Ég var skilríkjaður
Í innleggi hér í morgun var nefnt að sögnin skilríkja hefði verið notuð í útvarpsþætti í merkingunni 'spyrja um skilríki', t.d. „þegar maður er ekki lengur skilríkjaður í ÁTVR“ og „Skilríkjaðu mig bara“. Ég hafði aldrei heyrt þetta eða séð en við athugun kom í ljós að þessi sögn er nokkuð notuð í óformlegu máli eins og marka má af því að um sextíu dæmi eru um hana í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar. Sögnin er ekki alveg ný – elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er tuttugu ára gamalt, á Bland.is 2004: „svo hef ég lent í því að vera skilríkjuð inn á 18 ára ball“. Á Bland.is 2005 segir: „fannst ógó asnalegt að vera 25 kasólétt og skilríkjuð inn á 18 ára ball.“ En þetta eru einu dæmin eldri en tíu ára sem ég hef fundið.
En árið 2015 fara að sjást dæmi um sögnina skilríkja á twitter – öll dæmin hér á eftir eru þaðan. „Dyravörðurinn á Dunkin Donuts skilríkjaði mig“ (2015), „Síðan hvenær var breytt reglunum að nú þarf skilríkja alla sem eru með þér þegar þú ferð að versla?“ (2015), „Þið hefðuð átt að skilríkja hana OG segja nei“ (2016), „Síðasta skipti sem ég var skilríkjaður í sígókaupum var gleðistund“ (2016), „Ég er alltaf skilríkjaður og ég vil þakka lýtalækninum mínum sérstaklega fyrir það“ (2017), „Aldrei verið jafn móðguð yfir því að vera skilríkjuð“ (2018), „Ég var skilríkjuð í Danmörku þegar ég keypti bjór“ (2018), „Hef ekki verið skilríkjaður síðan grímuskylda hófst í ríkinu“ (2020), „Ég var skilríkjuð í sundi um daginn“ (2021).
Bæði form og merking sýna ljóslega að sögnin skilríkja er mynduð af samsetta nafnorðinu skilríki sem oftast er haft í fleirtölu í nútímamáli en að fornu var ekkert síður í eintölu eins og hér hefur verið skrifað um – reyndar er nokkuð farið að bera á eintölunni aftur. Nafnorðið er í sjálfu sér ekki gagnsætt, a.m.k. ekki fyrir nútíma málnotendur – við þurfum að læra hvað orðið merkir en getum ekki áttað okkur á því út frá merkingu samsetningarliðanna. Sögnin er hins vegar a.m.k. hálfgagnsæ út frá nafnorðinu – við sjáum strax að hún hlýtur að vera skyld því þótt við þurfum kannski að læra út frá notkun hvernig skyldleikanum er háttað. Það er raunar dæmigert fyrir svokallað „gagnsæi“ – það dugir sjaldnast til að greina merkingu nákvæmlega.
Það eru ýmis dæmi um það í málinu að samsett sögn sé ekki grunnmynduð sem slík heldur leidd af samsettu nafnorði – gott dæmi um það er sögnin hesthúsa sem augljóslega er leidd af nafnorðinu hesthús. Myndun sagnarinnar skilríkja á sér því skýr fordæmi og er í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur en auðvitað þarf að venjast henni. En því er oft haldið fram að íslenska sé „sagnamál“ fremur en „nafnorðamál“ og æskilegt sé að nota eina sögn þar sem þess er kostur fremur en samband sagnar og nafnorðs, t.d. kanna frekar en gera könnun. Hér höfum við einmitt eina sögn sem kemur í stað orðasambands með sögn og forsetningarlið, spyrja um skilríki (eða krefjast skilríkja). Því sé ég enga ástæðu til annars en fagna sögninni skilríkja.