Við erum að búa til lágstétt
Ég var að fylgjast með ræðu mennta- og barnamálaráðherra á Menntaþingi í morgun. Þar kom ýmislegt fram sem varðar viðfangsefni þessa hóps og ástæða er til að staldra við. Meðal þess var að hlutfall leikskólastarfsfólks af erlendum uppruna fer hækkandi og dæmi eru um leikskóla þar sem 88% starfsfólks er af fyrstu kynslóð innflytjenda. Þetta er auðvitað viðkvæmt mál og ástæða til að leggja áherslu á að vitanlega getur þetta verið frábært starfsfólk sem sinnir börnunum vel og sýnir þeim ástúð og umhyggju. En þótt gera megi ráð fyrir að eitthvað af þessu starfsfólki kunni íslensku, og sumt jafnvel nokkuð vel, er augljóst að á leikskólum þar sem svona háttar til er málumhverfið ekki íslenskt nema að hluta. Það er mjög alvarlegt mál.
Og það er þeim mun alvarlegra sem búast má við að í leikskólum þar sem hlutfall starfsfólks af erlendum uppruna er mjög hátt gegni sama máli um börnin. Þau búa því oft við erlent málumhverfi á heimilinu og mjög skert íslenskt málumhverfi í leikskólanum. Það er engin leið að ætlast til að þessi börn nái góðu valdi á íslensku á leikskólaaldri. Staðan batnar væntanlega eitthvað þegar þau koma í grunnskóla en hættan er samt sú að þau nái aldrei að vinna upp það forskot sem börn íslenskra foreldra hafa. Málumhverfið á heimilinu er áfram erlent, og við það bætist að fjöldi starfsfólks á frístundaheimilum er einnig af erlendum uppruna. Að auki má búast við að börnin verji löngum stundum í enskum menningarheimi nets og samfélagsmiðla.
Eins og við er að búast skilar þetta sér bæði í mun verri frammistöðu nemenda með erlendan bakgrunn á PISA-prófi og í brottfalli þeirra úr framhaldsskólanámi. 46%, nærri helmingur innflytjenda af fyrstu kynslóð sem hófu nám 2018 höfðu horfið frá námi án þess að ljúka því fjórum árum seinna en hlutfallið er 18% hjá nemendum sem ekki hafa erlendan bakgrunn. Þetta sýnir glöggt að við erum að búa til málfarslega, menntunarlega, menningarlega og efnahagslega lágstétt í landinu – fólk sem ekki hefur fullt vald á íslensku, fellur brott úr skólum og er þess vegna fast í láglaunastörfum. Það verður ekki of mikil áhersla lögð á hvað þetta er vont – auðvitað fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir samfélagið og lýðræðið í landinu. Og íslenskuna.
Lausnin á þessu er vitanlega ekki sú að loka landinu, eða hætta að ráða fólk af erlendum uppruna til starfa í leikskólum – hvort tveggja er fullkomlega óraunhæft. Við þurfum á þessu fólki að halda – það heldur þjóðfélaginu gangandi. En þess vegna þurfum við að sinna því miklu betur og leggja margfalt meiri áherslu á íslenskukennslu – bæði barna og fullorðinna. Það þarf að stórbæta kjör leikskólastarfsfólks og gera því kleift að stunda íslenskunám með vinnu. Það þarf að stórauka stuðning við börn af erlendum uppruna í grunn- og framhaldsskólum. Ekki síst þarf að krefja stjórnmálafólk um aðgerðir í stað innantómra orða. Ef þetta verður ekki gert vöknum við fyrr en okkur grunar upp við vondan draum í tvískiptu samfélagi. Það verður ekki gaman.