Að leiða ágreining í jörð
Í viðtali á Vísi í dag sagði fjármálaráðherra: „Ekki síst því við áttum ágætis fund deginum áður og mitt mat var eftir þann fund að það væri hægt að leiða í jörð ágreining um til dæmis útlendingamál.“ Ég staldraði við sambandið leiða í jörð sem ég hef rekist á nokkrum sinnum undanfarið, einkum í stjórnmálaumræðu. Reyndar eru dæmi um að það sé notað í bókstaflegri merkingu: „Áður hefur verið vikið að því að annað skaut spennugjafans er leitt í jörð“ segir í Bændablaðinu 1997. En sambandið er einnig notað um spennulosun í yfirfærðri merkingu eins og í áðurnefndu dæmi og í Vísi 2013: „Við hvetjum allar þjóðir […] til þess að leiða þessa spennu í jörð“. Þessa merkingu er ekki að finna í orðabókum, enda virðist hún ekki gömul.
Elsta dæmi sem ég finn um þessa merkingu er í Vísi 2005: „Þessi sáttagerð hefði aldrei orðið að veruleika nema vegna þess að í nefndina hefðu verið valdir stjórnmálamenn sem hefðu haft þor og metnað til þess að leiða í jörð þetta mál.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Ég vona því að bak helgi verði búið að leiða í jörð obbann af þeim erfiðu diplómatísku vandamálum sem hafa tengst þessum innlánsreikningum.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Það skiptir því miklu máli að hægt sé að leiða deiluna í jörð.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Hún ber þó augljóslega með sér að í vöfflutúrunum tókst oddvitum hennar ekki að leiða í jörð ágreining um hvernig á að efna kosningaloforð Framsóknar.“ En fram um 2015 eru dæmi í fjölmiðlum sárafá.
Það er athyglisvert að sambandið virðist langoftast vera notað af stjórnmálafólki – af rúmlega hundrað dæmum um það í Risamálheildinni eru um 60% úr þingræðum. Í ræðu 2006 segir: „Ég hef nú verið þeirrar skoðunar að langskynsamlegasta leiðin í þessu sambandi sé að þessi ágreiningur sé leiddur í jörð með því að menn nái samningum.“ Í ræðu 2007 segir: „En úr því að hv. þingmaður nefndi þann ágreining sem upp hefur komið og reyndar verið leiddur í jörð upp á síðkastið.“ Alls eru 36 dæmi um sambandið í þingræðum frá 2006-2014 en undanfarinn áratug hefur það sést meira og meira í fjölmiðlum – en meginhluti þeirra dæma sem þar má finna er annaðhvort hafður eftir þingmönnum eða úr stjórnmálaumræðu.
Líkingin í sambandinu er auðskilin – það er langoftast notað um mál sem ágreiningur hefur verið um, og merking þess er greinilega að 'leiða til lykta, leysa' eða 'úrskurða um'. Þó er ekki alveg frítt við að 'slá á frest' og jafnvel 'sópa undir teppið' gæti stundum náð merkingunni betur – sum þessara ágreiningsmála eru þess eðlis að ólíklegt er að búið sé að leysa þau fyrir fullt og allt, sbr. „leiddur í jörð upp á síðkastið“ í dæmi hér að framan. Að leiða málið í jörð hljómar eins og ágreiningurinn sé grafinn en ekki endilega gleymdur og minnir svolítið á grafa stríðsöxina sem Jón G. Friðjónsson skýrir 'sættast (oft tímabundið)' í Merg málsins. En þetta er í sjálfu sér ágætis orðasamband þótt ekki megi gleyma öðrum sömu merkingar.