Posted on Færðu inn athugasemd

Eru Danir karlkyns?

Þótt flest starfs- og hlutverksheiti sem enda á -maður séu að nafninu til kynhlutlaus, í þeim skilningi að þau á að vera hægt að nota um fólk af öllum kynjum, fer því fjarri að svo sé í raun í huga málnotenda. Sama gildir um íbúaheiti sem öll eru karlkyns í íslensku – þau hafa greinlega sterk tengsl við karlmenn í huga málnotenda. Til að sýna fram á þetta skoðaði ég í Risamálheildinni hvaða orðalag þar er haft um nafngreinda Dani. Ég leitaði að fimm samböndum – Daninn X, danski *maðurinn X, danska *konan X, hinn danski X og hin danska X. X stendur hér fyrir sérnafn, og * stendur fyrir hvaða fyrri hluta sem er – *maðurinn skilar þá t.d. þingmaðurinn, leikmaðurinn, listamaðurinn o.s.frv., og samsvarandi með *konan.

Alls voru 3.689 dæmi um Daninn X í Risamálheildinni og þar af vísuðu aðeins 32 til kvenna eða tæplega 0,9%. Vissulega er margfalt meira sagt frá körlum en konum í fjölmiðlum en þó er ekki trúlegt að munurinn sé svona mikill og líklegra að þetta stafi að einhverju leyti af því að karlkynsorðið Dani sé síður notað um konur. Svipað kemur út þegar danski *maðurinn X er skoðað. Sú leit skilaði 3.807 dæmum og þar af vísaði ekki nema 31 til kvenna eða rúmlega 0,8%. Hér gegnir sama máli – skýringin á þessum gífurlega mun hlýtur að einhverju leyti að vera sú að málnotendum finnist samsetningar með -maður síður eiga við um konur. Þess í stað eru oft notaðar samsetningar með -kona – leit að danska *konan X skilaði 620 dæmum.

Allt annað er uppi á teningnum þegar ekki eru notuð nafnorð í karlkyni heldur eingöngu lýsingarorð sem beygjast í kynjum. Alls fundust 713 dæmi um sambandið hinn danski X en 529 um hin danska X – hlutfall kvenkynsins er þar tæp 43% af heildinni. Þegar allt er talið saman – Daninn X, danski *maðurinn X, danska *konan X, hinn danski X og hin danska X – er hlutfall dæma sem vísa til kvenna tæp 13% af heildinni. Það má halda því fram að sú tala endurspegli karllægni í umfjöllun fjölmiðla. En tæplega 1% í vísun orðsins Dani og í vísun samsetninga með -maður til kvenna endurspeglar hins vegar karllægni orðanna sem um er að ræða – þá tilfinningu málnotenda að þrátt fyrir meint kynhlutleysi tengist þau fremur körlum en konum.

Mörgum finnst þessi kynjahalli væntanlega ekkert til að gera veður út af, og það er a.m.k. ljóst að á honum er engin einföld lausn. Vissulega eru til ýmsar samsetningar með -kona sem stundum eru notaðar í stað samsetninga með -maður í vísun til kvenna, en sú lausn er oft ekki sérlega heppileg, m.a. vegna þess að eftir sem áður vantar orð um kynsegin fólk. Það væri hugsanlegt að búa til kvenkyns íbúaheiti, *Dana, til að nota í vísun til kvenna, en það væri tæpast raunhæft af ýmsum ástæðum. Í þessu tilviki eins og ýmsum öðrum verðum við, um sinn a.m.k., að búa við málið eins og það er – en það er samt mikilvægt að átta sig á þeim duldu og oftast ómeðvituðu skilaboðum sem við sendum með málnotkun okkar í dæmum eins og þessu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að kynna þeim fyrir tónlist og ljóðum

Í gærkvöldi stóð fyrirsögnin „Kynna Svíum fyrir íslenskri tónlist“ um stund á forsíðu mbl.is. Innan klukkustundar hafði henni verið breytt í „Kynna Svíum íslenska tónlist“ eins og hún er nú, en í millitíðinni hafði hún verið gripin upp í Málvöndunarþættinum þar sem einn þátttakenda í umræðunni skrifaði: „Nú bíður maður spenntur eftir því að einhver komi hér inn og segi að þetta sé bara eðlilegt mál margra og engin ástæða til að amast við því.“ Ég hélt reyndar í upphafi að þetta væri tilviljanakennd villa en við nánari athugun fæ ég ekki betur séð en þetta sé einmitt „eðlilegt mál margra“ en fólk getur auðvitað „amast við því“ ef því sýnist svo. En þetta eru ekki einu tilbrigðin í fallnotkun með sögninni kynna eins og ég hef áður skrifað um.

Sögnin kynna tekur ýmist tvö andlög, það fyrra í þágufalli og það seinna í þolfalli eins og „Hún […] kynnti honum ungan, laglegan mann“ í Fálkanum 1946, eða þolfallsandlag og forsetningarlið með þágufalli eins og „Hann kynnti hana fyrir vini sínum“ í Tímanum 1946. Áður fyrr vísuðu þessir liðir ævinlega til fólks eins og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók bendir til: 'láta (tvo eða fleiri) kynnast; segja til nafns (síns eða einhvers annars)'. Nú er hins vegar algengt að þolfallsliðurinn vísi til hugmynda eða hluta, t.d. „Guðbrandur kynnti honum hugmynd sína um róðrarvélina“ í Breiðfirðingi 1990 og „Ég kynnti tillöguna fyrir borgarstjóra viku síðar“ í Degi 1997. Þessi breyting virðist ekki vera ýkja gömul og er aldrei gagnrýnd.

Á hinn bóginn er oft amast við því að þágufallsliðurinn í sambandinu kynna X fyrir Y sé látinn vísa til hugmynda eða hluta, eins og „Elsti sonur Refskís kynnti hann fyrir verkum Byrons“ í Morgunblaðinu 1987 eða „kynnti hann fyrir óperu og ballett“ í Heimsmynd 1991. Andlag í þolfalli táknar mjög oft einhvers konar þolanda, þann sem verður fyrir einhverjum áhrifum af þeim verknaði sem sögnin lýsir. Í setningum eins og hún sendi þessa bók til mín eða hún keypti þessa bók má segja að andlagið þessa bók verði fyrir ákveðnum áhrifum – breyti um staðsetningu eða eiganda. Vissulega er þetta ekki algilt en þó svo algengt að ekki er ólíklegt að málnotendur hafi tilfinningu fyrir því að eðlilegt hlutverk þolfallsandlags sé að vera einhvers konar þolandi.

En í ég kynnti tillöguna fyrir borgarstjóra og Guðbrandur kynnti honum hugmynd sína verður þolfallsandlagið tillöguna / hugmynd ekki fyrir neinum áhrifum frá sögninni – áhrifin koma fram hjá þeim sem kynnist tillögunni / hugmyndinni, hvort sem sú persóna er tjáð í forsetningarlið eða sem andlag. Þess vegna má segja að ég kynnti borgarstjóra fyrir tillögunni sé í betra samræmi við venjuleg mynstur málsins. Við getum gert ráð fyrir að það hafi einhver áhrif á borgarstjóra eða afstöðu hans að komast í kynni við umrædda tillögu, og því er „eðlilegt“ að hann standi í þolfalli. Þessi breyting er því mjög skiljanleg. Aftur á móti hef ég ekki fundið dæmi eins og *Guðbrandur kynnti hann hugmynd sinni þar sem hlutverk andlaganna víxlast.

Þessi notkun sagnarinnar kynna er a.m.k. fjörutíu ára gömul og orðin mjög algeng. Notkun tveggja þágufalla með kynna eins og í dæminu sem vísað var til í upphafi er hins vegar yngri, síðan um aldamót að því er virðist. Á Bland.is 2001 segir: „eftir svona mánuð væri mér óhætt að kynna honum fyrir nýmjólkinni.“ Á Hugi.is 2001 segir: „Ljóð er eitthvað sem þeim var kennt í grunnskóla, þegar það var verið að kynna þeim fyrir þjóðskáldum íslendinga.“ Elsta dæmi sem ég fann um þetta á tímarit.is er í Morgunblaðinu 2001: „Jive þekkti Joönnu Ifrah hjá Sony Columbia og kynnti henni fyrir því efni sem hann og Hreimur höfðu samið.“ Þessi notkun er orðin talsvert útbreidd – dæmi í Risamálheildinni skipta hundruðum, flest af samfélagsmiðlum.

Það er athyglisvert að í þessari setningagerð er þágufallið á andlaginu notað „rétt“ miðað við málhefð og vísar til þeirra sem kynnast einhverju nýju. Frávikið felst í því að á eftir þágufallsandlaginu ætti að koma þolfallsandlag í stað forsetningarliðar – kynna honum nýmjólkina í stað fyrir nýmjólkinni, kynna þeim þjóðskáld Íslendinga í stað fyrir þjóðskáldum Íslendinga og kynna henni það efni í stað fyrir því efni. Forsetningaliðurinn vísar aftur á móti til þess sem kynnt er, eins og í setningagerðinni sem fjallað var um hér á undan (ég kynnti borgarstjóra fyrir tillögunni). Þarna virðast því blandast saman tvær setningagerðir. Ég ætla ekkert að mæla með því í sjálfu sér – bara benda á að þetta er ótvírætt orðin málvenja margra.