Úr forskeyti í rót – endurtúlkun ör-

Forskeytið ör- er gamalt í málinu og tengist nafnorðum, lýsingarorðum og sögnum – „merking mismunandi, aðallega ýmist neitandi eða herðandi“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Í Orðum, öðru bindi Íslenskrar tungu, segir Guðrún Kvaran að orðið sé notað í fleiri en einni merkingu: „Ein þeirra gefur orði neikvæða merkingu sem í er fólgin einhvers konar smækkun eins og öreigi 'sá sem ekkert á', örvænta 'vænta einskis', örmagna 'sá sem ekki hefur magn, kraft'. Það getur einnig gefið orði, sem í eðli sínu er neikvætt, jákvæða merkingu, til dæmis öruggur 'sá sem engan ugg, ótta hefur'.“ Einnig getur það „haft merkinguna 'mjög' í smækkandi merkingu þegar því er skeytt framan við lýsingarorð, til dæmis örsmár, örlítill, örsnauður“.

En merking og hlutverk ör- hefur breyst – í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt sem 'fyrri liður samsetninga sem táknar e-ð mjög smátt'. Líklegt er að þessi merkingarbreyting stafi af endurtúlkun forskeytisins í orðum eins og örlítill og örsmár. Í stað þess að skilja fyrri liðinn sem herðandi í merkingunni 'mjög' hafi málnotendur farið að skilja orðið á sama hátt og t.d. agnarlítill sem merkir 'lítill eins og ögn' og túlkað örlítill sem 'lítill eins og ör' (þótt ör sé ekki til sjálfstætt í þessari merkingu). Heildarmerking orðsins færist því í raun yfir á forliðinn og hann fer að lifa sjálfstæðu lífi í þeirri merkingu og taka þátt í nýjum samsetningum. Í þessu nýja hlutverki er eiginlega eðlilegt að líta á ör- sem rót fremur en forskeyti, hliðstætt t.d. smá-.

Eitt elsta orðið af þessu tagi er líklega öreind sem er þýðing á particle og er síðan snemma á 20. öld. En einhvern tíma á öldinni var farið að nota ör- sem þýðingu á forliðnum micro- og við það hljóp mikill vöxtur í notkun þess, einkum í tengslum við margvíslegar tækni- og samfélagsnýjungar. Í nýlegum orðum eins og örbylgjaörforrit, örfyrirtæki, örgjörvi, örgreining, örmerki, örnámskeið, örríki, örskipun, örskynjari, örtækni, örtölva og ótalmörgum öðrum samsvarar ör- yfirleitt micro- þótt stöku sinnum sé það einnig notað sem þýðing á mini- (sem annars er oftast þýtt smá-) og jafnvel nano-. Þessi liður er einstaklega lipur í samsetningum og sjálfsagt að nýta hann til að smíða ný orð, eins og t.d. örnám fyrir micro-credentials.