Posted on Færðu inn athugasemd

Stríðandi fylkingar, berjandisk og bölvandisk

Nafnorðið stríð er mjög algengt í málinu í merkingunni 'viðureign vopnaðra hermanna, ofast á vegum yfirvalda og í langan tíma' eins og það er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók – einnig í ýmsum yfirfærðum merkingum eins og kalt stríð, stríð gegn fíkniefnum o.s.frv. Samsvarandi sögn, stríða, er líka til en hefur langoftast merkinguna 'gera grín að (e-m), beita (e-n) meinlausum hrekkjum' eða þá 'eiga í baráttu (við e-ð)' eða 'brjóta gegn' – eiga við vandamál að stríða, stríða gegn alþjóðalögum o.s.frv. Sjaldan er sögnin notuð í merkingunni 'heyja stríð' þótt einstöku dæmi finnist um það – „Svíar sneru sér á meðan í austurátt og stríddu við Rússa og Pólverja, eins og þeir raunar höfðu verið iðnir við aldirnar á undan“ segir í Tímanum 1983.

Aftur á móti er lýsingarháttur nútíðar af þessari sögn, stríðandi, mjög algengur í stöðu lýsingarorðs og er sérstök fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók, skýrður 'sem á í baráttu, heyr baráttu við e-ð' með dæmunum stríðandi fylkingar og stríðandi öfl – önnur algeng nafnorð í þessu sambandi eru t.d. aðilar, þjóðir, glæpagengi og ættbálkar. Langalgengasta sambandið er stríðandi fylkingar – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1943. Tíðni sambandsins margfaldast eftir 1980 en alls er á þriðja þúsund dæma á tímarit.is og hátt í þrjú þúsund í Risamálheildinni. Stundum væri vissulega hægt að tala um heri í staðinn fyrir stríðandi fylkingar en oftast er ekki um að ræða formlega heri á vegum ríkja, heldur hvers kyns baráttuhópa af öðru tagi.

Í Morgunblaðinu 1983 segir: „En strax á nýjársdag bárust fréttir af hörðum bardögum stríðandi fylkinga í hafnarborginni Tripoli í norðurhluta landsins.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Stríðandi fylkingar í Sómalíu hafa rænt hjálpargögnum að undanförnu.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Írski lýðveldisherinn gerði í gær að engu vonir um að takast mætti að koma á vopnahléi á ný milli stríðandi fylkinga á N-Írlandi.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Lögin eru talin mikilvæg til að koma á sættum milli stríðandi fylkinga í Írak.“ Í DV 2008 segir: „Stríðandi fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins hafa verið áberandi undanfarna mánuði.“ Í Morgunblaðinu 2015 segir: „Ríkisútvarpið er nú, rétt einn ganginn, í skotlínu stríðandi fylkinga á Alþingi.“

Sé notuð sögn til að lýsa samskiptum þeirra hópa sem um er að ræða væri eðlilegast að nota miðmynd sagnarinnar berja og segja fylkingar berjast – eins og áður segir kæmi vart til greina að nota sögnina stríða og segja fylkingar stríða. En þegar þarf að nota lýsingarorð um athafnir fylkinganna er ekki hægt að nota lýsingarhátt nútíðar af berja og segja *berjandi fylkingar vegna þess að germyndin berja merkir dálítið annað en miðmyndin berjast. Þá vandast málið, því að lýsingarháttur nútíðar í miðmynd – sem ætti að vera berjandist þar eð miðmyndarendingin –st kemur alltaf aftast – er varla til í eðlilegu nútímamáli og t.d. ekki gefinn í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þess vegna er útilokað að segja *berjandist fylkingar.

Lýsingarháttur nútíðar í miðmynd var hins vegar til í fornu máli en endaði þá á -sk í stað -st berjandisk. Þeirri mynd bregður stundum fyrir í nútímamáli en þá ævinlega í spaugi eða hálfkæringi að því er virðist. Í bréfi frá Matthíasi Jochumssyni í Ísafold 1915 segir: „nema skáldið sé eins og örkin gamla, byltandisk og berjandisk í brimróti veraldarflóðsins.“ Halldór Laxness notaði sambandið berjandisk og bölvandisk nokkrum sinnum, m.a. í Sjálfstæðu fólki: „nóg var að hafa hrútinn Séra Guðmund og bróður hans á krónni hinumegin við flórinn, berjandisk og bölvandisk alla nóttina.“ Í grein eftir Guðmund Andra Thorsson í Fréttablaðinu 2016 segir: „þar sem fullir karlmenn fara um í flokkum, berjandisk og bölvandisk.“

Örfá dæmi má þó finna um berjandist. Í sálmi í Sálmabók Guðbrands biskups frá 1589 segir: „Lausn, blessun og brúðguminn, / berjandist fyrir söfnuð sinn.“ Í Morgunblaðinu 1971 segir: „Goethe 10 árum eldri, lifandi og alinn upp við allsnægtir, en Schiller af fátækum foreldrum og berjandist allt lífið við basl og veikindi.“ Í Kjarnanum 2016 segir: „Hvers mega þeir útgerðarmenn þá gjalda sem lögðu allt traust sitt á æðstu ráðamenn þjóðarinnar, innan þings eða berjandist bljúgir við þá í bönkum?“ En þetta hljómar undarlega og þess vegna er lýsingarháttur nútíðar af stríða notaður í staðinn. Sambandið stríðandi fylkingar og ýmis önnur hliðstæð sambönd eru löngu orðin föst í málinu og ekkert við þau að athuga.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ólympíuleikarnir í Ríkisútvarpinu

Ég veit ekki hvort eða hve mikið þið horfðuð á útsendingar frá Ólympíuleikunum í París – ég veit svo sem að mörgum þótti nóg um og vildu fá sínar fréttir á réttum tíma. En mér finnst ástæða til að hrósa Ríkisútvarpinu sérstaklega fyrir þessar útsendingar – ekki vegna þess að íþróttir séu viðfangsefni þessa hóps, heldur vegna þess að það er mikilsvert að fá lýsingar og umfjöllun um fjölbreyttar íþróttagreinar á íslensku. Ég er enginn sérstakur íþróttaáhugamaður en horfði þó löngum stundum – ekki síst vegna lýsinganna. Bæði starfsfólk Rúv og sérfræðingar sem voru kallaðir til stóðu sig einstaklega vel í því að miðla því sem var að gerast til áhorfenda og útskýra það af áhuga, þekkingu og gleði – yfirleitt á kjarngóðri og skýrri íslensku.

Vitanlega slæddust erlend orð með stöku sinnum, stundum að óþörfu – en það er óhjákvæmilegt í hita augnabliksins, ekki síst þegar verið er að lýsa greinum sem sumar hverjar eiga sér litla hefð hér. En ég heyrði líka fjölda íslenskra orða sem ég þekkti ekki fyrir og sýna að fólk í ýmsum íþróttagreinum er duglegt við að smíða nýyrði um greinar sínar. Það er gífurlega mikilvægt og skiptir raunar öllu máli fyrir íslenskuna að sýna fram á að unnt er að nota hana við allar aðstæður og um öll svið mannlífsins. Það eina sem skyggði á útsendingar Ríkisútvarpsins frá Ólympíuleikunum var auglýsing sem iðulega fór á undan þeim og var að hluta á ensku eins og ég hef nefnt hér áður. Það er óboðlegt og gerist vonandi ekki aftur.