„Veðurfregnir og jarðarfarir“

Í sjónvarpsþættinum „Kiljunni“ var í síðustu viku rætt við skáldkonuna Maó Alheimsdóttur sem er upprunnin í Póllandi en býr á Íslandi. Hún er nú að gefa út skáldsögu og segir að ekki hafi annað komið til greina en skrifa á íslensku: „Ég tileinkaði mér hana og nota hana eftir mínu höfði. Ég skrifa íslensku eins og ég skynja hana. Ég veit ekki alltaf hvort það sé rétt en ég gerði þetta eins og ég finn fyrir tungumálinu.“ Þegar bókin er lesin má vissulega finna sitthvað sem ekki er í samræmi við venjulega íslenska málnotkun og málhefð. Það þýðir samt ekki að þetta sé rangt eða ástæða hefði verið til að breyta því, eins og ég komst að þegar ég skoðaði þrjú dæmi af þessu tagi – að gráta lágum stöfum, að koma augum á og að brjóta þögnina.

gráta lágum stöfum. Orðmyndin hástöfum í sambandinu gráta hástöfum – og einnig með sögnum eins og hljóða, hrópa, kalla, kveina, æpa o.fl. – er vitanlega gömul í málinu og vel þekkt, og til eru dæmi um háum stöfum í sömu merkingu. Í Dagskrá 1897 segir: „það jafnrjetti […] sem franska byltingin milda kunngjörði svo háum stöfum um síðustu aldamót.“ Í Morgunblaðinu 1930 segir: „Það er erfitt, þegar annar lastar það niður fyrir allar hellur, sem hinn lofar háum stöfum.“ Hins vegar eru engin dæmi um að *gráta lágstöfum eða *gráta lágum stöfum. En þótt ekki sé hefð fyrir þeim samböndum er gráta lágum stöfum sem kemur fyrir í bók Maó vitanlega auðskilið – og alveg rökrétt – út frá gráta hástöfum.

koma augum á. Sambandið koma auga á er einnig gamalt í málinu og mjög algengt – dæmi um það á tímarit.is skipta tugum þúsunda. Þar er eintalan auga langoftast notuð þótt færa megi rök að því að fleirtalan væri „rökréttari“ – það sem við sjáum á annað borð sjáum við oftast með báðum augum en ekki bara öðru. Því er ekkert undarlegt að Maó skuli tala um að koma augum á í bók sinni og það á sér reyndar ýmis fordæmi, það elsta „Ef mey þú kemur augum á / um aptanstund“ í kvæði eftir Björn M. Ólsen í Norðanfara 1877. Í Þjóðviljanum 1967 segir: „Ég hamaðist við að koma augum á alla þessa kröm og neyð.“ Í Austra 1999 segir: „Þau eru nefnilega alltaf í felulitunum og ekki alltaf gott að koma augum á þau.“

brjóta þögnina. Í íslensku er talað um að rjúfa þögn – það samband hefur tíðkast a.m.k. síðan á nítjándu öld en ekki verður séð að neitt órökréttara sé að tala um að brjóta þögn í sömu merkingu eins og gert er í bók Maó. Vissulega gæti það samband hljómað eins og bein yfirfærsla úr break silence í ensku – og er það kannski upphaflega, en ýmis gömul dæmi um það má samt finna, ekki öll í þýðingum úr ensku. Í Norðanfara 1875 segir: „ekki nema einstaka fugl þorði að brjóta þögnina syndandi í himinblámanum.“ Í Norðurljósinu 1888 segir: „Hann efast um, hvort hann hafi verið heppinn í því, að brjóta þögnina um verzlunina á Húsavík.“ Auk þess er algengt að tala um að brjóta þagnarmúrinn þótt rjúfa þagnarmúrinn sé algengara.

Þótt málnotkunin í þessum þremur dæmum sé ekki í samræmi við málhefð hefði verið fráleitt að „leiðrétta“ hana – hún er fullkomlega rökrétt og á sér að auki bein eða óbein fordæmi í eldri textum. Vissulega er samt ýmislegt annað í bók Maó sem víkur frá málhefð og sumu hefði ég kannski breytt ef ég hefði verið í hlutverki yfirlesara – en það hefði ekki verið rétt. Við eigum að fagna því að fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli skuli vilja nota málið til listrænnar sköpunar, og það verður að fá að gera það á þann hátt sem það kýs – verður að fá að eignast hlut í íslenskunni. Eins og dæmin hér að framan sýna getur óhefðbundin málnotkun þess iðulega sýnt okkur íslenskuna í nýju ljósi og vakið okkur til umhugsunar um fjölbreytileik málsins.