Að samþyggja

Nýlega sá ég í Málvöndunarþættinum að verið var að gera athugasemdir við orðmyndina samþyggja á einhverri vefsíðu – fólk átti varla nógu stór orð til að lýsa furðu sinni og hneykslun á henni. Vitanlega er það rétt að venjuleg stafsetning sagnarinnar er samþykkja en þessi ritun er samt fjarri því að vera einsdæmi. Á tímarit.is eru milli tíu og tuttugu dæmi um samþyggja, en í Risamálheildinni eru 635 dæmi sem byrja á samþygg-, sem getur verið ýmist sögnin samþyggja (þ.e. samþykkja) eða nafnorðið samþyggi (þ.e. samþykki). Af þessum dæmum eru öll nema átta af samfélagsmiðlum. Það er því ljóst að í óyfirlesnum textum er þessi ritháttur mjög algengur. Þess vegna er ómaksins vert að velta því fyrir sér hvers vegna svo sé.

Venjulega er auðvitað framburðarmunur á orðum sem eru skrifuð með kk og þeim sem eru skrifuð með gg. Þar sem skrifað er kk kemur venjulega fram svokallaður aðblástur, sem er eins og h sé skotið inn á undan kk, en gg er borið fram sem langt g. Sögnin þykkja (í merkingunni 'gera þykkri') er því borin fram öðruvísi en sögnin þiggja ([θɪhca] á móti [θɪcːa] fyrir þau sem geta lesið hljóðritun). En öðru máli gegnir í áhersluleysi, eins og seinni lið samsetningar – þá kemur aðblásturinn sjaldnast fram, lokhljóðið verður stutt, og samþykkja er því venjulega borið fram alveg eins og skrifað væri samþyggja ([samθɪca]). Slíkt samfall í framburði opnar vitaskuld möguleikana á því að röng ritmynd – sem passar þó við framburðinn – sé valin.

Við þetta bætist að seinni liður sagnarinnar, -þykkja, er ógagnsær fyrir nútíma málnotendur – þeir tengja hann varla við nokkuð annað. Þetta er í raun sögnin þykja sem var þykkja í fornu máli, en ekki er við því að búast að almennir málnotendur viti það eða tengi þar á milli og þess vegna er ekki óvænt að leitað sé annað að tengingu. Ekki er ólíklegt að fólk tengi samþykkja sem skýrð er 'segja já (við e-u), fallast á (e-ð)' í Íslenskri nútímamálsorðabók við sögnina þiggja sem skýrð er 'taka við (e-u), taka (e-u) játandi' – merkingarlegur skyldleiki er augljós. Vissulega er þiggja skrifuð með i en ekki y en ritmyndin þyggja er líka mjög algeng – nærri fjögur þúsund dæmi í Risamálheildinni, þar af rúm tvö hundruð úr öðru en samfélagsmiðlum.

Það er sem sé bæði samfall í framburði og (misskilin) merkingartengsl sem geta stuðlað að því að fólk skrifi samþyggja í stað hins viðurkennda samþykkja. Hliðstæð dæmi eru ýmis í málinu – ég hef t.d. skrifað um myndir eins og reiðbrennandi og afbrigði(s)samur. Það má samt ekki skilja þennan pistil svo að ég sé að mæla með rithættinum samþykkja eða leggja blessun mína yfir hann á einhvern hátt – þótt ég sé hlynntur tilbrigðum í máli er ég almennt séð fylgjandi samræmdri stafsetningu af praktískum ástæðum. Hins vegar finnst mér mikilvægt að við reynum að átta okkur á því hvers vegna algeng frávik af þessu tagi koma upp, í stað þess að láta okkur nægja að hneykslast á þeim. Það er bæði miklu skemmtilegra og gagnlegra á allan hátt.