Mig langar (til) að hitta þig
Hér hefur nokkrum sinnum verið spurt um það hvort forsetningin til sé á undanhaldi með langa – hvort mig langar að hitta þig og mig langar til að hitta þig séu gömul tilbrigði eða hvort það fyrrnefnda sé að leysa það síðarnefnda af hólmi. Því er til að svara að langa að er vissulega yngra en langa til að en þó gamalt, a.m.k. síðan um miðja 19. öld. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: „Segir hún sig langi að fara með Helga“ og „segir hann við fóstra sinn að sig langi að sigla í önnur lönd“. Samkvæmt tímarit.is eru bæði tilbrigðin algeng og hafa verið síðan á seinni hluta 19. aldar, en langa til að var þó lengi mun algengara. En eftir 1980 og einkum á þessari öld, hefur langa að sótt í sig veðrið og er nú allt að þrisvar sinnum algengara en langa til að.
Í nútímamáli er merking sagnarinnar langa 'sækja í (e-ð), vilja (e-ð) mjög gjarnan, hafa löngun í (e-ð)' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók. Í fornu máli er merkingin hins vegar frekar 'þrá, bíða með óþreyju eftir' eða jafnvel 'hlakka til' og þá fylgir sögninni oftast til en stundum eftir. Sögnin tekur þá oftast nefnifallsfrumlag. Í Íslensku hómilíubókinni segir: „sá er þeir höfðu margar aldir langað til að sjá.“ Í Alexanders sögu segir: „langar hann mjög til að bardaginn skuli takast sem fyrst.“ Í Orkneyinga sögu segir: „Orkneyingar mundu lítt langa til, að hann kæmi vestur þangað.“ Stundum er frumlagið þó í þolfalli – í Alexanders sögu segir: „langar mig til að við megum sjá náttúru þess heimsins.“ En langa að, án til, kemur ekki fyrir.
Þessi merkingarbreyting sagnarinnar langa, úr 'þrá' í 'vilja, hafa hug á', er ekki mikil, ekki algild og e.t.v. ekki mjög greinileg en mér finnst hún samt ótvíræð. Mér finnst freistandi að tengja undanhald til við þessa breytingu og halda því fram að mig langar til að hitta þig merki ‘ég þrái að hitta þig’ en mig langar að hitta þig merki fremur 'ég vil hitta þig' eða 'ég hef hug á að hitta þig'. Forsetningin til vísar oft til tíma, eins og í hlakka til einhvers, og það er fremur ákveðin tímavídd í þrá eitthvað en í vilja/þurfa eitthvað. Vissulega er merkingarmunur sambandanna lítill, og trúlegt að málnotendur hafi mismunandi tilfinningu fyrir þessu, en ég held samt að þetta skipti máli þótt fleira geti einnig spilað inn í, svo sem tilgangsleysi til.
Nafnháttarsetningar hafa ekkert sýnilegt fall og form þeirra er óbreytt hvort sem til er á undan þeim eða ekki. En í fornu máli tók til ekki bara með sér nafnháttarsetningu í sambandinu langa til, heldur gat einnig tekið nafnorð sem þá stóð í eignarfalli. Í Vopnfirðinga sögu segir: „Brodd-Helgi var heldur ókátur um sumarið og langaði mjög til komu Þorleifs.“ Í Mikjáls sögu segir: „Gerist nú þegar gleði mikil í fólki guðs, svo að langar til bardagans.“ En í nútímamáli hefur til alltaf staðarmerkingu í slíkum dæmum – við getum sagt mig langar til borgarinnar en ekki *mig langar til fararinnar. Í langa til gegnir til því engu hlutverki lengur – hvorki stýrir falli né hefur tíma- eða staðarmerkingu. Þetta tilgangsleysi getur stuðlað að því að það sé fellt brott.