Séríslenskir stafir

Oft er talað um „íslenska stafi“ en er ekki alltaf ljóst um hvað er rætt. Oft virðist átt við alla stafi sem ekki eru í enska (latneska) stafrófinu, þ.e. áéíóúýðþæö ÁÉÍÓÚÝÐÞÆÖ. Sumir þessara stafa eru þó notaðir í mörgum öðrum tungumálum. Það á einkum við um broddstafina, áéíóúý er miklu sjaldgæfara en þó a.m.k. notað í tékknesku. Bæði æ og ö eru líka notuð víðar – æ í dönsku og norsku, ö í sænsku og þýsku, svo að dæmi séu tekin. Eftir standa þá ð og þ sem mega með réttu kallast sér­íslenskir stafir, þótt ð sé að vísu einnig notað í færeysku sem tók það upp eftir ís­lensku. En þ er hvergi annars staðar notað svo að ég viti.

Reyndar má líka deila um sérstöðu ð. Í sumum málum, t.d. samísku, króatísku og víetnömsku, er notaður stafurinn „d með striki“ (d with a stroke), đ. Í letri lítur sá stafur út eins og nafnið bendir til, þ.e. eins og d með þverstriki yfir legginn. Vitanlega er ð líka í einhverjum skilningi „d með striki“ þótt útlitið sé venjulega stílfært í letri, og um það leyti sem ð var endurvakið í ís­lensku var stundum talað um það sem „stungið d“. En stórt Ð og stórt „D með striki“ eru nákvæmlega eins, þótt þau hafi tvö númer í Unicode-stafasettinu (00D0 og 0110). Því má bæta við að ð er einnig notað í alþjóð­lega hljóðritunarkerfinu (Inter­national Phonetic Alpha­bet, IPA) til að tákna raddað tannbergsmælt önghljóð, þ.e. hljóðið sem bókstafurinn ð stendur venjulega fyrir í ís­lensku.

Þegar ritöld hófst á Íslandi á 12. öld ráku menn sig fljótt á það að í málinu voru ýmis hljóð sem ekki áttu sér neina ótvíræða táknun í latneska stafrófinu. Því kom fljótlega upp ruglingur í táknun ýmissa íslenskra málhljóða. Til að koma skikki á þau mál skrifaði óþekktur fræðimað­ur ritgerð sem er kölluð Fyrsta málfræðiritgerðin og höfundurinn jafnan Fyrsti málfræðingur­inn. Í upphafi ritgerðarinnar segir (stafsetning samræmd og færð til nútímahorfs):

„En af því að tungurnar eru ólíkar hver annarri, […] þá þarf ólíka stafi í að hafa, en eigi ina sömu alla í öllum, […] heldur ritar sínum stöfum hver þjóð sína tungu. Hveriga tungu er maður skal rita annarrar tungu stöfum, þá verður sumra stafa vant, [af því að hver tunga hefir hljóð þau er eigi finnast í annarri. Svo ganga og sumir stafir af] af því að eigi finnst það hljóð í tungunni sem stafirnir hafa, þeir er af ganga. […] Nú eftir þeirra dæmum […] þá hefi eg og ritið oss Íslendingum stafróf, bæði latínustöfum öllum þeim er mér þótti gegna til vors máls vel, svo at rétt ræðir mætti verða, og þeim öðrum, er mér þótti í þurfa að vera, en úr voru teknir þeir, er eigi gegna atkvæðum vorrar tungu.“

Hér er lögð áhersla á að hvert tungumál hafi sérþarfir sem þurfi að sinna og hvert mál hafi sitt yfirbragð. Meðal þeirra stafa sem Fyrsti málfræðingurinn lagði til að yrði bætt við latneska stafrófið var þ. Það var þó ekki nýjung – þ virðist hafa verið notað í íslensku nokkurn veginn frá upphafi ritaldar og er komið úr enskri skrift. Sú gerð þ sem er notuð í elstu íslensku heim­ildum líkist mest þ sem hvarf úr enskri skrift um miðja 11. öld, þannig að bókstafurinn er væntanlega kominn inn í íslensku fyrir þann tíma. Fyrsti málfræðingurinn gerði aftur á móti ekki ráð fyrir ð, heldur ætlaðist til að [ð]-hljóðið væri táknað með þ. Þannig skrifaði hann t.d. goþ og góþ en ekki goð og góð. Þetta er í samræmi við þá stafsetningu sem tíðkaðist í ís­lensku á þessum tíma.

Bókstafurinn ð kom inn í íslensku úr norsku í byrjun 13. aldar og var notaður á aðra öld, en á 14. öld hættu menn að skrifa ð – líka fyrir áhrif frá norsku. Þar hvarf hljóðið sem bókstafurinn táknaði úr málinu, eða breyttist í d. Þótt það gerðist ekki í íslensku fylgdu menn Norðmönn­um í þessu enda áttuðu menn sig á því að þessi bókstafur var alveg óþarfur – samanber það að Íslendingar komust ágætlega af án hans fram til um 1200. En í stað þess að hverfa aftur til þess að nota þ til að tákna ð-hljóðið fóru menn að nota d.

Þess vegna skrifuðu menn í margar aldir madurvidurvedurtadavada o.s.frv. í stað maðurviðurveðurtaðavaða. Það tákn­aði alls ekki að menn bæru þessi orð fram með d eins og við sem erum vön því að rita ð myndum sennilega gera ef við sæjum orðin rituð þannig. Þegar fólk lærði að lesa lærði það að d inni í orðum táknaði hljóðið ð. Það er alveg hliðstætt við það að í orðinu galdur táknar g lokhljóð en í orðinu saga táknar það önghljóð. Það truflar okkur ekkert því að við lærum þetta þegar við lærum að lesa.

Það var svo danski málfræðingurinn Rasmus Christian Rask sem innleiddi ð aftur í íslenska stafsetningu snemma á 19. öld – í bókinni Anvisning til isländskan eller nordiska fornspråket, 1818. Rask var eins og kunnugt er einn þeirra sem stóðu fyrir því sem oft er kallað „endurreisn íslenskunnar“ og tengdist rómantísku stefnunni og aukinni þjóðerniskennd. Menn vildu hreinsa málið af dönskum áhrifum og leituðu þá iðulega til fornmálsins sem fyrirmyndar og þangað sótti Rask ð, sem hann kallaði reyndar „stúngit dé“.


ð er meðal algengari bókstafa í íslensku ritmáli – 9. algengasti bókstafurinn samkvæmt Íslenskri orðtíðnibók og sá næst­algeng­asti aftast í orði – og því hafði endurreisn þess mikil áhrif á yfirbragð málsins og er kannski ein augljósasta breyting sem verður á ásýnd íslensks ritmáls á þessum tíma. Skírnir, tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags, sem hóf göngu sína 1827, tók upp ð 1830, og Fjölnir notaði ð frá upphafi, 1835.