Posted on Færðu inn athugasemd

Reykneskur

Ég var spurður hvort hægt væri að nota lýsingarorðið reykneskur, af Reykjanes – hliðstætt reykvískur, af Reykjavík. Svarið við því er ekki alveg einfalt. Yfirleitt er hægt að búa til lýsingarorð af staðaheitum með viðskeytinu -sk(ur), en oft þarf að gera ákveðnar breytingar á grunnorðinu, bæði hljóðbreytingar og styttingar. Af staðaheitum sem enda á -fjörður eru leidd lýsingarorð sem enda á -firskur,  svo sem hafnfirskur, súgfirskur; af -vík kemur -vískur, svo sem reykvískur, húsvískur; , af -dalur kemur -dælskur, svo sem bárðdælskur, svarfdælskur; af -ey kemur -eyskur, svo sem færeyskur, grímseyskur; o.fl. Yfirleitt er fyrri hluti grunnorðsins styttur í eitt atkvæði – Hafnar- > hafn-, Súganda- > súg-, Reykja- > reyk-, Svarfaðar- > svarf-, o.s.frv.

Vissulega eru til í málinu fjölmörg orð sem enda á -neskur en þau eru ekki komin af staðheitum sem enda á -nes eins og ætla mætti, heldur er um að ræða viðskeytið -nesk(ur) sem er komið af germanska viðskeytinu *-iskaeins og -sk(ur). Afbrigðið -nesk(ur) varð til í orðum eins og himinn þar sem stofninn endar á -nhimin+isk verður himn-isk sem verður himnesk, og síðan er farið að skilja orðið á þann hátt að n-ið úr stofninum tilheyri viðskeytinu – himn-esk > him-nesk. Þannig verður í raun og veru til sjálfstætt viðskeyti með sömu merkingu og -sk(ur) sem síðan er notað í fjölmörgum lýsingarorðum dregnum af erlendum staða- eða þjóðflokkaheitum – baskneskur, keltneskur, lettneskur, rússneskur, slavneskur, svissneskur, tyrkneskur o.s.frv.

En þótt viðskeytið -sk(ur) sé mjög virkt í myndun lýsingarorða af margs konar staðaheitum eins og áður segir eru lýsingarorð af einhverjum ástæðum yfirleitt ekki mynduð á þennan hátt af staðaheitum sem enda á -nes. Við höfum ekki *álftneskur, *borgneskur, *drangsneskur, *langneskur – og ekki heldur *reykneskur. Samt ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að mynda slík orð – það verður ekki betur séð en þau séu í fullu samræmi við önnur orð mynduð með -sk(ur). Hugsanlegt er að málnotendur forðist (ómeðvitað) slíka orðmyndun af því að þessi orð myndu líta út eins og þau væru mynduð með -nesk(ur). Það viðskeyti er aðeins notað á erlend heiti, og e.t.v. höfum við tilfinningu fyrir því að það eigi ekki við á íslensk staðaheiti.

Posted on Færðu inn athugasemd

Misnotkun stjórnvalda á tungumálinu

Undanfarið hálft annað ár hafa ráðherrar hvað eftir annað orðið berir að því að misnota tungumálið gróflega í pólitískum tilgangi. Í árslok 2022 tók þáverandi dómsmálaráðherra upp á því að nota orðið rafvarnarvopn í stað rafbyssa sem lengi hafði verið notað. Nokkru síðar lagði sami ráðherra fram frumvarp þar sem talað er um afbrotavarnir í stað þess sem fram að því hafði verið kallað forvirkar rannsóknarheimildir. Í vetur lagði nýr dómsmálaráðherra svo fram frumvarp um lokað búsetuúrræði sem ekki varð séð annað en væri í raun fangelsi eða fangabúðir. Nú skilgreinir sami ráðherra lýsingarorðið friðsamlegur upp á nýtt og segir að um leið og fyrirmælum lögreglu sé ekki hlýtt hætti mótmæli að vera friðsamleg.

Í öllum þessum tilvikum er augljóslega verið að reyna að slá ryki í augu almennings, hafa áhrif á almenningsálitið með notkun orða sem hafa á sér annað yfirbragð en orð sem fyrir eru, eða með því að nota orð í annarri merkingu en hefðbundið er. Þetta eru mörg dæmi á stuttum tíma og það vekur ugg, og sýnir hvað það er mikilvægt að almenningur fylgist með orðræðu stjórnvalda og gjaldi varhug við því þegar þau hagræða tungumálinu í lýsingu á athöfnum sínum – reyna að dulbúa þær með orðskrúði eða með því að breyta hefðbundinni merkingu orða. Það er merki um hugleysi og ber vott um annaðhvort vonda samvisku eða hræðslu – hræðslu við almenningsálitið. Látum stjórnvöld ekki komast upp með slíka misnotkun tungumálsins.

Hér er við hæfi að rifja upp brot úr ræðu Sigurðar heitins Pálssonar á fundi á Austurvelli fyrir tíu árum, 1. mars 2014: „Mér finnst grafalvarlegt hvernig ráðamenn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar. […] Framkoma ráðamanna við tungumálið er kannski það alversta og hættulegasta í þessu máli öllu. […] Við höfum fylgst allnokkra hríð með árásum ráðamanna á tungumálið. Þær eru stórhættulegar vegna þess að með því að eyðileggja orð og hugtök í anda newspeak Georges Orwell í skáldsögunni 1984, með því er verið að ráðast gegn DNA þjóðarlíkamans, þjóðarsálarinnar.“ Og Sigurður hélt áfram:

„Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags alls staðar, það er skemmtilega augljóst í tilfelli okkar Íslendinga. Hið ritaða orð er grundvöllur sjálfsmyndar okkar sem þjóðar, við trúum á ritaðan texta. […] Vísvitandi afvegaleiðing orða og hugtaka jafngildir spillingu tungumálsins sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskiptanna. Á endanum blasir við siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins. Það felst alvarleg hætta í því þegar ráðamenn svara kröfum um að þeir standi við orð sín með útúrsnúningum. [Þ]að er fyrsta skrefið í afvegaleiðingu og spillingu tungumálsins, fyrsta skrefið til newspeak Orwells. Viljum við ganga þann veg? Þar var tungumálið notað til þess að kæfa sjálfstæða hugsun einstaklinganna.“