið var margsinnis notað um starf innanlands.

Í gagnrýni minni lagði ég til að verkefninu yrði fundið íslenskt heiti, sem – í stíl við átakið Áfram íslenska – gæti t.d. heitið Áfram Ísland. Nú hefur umræddur starfshópur um íþrótta- og afreksmiðstöð skilað lokaskýrslu sinni sem heitir einmitt Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs. Þar er talað um Afreksmiðstöð Íslands en TEAM-Iceland aðeins nefnt á einum stað: „Margar þjóðir, sem sett hafa á fót afreksmiðstöðvar, nota heitið Team og nafn landsins, t.d. heitir afreksmiðstöð Danmerkur Team Danmark og afreksmiðstöð Eistlands notar heitið Team Estonia. Hópurinn telur mikilvægt að afreksmiðstöðin hafi íslenskt heiti en gerir ráð fyrir að alþjóðlegt heiti hennar verði Team Iceland í samræmi við framangreint.“

Það er vitanlega ekkert við það að athuga að Afreksmiðstöð Íslands eigi sér annað heiti sem notað er á alþjóðlegum vettvangi. Um slíkt eru fjölmörg dæmi, þótt reyndar vilji brenna við að erlenda heitið verði ofan á og sé einnig notað í íslensku samhengi. Nægir þar að nefna Icelandair sem lengi hét Flugleiðir á Íslandi þótt enska heitið væri notað annars, en nú hefur íslenska heitið verið aflagt. Vonandi verður raunin ekki sú í þessu tilviki að Team Iceland verði aðalheitið – en það er á ábyrgð okkar málnotenda að fylgjast með því og sjá til þess að svo verði ekki. En þetta dæmi sýnir að það skiptir máli og hefur áhrif að gera athugasemdir við óþarfa enskunotkun, og starfshópur ráðuneytisins á skilið hrós fyrir að taka gagnrýni til greina.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skýr skilaboð um áhugaleysi ríkisstjórnarinnar

Fyrir rúmri viku vakti ég hér athygli á sakleysislegri fréttatilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins sama dag og greindi frá því að nokkrar ráðherranefndir hefðu verið lagðar niður, m.a. sérstök ráðherranefnd um íslenska tungu sem stofnuð var fyrir hálfu öðru ári og var m.a. ætlað að „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Ég taldi þetta bera vott um minnkandi áhuga ríkisstjórnarinnar á íslenskri tungu. Þá brá svo við að forsætisráðherra blandaði sér í umræðuna og taldi þarna „dregnar miklar ályktanir af litlu tilefni“. Það er vitanlega ánægjuefni að forsætisráðherra taki þátt í umræðu um þessi mál þótt vissulega megi spyrja hvort hann hafi ekki mikilvægari málum að sinna en karpa á Facebook.

Forsætisráðherra sagði að því færi fjarri að niðurlagning ráðherranefndarinnar táknaði einhverja stefnubreytingu í málefnum íslenskunnar: „[S]taðreynd málsins er að allar ráðherranefndir falla niður við það að ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur fékk lausn. Við vorum að ákveða fyrir nýja ríkisstjórn hvaða ráðherranefndir myndu starfa. Fyrir utan þrjár lögboðnar var ákveðið að starfrækja ráðherranefnd um loftslagsmál og aðra um samræmingu mála. Í þessari síðarnefndu sé ég fyrir mér að við ræðum ýmis mál, m.a. mál íslenskrar tungu. Hin sérstaka ráðherranefnd um íslenska tungu hafði ef ég man rétt komið saman í fjögur skipti. Það eru engin þau straumhvörf að verða sem umræða á þessum þræði gefur til kynna. Bara alls ekki.“

Í grein sem Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra skrifaði í Vísi á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2022 segir: „Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. […] Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu. […] Í vikunni raungerðist ein varða á þeirri vegferð þegar að ný ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar.“ Það er því alveg ljóst að stofnun ráðherranefndarinnar átti að senda þau skilaboð til þjóðarinnar að ríkisstjórnin hygðist leggja aukna áherslu á málefni íslenskunnar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að túlka niðurlagningu nefndarinnar sem skilaboð um að þessi áhersla sé ekki lengur fyrir hendi.

En það var fleira athyglisvert í því sem forsætisráðherra skrifaði á áðurnefndum þræði. Hann sagðist vilja vekja athygli á því „að samhliða heildrænni nálgun á málefni útlendinga, sem kynnt var nýlega, var tryggt fjármagn í fjármálaáætlun sem getur gagnast í íslenskukennslu“. Þarna er vísað í það að í fjármálaáætlun segir: „Þá er alls gert ráð fyrir að 2,2 ma.kr. verði varið á fyrstu tveimur árum áætlunarinnar til að fylgja eftir aðgerðum sem ríkisstjórnin sammæltist um í málefnum útlendinga.“ Í umræddri aðgerðaáætlun er vissulega talað um að stórauka framboð af íslenskunámi, innleiða hvata til íslenskunáms, tryggja rétt innflytjenda til íslenskunáms og draga úr kostnaðarþátttöku þeirra, og auka aðgengi að starfstengdu íslenskunámi á vinnutíma.

Þetta er allt saman gott og blessað, en ég vek athygli á því að forsætisráðherra segir að þarna sé fé „sem getur gagnast í íslenskukennslu“ – ekki „sem verja skal til íslenskukennslu“. Það táknar auðvitað að ekkert fé er eyrnamerkt íslenskukennslu og megnið af því sem ætlað er til þessarar aðgerðaáætlunar gæti þess vegna farið í einhver önnur brýn úrlausnarefni á þessu sviði. Af þeim er nefnilega nóg eins og fram kemur í áætluninni þar sem talin eru upp mörg mjög fjárfrek verkefni. Eftir stendur því að þrátt fyrir fullyrðingar forsætisráðherra um annað sendir niðurlagning ráðherranefndar um íslenska tungu skýr skilaboð um áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málinu, og engin aukning á fé til kennslu íslensku sem annars máls hefur verið tryggð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hátíðardagur og hátíðisdagur

Í Málvöndunarþættinum var spurt út í tvímyndirnar hátíðardagur og hátíðisdagur – hvort báðar séu réttar, og hvernig skýra megi þá síðari í ljósi þess að hátíð er kvenkynsorð sem er hátíðar í eignarfalli eintölu. Því er til að svara að báðar myndirnar koma fyrir í fornu máli og eru álíka algengar, á fjórða tug dæma um hvora um sig. Í nútímamáli er myndin hátíðisdagur mun algengari – um hana eru rúm 13 þúsund dæmi á tímarit.is en rúm fjögur þúsund um hátíðardagur. Í Risamálheildinni eru hlutföllin svipuð – rúm 4.250 dæmi um hátíðisdagur en tæp 1.400 dæmi um hátíðardagur. Það er því ljóst að báðar myndirnar hljóta að teljast rétt mál, enda segir Málfarsbankinn: „Bæði .kemur til greina að segja hátíðisdagur og hátíðardagur.“

Í Íslenskri orðsifjabók er orðið hátíð sagt líklega vera tökuorð eða þýðingarlán úr miðlágþýska orðinu hochtît (hochzeit í nútímaþýsku). Þegar tökuorð eru aðlöguð málinu getur oltið á ýmsu hvernig það er gert, t.d. hvaða kyn nafnorð fá. Það er ekki útilokað að myndin hátíði hafi eitthvað verið notuð þótt hátíð hafi vissulega alltaf verið aðalmyndin – a.m.k. eru nokkur orð í fornmáli með fyrri liðinn hátíðis- sem væri eðlilegt eignarfall af hvorugkynsorðinu hátíði. Orðið hátíði kemur þó aldrei fyrir sjálfstætt svo að öruggt sé – að vísu er hátíðis dagur oft skrifað í tvennu lagi í handritum en á því er ekki hægt að byggja því að samsett orð voru mjög oft skrifuð þannig áður fyrr – sama gildir t.d. um hátíðar dagur.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar kemur fram að eitt dæmi sé um hvorugkynsorðið hátíði ­– í Ljóðmælum Jóns Árnasonar á Víðimýri frá 1879. Örfá dæmi eru um hátíði á tímarit.is en þau gætu verið villur – sum þeirra koma fyrir í textum þar sem hátíð í kvenkyni kemur einnig fyrir. Nokkur önnur orð með fyrri liðinn hátíðis- koma einnig fyrir í nútímamáli. Í ljósi þess að kvenkynsorðið hátíð er mjög algengt en hvorugkynsorðið hátíði kemur nánast ekki fyrir (og svo sem ekki öruggt að það hafi nokkurn tíma verið til sem sjálfstætt orð) má virðast sérkennilegt að myndin hátíðisdagur skuli hafa orðið aðalmynd orðsins en ekki hátíðardagur. Það er þó ekkert einsdæmi að orð hagi sér öðruvísi í samsetningum en þegar þau standa ein sér.