Sautjándinn

Í dag er þjóðhátíðardagurinn, 17. júní, sem iðulega er nefndur sautjándinn. Sú orðanotkun er meira en sextíu ára gömul – elsta dæmi sem ég finn um hana er í fyrirsögninni „Sautjándinn í Eyjum“ í Alþýðublaðinu 1962, átján árum eftir að 17. júní varð þjóðhátíðardagur. Næsta dæmi er úr sama blaði 1968, en þessi orðanotkun fer ekki að verða algeng fyrr en á níunda áratugnum. Alls eru rúm 220 dæmi um sautjándann á tímarit.is og tæp hundrað í Risamálheildinni. Fyrirmyndin er nokkuð augljós – talað hefur verið um þrettánda dag jóla sem þrettándann a.m.k. síðan á fyrri hluta nítjándu aldar. En þótt aldrei séu gerðar athugasemdir við þrettándann hefur sautjándinn iðulega sætt gagnrýni, ekki síst í þætti Gísla Jónssonar í Morgunblaðinu.

Í þættinum „Íslenskt mál“ 1988 taldi Gísli það „jaðra við óvirðingu, ef ekki helgispjöll að segja á 17. júní og bætti við: „Ég tala nú ekki um, þegar farið er að kalla þjóðhátíðardaginn sautjándann, svona rétt eins og þrettándann eða aðra minni háttar tyllidaga.“ Í sama þætti 1990 sagði Gísli: „Ég býst við að framhaldið verði „á sautjándanum“, ef ekki eru rammar skorður við reistar.“ Í sama þætti árið eftir talaði hann um fyrirsögnina „Hlýnar á sautjándanum“ sem „þetta lágkúrulega málfar“. Í sama þætti 2001 sagði Gísli: „Verst er þegar sagt er „á 17. júní“, eða „á sautjándanum“ sem sumum misheyrist „á sitjandanum“.“ Jón Aðalsteinn Jónsson og Baldur Pálmason skrifuðu einnig nokkrum sinnum um þetta í Morgunblaðið.

En öðrum fannst engin ástæða til að amast við þessu. Í þætti sínum 1996 birti Gísli Jónsson bréf frá Jóni Þórarinssyni tónskáldi sem sagði: „Og af því að þessar línur eru skrifaðar þrettánda dag jóla, á þrettándanum, get ég ekki stillt mig um að nefna að mér finnst móðurmálinu ekki hætta búin þótt talað sé um hátíðahöld á sautjándanum […].“ Gísli viðurkenndi að hann segði hiklaust „á þrettándanum“ en sagði: „Í vitund minni er þrettándinn feginsdagur, en þjóðhátíðardagurinn of hátíðlegur, þó gleðidagur sé, til þess að segja „á sautjándanum“.“ Mér finnst þetta þó fremur hlýlegt en lágkúrulegt og tek undir það sem Mörður Árnason segir í Málkrókum: „Það er ágætt mál að álfar fari á kreik á þrettándanum og að fjallkonan ávarpi þjóð sína á sautjándanum.“