Að krop(p)na úr kulda

Í gær var hér spurt um orðið kropna sem fyrirspyrjandi hafði heyrt þar sem venja er að nota sögnina krókna, í sambandinu krókna úr kulda. Í umræðum var bent á að sögnin kropna kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og er skýrð 'dø af Kulde' – 'deyja úr kulda'. Hún er líka í Íslenskri orðabók en þar skrifuð kroppna og skýrð 'krókna' eða 'kreppast, herpast saman (af kulda)'. Sögnin kemur fyrir í fornu máli í síðarnefndu merkingunni – „Hún var svo armsköpuð að hún var kropnuð öll saman svo að báðir fætur lágu bjúgir við þjóin uppi“ segir t.d. í Heimskringlu. Framburður myndanna kropna og kroppna er nákvæmlega sá sami þannig að eðlilegt er að þær séu notaðar á víxl í handritum.

Gömul dæmi eru einnig til um krop(p)na í merkingunni 'krókna'. Í handriti frá því í lok 15. aldar segir: „En ölmusumenn guðs hungraðir og kalnir kropna fyrir hans dyrum.“ Í Biskupa-annálum Jóns Egilssonar frá fyrri hluta 17. aldar segir: „Þar skammt eptir kom sú skúr um fardaga, að fimmtigi kúa þá kroppnaði í Biskupstúngum.“ Í Vatnsfjarðarannál yngri frá seinni hluta 17. aldar segir: „komst fólkið á land mestan part, en kropnaði þó fjöldi af því, á land kom, sökum þess það var silki klætt einasta.“ Í Ölfusvatnsannál frá miðri 18. öld segir: „Kroppnaði þá víða sauðfé og sumstaðar kálfar“ og „nautpeningur, hestar og fé, sem magurt var, kroppnaði og dó“. En yngri dæmi um þessa merkingu í krop(p)na hef ég ekki fundið.

Sögnina krókna er skýrð 'deyja úr kulda, vosbúð' eða 'hnipra sig saman' í Íslenskri orðabók og sama gildir um myndina krokna – í Íslenskri orðsifjabók er talið hugsanlegtkrókna sé orðið til úr krokna fyrir áhrif frá nafnorðinu krókur. Elstu dæmi um báðar þessar myndir eru frá 17. öld og er svo að sjá sem þær – og síðar eingöngu krókna – hafi leyst krop(p)na af hólmi. Í Ísafold 1912 segir Andrés Björnsson: „Að kroka er alþýðumál nyrðra, og hefi eg einkum heyrt það sagt um gripi, sem standa í skjóli fyrir illviðrum. […] Að kroka þýðir því að standa boginn (optast af kulda), og til þess svarar verbum inchoativum að krokna (nú krókna) = byrja að kreppast (af kulda), sem nú hefir fengið merkinguna: að deyja úr kulda.“

Það er því ljóst að sagnirnar krop(p)pna og krokna / krókna eru báðar gamlar í málinu – sú fyrrnefnda þó eldri að því er virðist – og höfðu mjög svipaða merkingu. Uppruni þeirra er ekki sá sami en vegna líkinda bæði í merkingu og framburði virðist þeim hafa slegið saman fyrir löngu. Myndin krókna er nær einhöfð í nútímamáli en tilvist kropna í Íslensk-danskri orðabók sýnir að sú sögn hefur eitthvað þekkst í byrjun 20. aldar, þrátt fyrir að engin dæmi yngri en frá 18. öld virðist finnast um hana á prenti – í merkingunni ‚deyja úr kulda‘. Einhver yngri dæmi má hins vegar finna um hana í merkingunni 'kreppast, herpast saman' – í kvæði í Lögréttu 1925 segir t.d.: „þá skulu þínar vesölu, mögru kjúkur kropna.“

En svo dúkkar krop(p)na allt í einu upp hér í fyrirspurn þegar komið er nokkuð fram á 21. öldina, þrátt fyrir að ekkert hafi til hennar spurst mjög lengi. Þetta sýnir tvennt. Í fyrsta lagi að þótt við heyrum óvanalegar orðmyndir sem okkur virðist í fyrstu að hljóti að vera einhvers konar misskilningur eða villa borgar sig ekki að hrapa að ályktunum. Í öðru lagi að orð geta lifað lengi í töluðu máli, jafnvel öldum saman, án þess að komast nokkuð á prent. Vegna hljóðfræðilegra líkinda krop(p)na og krókna er vissulega hugsanlegt að þarna sé um misheyrn að ræða, og það hefði ég talið ef gömul dæmi um krop(p)na hefðu ekki fundist – en í ljósi þess að sú sögn var til finnst mér eðlilegast að telja að hún hafi lifað óslitið í málinu.