Misnotkun stjórnvalda á tungumálinu
Undanfarið hálft annað ár hafa ráðherrar hvað eftir annað orðið berir að því að misnota tungumálið gróflega í pólitískum tilgangi. Í árslok 2022 tók þáverandi dómsmálaráðherra upp á því að nota orðið rafvarnarvopn í stað rafbyssa sem lengi hafði verið notað. Nokkru síðar lagði sami ráðherra fram frumvarp þar sem talað er um afbrotavarnir í stað þess sem fram að því hafði verið kallað forvirkar rannsóknarheimildir. Í vetur lagði nýr dómsmálaráðherra svo fram frumvarp um lokað búsetuúrræði sem ekki varð séð annað en væri í raun fangelsi eða fangabúðir. Nú skilgreinir sami ráðherra lýsingarorðið friðsamlegur upp á nýtt og segir að um leið og fyrirmælum lögreglu sé ekki hlýtt hætti mótmæli að vera friðsamleg.
Í öllum þessum tilvikum er augljóslega verið að reyna að slá ryki í augu almennings, hafa áhrif á almenningsálitið með notkun orða sem hafa á sér annað yfirbragð en orð sem fyrir eru, eða með því að nota orð í annarri merkingu en hefðbundið er. Þetta eru mörg dæmi á stuttum tíma og það vekur ugg, og sýnir hvað það er mikilvægt að almenningur fylgist með orðræðu stjórnvalda og gjaldi varhug við því þegar þau hagræða tungumálinu í lýsingu á athöfnum sínum – reyna að dulbúa þær með orðskrúði eða með því að breyta hefðbundinni merkingu orða. Það er merki um hugleysi og ber vott um annaðhvort vonda samvisku eða hræðslu – hræðslu við almenningsálitið. Látum stjórnvöld ekki komast upp með slíka misnotkun tungumálsins.
Hér er við hæfi að rifja upp brot úr ræðu Sigurðar heitins Pálssonar á fundi á Austurvelli fyrir tíu árum, 1. mars 2014: „Mér finnst grafalvarlegt hvernig ráðamenn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar. […] Framkoma ráðamanna við tungumálið er kannski það alversta og hættulegasta í þessu máli öllu. […] Við höfum fylgst allnokkra hríð með árásum ráðamanna á tungumálið. Þær eru stórhættulegar vegna þess að með því að eyðileggja orð og hugtök í anda newspeak Georges Orwell í skáldsögunni 1984, með því er verið að ráðast gegn DNA þjóðarlíkamans, þjóðarsálarinnar.“ Og Sigurður hélt áfram:
„Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags alls staðar, það er skemmtilega augljóst í tilfelli okkar Íslendinga. Hið ritaða orð er grundvöllur sjálfsmyndar okkar sem þjóðar, við trúum á ritaðan texta. […] Vísvitandi afvegaleiðing orða og hugtaka jafngildir spillingu tungumálsins sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskiptanna. Á endanum blasir við siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins. Það felst alvarleg hætta í því þegar ráðamenn svara kröfum um að þeir standi við orð sín með útúrsnúningum. [Þ]að er fyrsta skrefið í afvegaleiðingu og spillingu tungumálsins, fyrsta skrefið til newspeak Orwells. Viljum við ganga þann veg? Þar var tungumálið notað til þess að kæfa sjálfstæða hugsun einstaklinganna.“