Að kynna einhvern fyrir einhverju

Iðulega eru gerðar athugasemdir við notkun sagnarinnar kynna og bent á að dauðir hlutir séu kynntir fyrir fólki en ekki öfugt. Áður gat þolfallsandlagið í samböndum eins og kynna einhvern fyrir einhverjum aðeins vísað til fólks eins og sést í skýringu sambandsins í Íslenskri orðabók: 'upplýsa e-n um nafn e-s að honum viðstöddum með það í huga að kynni takist'. En nýlega er farið að nota þetta orðalag líka um hugmyndir og dauða hluti – kynna tillöguna fyrir Sveini, kynna samkvæmisdans fyrir henni o.s.frv. Elstu dæmi sem ég hef fundið um þetta eru um þrjátíu ára gömul.

Þegar báðir nafnliðirnir sem fylgja kynna vísa til fólks skiptir ekki öllu máli hvor þeirra stendur í þolfalli og hvor stendur í þágufalli, annaðhvort sem andlag eða í forsetningarlið. Hún kynnti Svein fyrir Páli merkir nokkurn veginn það sama og hún kynnti Pál fyrir Sveini – útkoman er í bæði skiptin sú að þessir tveir menn kynnast. Ef einhvers konar virðingarmunur er á mönnunum sem um er að ræða er vissulega venja að hafa þann sem er neðar í virðingarstiganum í þolfalli – hún kynnti mig fyrir forsetanum þykir eðlilegra en hún kynnti forsetann fyrir mér. En við áðurnefnda breytingu fer röð liðanna að skipta máli – þótt Sveinn kynnist tillögunni er varla hægt að segja að tillagan kynnist Sveini, eða Sveinn og tillagan kynnist.

Það skiptir hins vegar máli í þessu sambandi að andlag í þolfalli táknar mjög oft einhvers konar þolanda, þann sem verður fyrir einhverjum áhrifum af þeim verknaði sem sögnin lýsir. Í setningum eins og hún sendi þessa bók til mín eða hún keypti þessa bók má segja að andlagið þessa bók verði fyrir ákveðnum áhrifum – breyti um staðsetningu eða eiganda. Vissulega er þetta ekki algilt en þó svo algengt að ekki er ólíklegt að málnotendur hafi tilfinningu fyrir því að eðlilegt hlutverk þolfallsandlags sé að vera einhvers konar þolandi.

En í hún kynnti þessa nýjung fyrir mér eða hún kynnti mér þessa nýjung verður þolfallsandlagið þessa nýjung ekki fyrir neinum áhrifum frá sögninni – áhrifin koma fram hjá þeim sem kynnist nýjunginni, mér, hvort sem sú persóna er tjáð í forsetningarlið eða sem andlag. Þess vegna má segja að hún kynnti mig fyrir þessari nýjung sé í betra samræmi við venjuleg mynstur málsins. Við getum gert ráð fyrir að það hafi einhver áhrif á mig að komast í kynni við þessa nýjung, og því er „eðlilegt“ að sá sem verður fyrir áhrifum komi strax á eftir sögn.

Ég held því að dæmi eins og hún kynnti mig fyrir þessari nýjung megi skýra með því að málnotendum finnist eðlilegt að þolfallsandlag sé einhvers konar þolandi og hafi þess vegna tilhneigingu til að hafa persónuna í þolfalli næst á eftir sögninni. Það auðveldi svo eða ýti undir þessa tilhneigingu að málnotendur eru vanir því að röð liðanna skipti litlu máli þegar báðir vísa til persóna. Hugsanlega spila áhrif frá ensku þarna inn í líka, en þar er þetta reyndar einnig sitt á hvað.

Ég er ekki að mæla með þessari breytingu eða hvetja til þess að fólk láti hana afskiptalausa – það verður hver að eiga við sig. Hins vegar er hún meinlaus að því leyti að hún veldur engum misskilningi. Þótt okkur kunni að finnast hún kynnti mig fyrir þessari nýjung órökrétt og/eða rangt erum við ekki í neinum vanda með að skilja hvað við er átt. Það er eitt megineinkenni tilbrigða í málinu – þau valda yfirleitt ekki misskilningi. Þess vegna geta þau lifað hlið við hlið í málinu, jafnvel langtímum saman.