Hiti núll gráður
Í gær var hér spurt hvers vegna væri notuð fleirtala nafnorðs með núll – upphaflega var tekið dæmið núll hestar en vissulega er rétt að við notum sjaldan núll með nafnorðum á þennan hátt. Helst er það í dæmum eins og núll gráður sem bent var á í umræðum, og þá er alltaf höfð fleirtala. Þetta er mjög góð spurning og svarið liggur ekki alveg í augum uppi, en gefur tilefni til vangaveltna um stöðu og hlutverk fyrirbærisins tala í málinu. Við erum vön að segja að eintala vísi til eins eintaks eða tilviks eða einingar af því sem um er rætt og þess vegna segjum við ein gráða, fleirtala til fleiri en eins og þess vegna segjum við tvær gráður – en hvora töluna á að nota þegar hvorki er vísað til einnar einingar né fleiri, heldur engrar eins og núll gerir?
Hér er rétt að benda á að því fer fjarri að sambandið milli málfræðilegrar tölu og fjölda þess sem um er rætt sé alltaf eins einfalt og nefnt var hér að framan. Það er auðvitað alþekkt að á eftir töluorðum sem enda á einum kemur eintala – við segjum tuttugu og ein gráða og þúsund og ein nótt en ekki *tuttugu og ein gráður og *þúsund og ein nætur þótt gráðurnar og næturnar séu margar. Þetta er málfræðileg regla sem þarna tekur völdin af merkingunni, ef svo má segja – það er seinasti liður tölunnar en ekki talan í heild sem ræður tölu nafnorðsins. Í ýmsum málum er notuð fleirtala í slíkum tilvikum, en íslenska hefur alltaf haft þarna eintölu. Fyrir því er engin sérstök ástæða – þetta er ein af þessum málvenjum sem við kunnum ekki skýringu á.
Það er hins vegar ekki víst að við höfum öll áttað okkur á því að við notum oft eintölu sumra nafnorða með öðrum tölum en þeim sem enda á einum. Við segjum einnar gráðu frost, en við segjum líka oft tveggja gráðu frost, þriggja gráðu frost o.s.frv. frekar en tveggja gráð(n)a frost, þriggja gráð(n)a frost o.s.frv. – notum sem sé eignarfall eintölu frekar en fleirtölu þótt gráðurnar séu fleiri en ein. Á tímarit.is er allt að þrisvar sinnum algengara að nota eintölu en fleirtölu í slíkum dæmum. Sambærileg dæmi má finna með fleiri veikum kvenkynsorðum, t.d. fimm stjörnu hótel, 24 peru ljósabekkir. Það er vel þekkt að við virðumst oft forðast eignarfall fleirtölu af veikum kvenkynsorðum, e.t.v. vegna óvissu um hvort það eigi að vera -a eða -na.
Þetta sýnir glöggt að formleg tala nafnorðs sem stendur með töluorði hefur engin áhrif á merkingu sambandsins – það er alltaf töluorðið sem ræður merkingunni. Merkingarlega skiptir auðvitað engu máli hvort við notum eintölu eða fleirtölu með núll – strangt tekið má halda því fram að hvort tveggja sé jafn óeðlilegt vegna þess að núll vísar hvorki til einnar einingar né fleiri. Við getum hugsað okkur að það sé sjálfgefið í málinu að hafa nafnorð sem stendur með töluorði í fleirtölu – eina undantekningin frá því er ef talan endar á einum. Þess vegna segjum við núll gráður – núll fellur ekki undir undantekninguna og því kemur sjálfgefin tala fram, þ.e. fleirtala. Það væri svo sem hægt að segja núll gráða – en það er bara ekki málvenja.