Pása

Nafnorðið pása er mjög algengt í málinu en í Íslenskri orðabók er það sagt „óformlegt“ enda úr ensku eða dönsku, pause. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er það gefið athugasemdalaust og skýrt 'stutt hlé frá e-u, t.d. vinnu, námi'. Elsta dæmi um orðið á tímarit.is er úr gamanblaðinu Speglinum 1945: „Hér verður dálítil pása, meðan fundarmenn klappa.“ Lengi vel, allt fram yfir 1970, var orðið nær eingöngu haft um hlé á spilamennsku, yfirleitt á dansleikjum. Í Jazzblaðinu 1949 segir: „í allan þennan tíma fengu þeir aðeins tuttugu mínútna ,,pásu“.“ Í sama blaði 1950 segir: „Ég spilaði oft í „pásum“ fyrir trommuleikara“ og „Hann lék á skólaböllum með Óla Gauk og Steina Steingríms – tók í píanóið í ,,pásu“. Orðið var þá mjög oft innan gæsalappa.

Eftir 1970 var hins vegar smátt og smátt farið að nota orðið pása um ýmiss konar önnur hlé, einkum á vinnu, og hætt var að hafa það innan gæsalappa, jafnframt því sem tíðni þess margfaldaðist. Í Tímanum 1972 segir: „Það voru sko engar pásur á bænum þeim, bara unnið í striklotu, klukkustundum saman. Frændurnir voru heppnari. Þeir fengu pásur á eftir hverri röð.“ Í Morgunblaðinu sama ár segir: „Ég er búin að vinna hér á fjórða mánuð og einstaka sinnum fæ ég pásu. Pásurnar eru fínar.“ Í Vísi 1973 segir: „Þegar blaðamennirnir komu í æfingarstöð lögreglunnar á Seltjarnarnesi, var pása hjá nemendum í lögregluskólanum.“ Tíðni orðsins hefur haldið áfram að aukast undanfarna áratugi, einkum eftir aldamót.

En pása er ekki bara nafnorð – eins og í ensku er orðið líka notað sem sögn en sú notkun er nýrri og hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi sem ég finn um sögnina er í Degi 1993: „nú ætlaði hann að pása frá söginni og ræða dálítið um hugðarefni sitt.“ Annað dæmi er í Orðlaus 2003: „Þeir útvöldu sem fá vinnu nýta flestir hvert tækifæri til að pása, hangsa í matartímum og reykingapásum.“  Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Ég pásaði í miðri nostalgíustunu.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Tónarnir byrja að streyma um loftin blá klukkan 16; síðan verður pásað í matarhléi milli 18 og 20, en þá byrjar tónaflóðið aftur.“ Í Norðurslóð 2008 segir: „Í skarðinu pásaði ég aðeins, þó ekkert væri útsýnið.“

Í þessum dæmum merkir sögnin pása 'hvíla sig' og er áhrifslaus – tekur ekki með sér neitt andlag. Þetta er þó ekki algengasta notkun sagnarinnar. Í Fréttablaðinu 2005 segir: „Hægt að „pása“ beina sjónvarpsútsendingu o.fl.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Ég […] þurfti að pása Desperate housewifes þáttinn.“ Í Fréttatímanum 2016 segir: „Gott að geta „pásað“ kennarann.“ Í Vísi 2017 segir: „Það pásar „Call of Duty“ leikinn um leið og það hringir inn í umræðuþætti.“ Í Morgunblaðinu 2021 segir: „ég pásaði því ræmuna til að horfa á nýjustu fréttir af gosinu og bólusetningunni.“ Þarna tekur sögnin andlag og merkir 'stöðva tímabundið', 'gera hlé á' eða eitthvað slíkt og er oftast notuð um áhorf eða hlustun á stafrænt efni, spilun tölvuleikja o.fl.

Þótt orðið pása sé vitanlega tökuorð eins og áður segir fellur það ágætlega að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – nafnorðið er hliðstætt tjása og sögnin hliðstæð rása og mása. Tökuorð sem falla alveg að málinu auðga það en spilla því ekki, og eina gilda ástæðan sem gæti verið fyrir því að amast við þeim er sú að þau komi í stað orða sem fyrir eru í málinu og ýti þeim burt. En þannig er það ekki með pása – þótt nafnorðið merki 'hlé' kemur það alls ekki í stað þess orðs í öllum tilvikum. Það er t.d. aldrei talað um pásu í bíói, á sinfóníutónleikum o.s.frv. Áhrifssögnin pása í samböndum eins og pása myndina kemur ekki heldur í staðinn fyrir neina eina sögn. Það er sjálfsagt að viðurkenna bæði nafnorðið og sögnina sem fullgild íslensk orð.