Ólympíuleikarnir í Ríkisútvarpinu

Ég veit ekki hvort eða hve mikið þið horfðuð á útsendingar frá Ólympíuleikunum í París – ég veit svo sem að mörgum þótti nóg um og vildu fá sínar fréttir á réttum tíma. En mér finnst ástæða til að hrósa Ríkisútvarpinu sérstaklega fyrir þessar útsendingar – ekki vegna þess að íþróttir séu viðfangsefni þessa hóps, heldur vegna þess að það er mikilsvert að fá lýsingar og umfjöllun um fjölbreyttar íþróttagreinar á íslensku. Ég er enginn sérstakur íþróttaáhugamaður en horfði þó löngum stundum – ekki síst vegna lýsinganna. Bæði starfsfólk Rúv og sérfræðingar sem voru kallaðir til stóðu sig einstaklega vel í því að miðla því sem var að gerast til áhorfenda og útskýra það af áhuga, þekkingu og gleði – yfirleitt á kjarngóðri og skýrri íslensku.

Vitanlega slæddust erlend orð með stöku sinnum, stundum að óþörfu – en það er óhjákvæmilegt í hita augnabliksins, ekki síst þegar verið er að lýsa greinum sem sumar hverjar eiga sér litla hefð hér. En ég heyrði líka fjölda íslenskra orða sem ég þekkti ekki fyrir og sýna að fólk í ýmsum íþróttagreinum er duglegt við að smíða nýyrði um greinar sínar. Það er gífurlega mikilvægt og skiptir raunar öllu máli fyrir íslenskuna að sýna fram á að unnt er að nota hana við allar aðstæður og um öll svið mannlífsins. Það eina sem skyggði á útsendingar Ríkisútvarpsins frá Ólympíuleikunum var auglýsing sem iðulega fór á undan þeim og var að hluta á ensku eins og ég hef nefnt hér áður. Það er óboðlegt og gerist vonandi ekki aftur.