Að umturna lífi – lífið umturnaðist
Á vef Ríkisútvarpsins stóð um tíma í gær fyrirsögnin „Kona í Kópavogi umturnaði lífi heillar fjölskyldu á Indlandi“. Einhvers staðar rakst ég á þá athugasemd við þessa fyrirsögn að sögnin umturna væri þarna ranglega notuð því að hún táknaði breytingu til hins verra – sem ætti ekki við þarna – og þeirri athugasemd hefur kannski verið komið á framfæri við Ríkisútvarpið – a.m.k. var fyrirsögninni fljótlega breytt í „Kona í Kópavogi breytti lífi heillar fjölskyldu á Indlandi“ eins og hún er nú. Í Íslenskri orðabók er sögnin umturna skýrð 'bylta um, róta til, setja á annan endann' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'setja (allt) á hvolf, gjörbreyta (e-u)'. Sum skýringarorðanna eru vissulega neikvæð en önnur eru hlutlaus.
Sögnin umturna er gömul í málinu – kemur fyrst fyrir í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu 1540. Í elstu dæmum merkir hún 'rugla, breyta til hins verra' og jafnvel 'eyðileggja'. Í Nýja testamentinu segir: „Þér hafið þennan mann til mín haft svo sem þann er umturnar lýðinn“; „hefir borgirnar Sódóme og Gómorre að ösku gjört, umturnað og fordæmt“. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 segir: „Hann færði fjöllin úr stað áður en þau verða vör við það, þeim eð hann umturnar í sinni reiði.“ Í texta um Kötlugos frá 1625 segir: „hverja að sandurinn og öskufallið […] með öllu eytt og umturnað hefur“. Stundum merkir sögnin líka ‚skipta um trú‘ eins og í frásögn af Tyrkjaráninu 1627: „fátt er umturnað af því fólki, sem eystra var tekið.“
Í síðari alda máli er sögnin mjög oft notuð um breytingu til hins verra eins og í eldri dæmum, en í ýmsum tilvikum er breytingin þó hlutlaus eða jákvæð. Í Bjarka 1902 segir: „Þekkingin hefur komið í stað bænanna og þetta hefur umturnað öllum fyrri hugmyndum.“ Í Reykjavík 1902 segir: „Þetta er mikil nýbreytni, og mun hún, ef hún kemst á, að öllu leyti umturna kjötverzluninni hér í bænum.“ Í Austra 1903 segir: „Ætla þeir svo að hægt muni að leiða nægilegt rafurmagn ofan af himni á Jörðina. Mundi það umturna kjörum mannkynsins.“ Í Ingólfi 1904 segir: „Bakteríufræðin er ein sú grein vísindanna sem mest beinlínis áhrif hefur á mannlífið; hún hefur alveg umturnað læknisfræðinni og mörgum iðnaðargreinum.“
Í gær mátti líka sjá fyrirsögnina „Lífið umturnaðist þegar hún kynntist manninum sínum“ á vef mbl.is og í fréttinni stendur: „Svo kynnist ég manninum mínum í dag og líf mitt umturnaðist til hins betra.“ Þarna er notuð miðmyndin umturnast sem er skýrð sérstaklega í Íslenskri nútímamálsorðabók sem ‚verða mjög reiður‘ – gerólíkt skýringu germyndarinnar. Vissulega er þetta langalgengasta merking miðmyndarinnar þegar frumlagið er mannlegt, en með öðrum frumlögum sýnist mér merkingartilbrigði miðmyndarinnar vera hin sömu og germyndar – merkingin oftast neikvæð en sundum þó hlutlaus eða jákvæð eins og í Læknanemanum 2004: „Hún umturnaðist hins vegar við öll veikindi, varð ljúfasta lamb og hvers manns hugljúfi.“
Í samböndunum umturna lífi og lífið umturnast er breytingin mjög oft til hins verra, stundum er um túlkunaratriði að ræða, og nokkur dæmi eru um breytingu til batnaðar. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Allt mitt líf umturnaðist eftir að hún kom út.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „viðurkennir að það sé gaman að hafa umturnað lífi sínu svona.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Hannes Jón hefur umturnað lífi sínu eftir veikindin.“ Í Fréttablaðinu 2016 segir: „Og þetta sló svona í gegn að mitt líf umturnaðist við þetta.“ Í Víkurfréttum 2017 segir: „Þannig hefur hann umturnað lífi sínu og bætt heilsu sína til muna.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Lífið umturnaðist á gleðilegan máta.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Fann ástina 35 ára og lífið umturnaðist.“
Það er sem sagt ljóst að merkingin í umturna(st) er alltaf 'umbylta(st), gerbreyta(st)' en í miklum meirihluta tilvika er umbyltingin eða breytingin til hins verra. Oft getur það þó verið túlkunaratriði eins og í dæmi úr Morgunblaðinu 1997: „En hún umturnar lífi fjögurra hversdagslegra stúlkna svo að öll fyrri gildi þeirra hverfa og ný femínískari taka við.“ Sjálfsagt geta verið skiptar skoðanir um hvort þessi breyting á gildismati sem umturnunin leiðir af sér sé jákvæð eða neikvæð. Hvað sem því líður sýnist mér ljóst að áðurnefndar tvær fyrirsagnir síðan í gær, „Kona í Kópavogi umturnaði lífi heillar fjölskyldu á Indlandi“ og „Lífið umturnaðist þegar hún kynntist manninum sínum“ ganga ekki í berhögg við íslenska málhefð.