Posted on Færðu inn athugasemd

Segin saga

Hér var nýlega spurt um orðið segin sem kemur eingöngu fyrir í sambandinu það er segin saga sem er skýrt 'alltaf er þetta svona, þetta bregst ekki' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er merkingarlega og hljóðfræðilega líkt sögninni segja en er samt engin venjuleg beygingarmynd af þeirri sögn og er greint sem sjálfstætt lýsingarorð, seginn, í orðabókum – reyndar eru bæði seginsaga og segjandssaga/-sögn (sem merkt er úrelt) sjálfstæð flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 en vísað á seginn í báðum tilvikum. Setningarleg staða orðsins bendir helst til að það sé afbrigðilegur lýsingarháttur þátíðar, segin haft fyrir sögð, en merkingin er þó önnur en í það er sögð saga – enda kemur í ljós við nánari athugun að uppruninn er annar.

Í bréfi frá Konráð Gíslasyni til Gríms Thomsen 1890 segir: „Enn ef jeg kallaði segin í segin saga eða segjand í segjandsaga eða segjandi í segjandi saga participium praeteritum [lýsingarhátt þátíðar], þá væri jeg æðisgenginn; […] segin saga er ekki = sögð saga, heldur = segjandi saga (= 'saga, sem er segjandi, af því að hún er sönn').“ Í grein í Stíganda 1944 segir Björn Sigfússon: „Það er segin saga er gamalt orðtak um „sögu“, sem mjög oft hefur gerzt og víða og er á almæli. Fyrst mun þetta hafa verið segjandasaga (< segjandi saga, saga sem alltaf mátti segja eða alltaf var verið að segja). En úr segjand-, sem ýmsum varð torskilið, bjuggu menn til fráskilið lo., seginn, í skyldri merkingu og mega nútíðarmenn vel hafa það orð.“

Í athugasemdum við Orðakver Finns Jónssonar í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga 1925 segir Páll Bjarnason: „“Seginsaga”, svo ritað og rakið: segjands = saga = segjandi manns (gömul ef-s mynd). Þótt nú segjand-saga væri til í einu orði eða með bandi, þá er rangt að skrifa seginsaga í einu orði, því það er fram borið í tveimur orðum eins og hver önnur sjálfstæð orð og engar álíkur til, er heimili, að halda því fram að segjands verði segin. Aftur á móti er það algild regla að mynda lýsingarorð ítrekunar merkingar af sögnum, með því að skeyta -inn við nafnháttarstofn, t. a. m. dettinn, sem oft dettur, söngvinn, hygginn, seginn; segin saga merkir því sama sem tíðsögð saga, mál manna = það, sem satt er, því sjaldan lýgur almanna rómur.“

Það er því ljóst að segin er ekki komið af lýsingarhætti þátíðar eins og virst gæti í fljótu bragði, en skiptar skoðanir eru sem sé um upprunann – Konráð, Finnur og Björn telja segin komið af lýsingarhætti nútíðar, segjandi, en Páll telur orðið myndað beint af nafnhættinum með viðskeytinu -in. Lausnina má líklega finna í Ólafs sögu helga þar sem segir: „„Skuluð þér,“ segir hann, „hér vera og sjá þau tíðindi er hér gerast. Er yður þá eigi segjandi saga til, því að þér skuluð frá segja og yrkja um síðan.““ Þetta merkir væntanlega 'það þarf ekki að segja þér söguna' (því að þú ert vitni). En í öðru handriti sögunnar frá því seint á 13. öld stendur segjandssaga í stað segjandi saga og verður því að telja líklegt að fyrrnefnda skýringin sé rétt.

Óljóst er hvenær farið var að nota myndina segin – sjálfstæða eða í sambandinu seginsaga. Elsta dæmið um hana sjálfstæða í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Odysseifskviðu frá fyrri hluta 19. aldar: „Það er segin saga, þegar hússbændurnir eru ekki uppi yfir þrælunum, þá nenna þeir ekkert handtak að vinna.“ Elsta dæmi um seginsaga á tímarit.is er úr Dagfara 1906 – „er þá seginsaga að nöfn á verkfærum og handtökum eru útlend“. Þótt hún eigi sér líklega rætur í lýsingarhætti nútíðar þýðir það vitanlega ekki að rangt sé frá samtímalegu sjónarmiði að greina hana sem lýsingarorðið seginn eins og orðabækur gera – fjölmörg dæmi eru um að lýsingarhættir, bæði þátíðar og nútíðar, verði að lýsingarorðum.

Það má samt spyrja hvort seginn sé nokkuð til sem sjálfstætt lýsingarorð, þar sem eina mynd þess sem kemur fyrir er segin sem kemur eingöngu fyrir í þessu sambandi. Því væri hugsanlega eðlilegra að líta á seginsaga sem samsett orð, enda er til fjöldi samsettra orða með -saga sem seinni lið, svo sem kjaftasaga, lygasaga, dæmisaga, þjóðsaga o.s.frv. Samsetningin seginsaga er vissulega til eins og áður segir, og í Stafsetningarorðabók Halldórs Halldórssonar (þriðju útgáfu 1982) og Réttritunarorðabók Baldurs Jónssonar frá 1989 er gefinn kostur á þeim rithætti. Gegn þessu mælir þó áherslan – hún er venjulega álíka þung á segin og saga sem bendir til þess að málnotendur skynji þetta sem tvö orð. Höldum okkur bara við lýsingarorðið seginn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Bankasýslan greiðir söluráðgjöfum fyrir aðkomu sína

Ég hef að mestu leyti forðast að skrifa hér um afturbeygingu – ekki vegna þess að um hana sé ekkert að segja eða reglur um hana séu svo ljósar að þær þurfi ekki að ræða. Þvert á móti – þær reglur eru fjarri því að vera einfaldar og ráðast af samspili beygingarlegra, setningafræðilegra og merkingarlegra þátta, auk þess sem málnotendur hafa oft mismunandi skoðanir á einstökum setningum. Þetta er því sannarlega verðugt umfjöllunarefni en kannski ekki heppilegt fyrir þennan vettvang því að það krefst oft flókinna útskýringa sem geta orðið torskildar öðrum en þeim sem hafa meiri kunnáttu í setningafræði en hægt er að ætlast til af almennum málnotendum. Ég stenst þó ekki mátið að fjalla um setningu í frétt í Heimildinni í gær:

„Bankasýsla ríkisins ætlar ekki að taka ákvörðun um [hvort hún greiði söluráðgjöfum valkvæða þóknun fyrir aðkomu sína að sölu á hlut í Íslandsbanka fyrir rúmum tveimur árum] fyrr en athugun Fjármálaeftirlitsins á þætti þeirra í söluferlinu liggur fyrir.“ Af samhengi er ljóst að afturbeygða eignarfornafnið sína vísar til andlagsins söluráðgjöfum, og sama máli gegnir um persónufornafnið þeirra. Þessi setning var til umræðu í Málvöndunarþættinum þar sem málshefjandi taldi afturbeygingu ranglega notaða í „fyrir aðkomu sína“ – það væri eins og vísað væri til frumlagsins hún þannig að verið væri að ræða um þóknun til Bankasýslunnar sjálfrar en þar sem svo væri ekki ætti að standa þarna „fyrir aðkomu þeirra“ – söluráðgjafanna.

Málið snýst sem sé um það hvort afturbeygingin hljóti að vísa til frumlagsins þarna, eins og vissulega er langalgengast, eða hvort hún geti vísað til andlagsins. Um slíka vísun eru ýmis dæmi að fornu og nýju. Í Grettis sögu segir: „Grettir þakkaði honum fyrir heilræði sín.“ Í Þórarins þætti ofsa segir: „Eyjólfur kvaðst þakka konungi fyrir gjafar sínar og vinmæli.“ Í báðum tilvikum er ljóst að afturbeygingin vísar til andlags, honum í fyrri setningunni en konungi í þeirri seinni – Grettir er ekki að þakka fyrir eigin heilræði og Eyjólfur ekki að þakka fyrir eigin gjafir. Þetta eru alveg hliðstæðar setningar og „hún greiði söluráðgjöfum valkvæða þóknun fyrir aðkomu sína“ – af merkingarlegum ástæðum er ljóst að vísað er til andlags, ekki frumlags.

Í nútímamáli má finna fjölda sambærilegra dæma með sögninni greiða. Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Einnig neituðu hjónin að greiða þeim fyrir vinnu sína.“ Í frétt á vef Ríkisútvarpsins 2012 segir: „Kröfuhafar greiða slitastjórn fyrir störf sín.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Hún hvetur fólk til að styðja við bakið á listamönnum og greiða þeim fyrir störf sín og listaverk.“ Í Bændablaðinu 2021 segir: „Skattgreiðendur eru þegar að greiða bændum fyrir framleiðslu sína.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Ríkið greiðir björgunarsveitunum fyrir störf sín við eldgosið í Geldingadölum.“ Í öllum þessum tilvikum er ljóst af merkingu og samhengi að afturbeygingin vísar til andlags – undirstrikaða liðarins í setningunum – en ekki til frumlags.

Það er sem sé ekkert athugavert við að láta afturbeygingu vísa til andlags eins og gert er í áðurnefndri frétt Heimildarinnar. Hitt er rétt að afturbeygingin er þarna valkvæð (sem hún er aldrei þegar vísað er til frumlags) – í stað afturbeygða eignarfornafnsins má eins nota persónufornafn. Það má líka halda því fram að í sumum tilvikum geti verið heppilegra að nota persónufornafn til að forðast misskilning – í setningum eins og „Ákærði kvaðst hafa rétt piltinum dótið sitt“ í héraðsdómi frá 2007 er óljóst hvort ákærði eða pilturinn á dótið. Í umræddri frétt hefur þeirra í næstu setningu líka sömu vísun og sína og það getur verið ruglandi. En það breytir því ekki að setningin í frétt Heimildarinnar er í fullu samræmi við málkerfið.