Á að segja niðurstöður prófkjöranna eða prófkjaranna?

Eins og við er að búast þegar kosningar nálgast ber orðið prófkjör stundum á góma, þótt minna sé reyndar um prófkjör nú en venjulega vegna skamms fyrirvara á kosningum. Orðið er hálfrar annarrar aldar gamalt í málinu – elsta dæmi um það er í Víkverja 1874: „Nokkru á undan kjörþingi koma menn erlendis saman, þeir er kjósa eiga, og halda pá prófkjör.“ En orðið sést ekki aftur á tímarit.is fyrr en rúmri hálfri öld síðar og var sárasjaldgæft lengi vel. Upphaflega vísaði það til aðferðarinnar prófkjör fremur en einstakra kosninga, eins og í „Sjálfstæðismenn boða til prófkjörs í öllum kjördæmum“ í Morgunblaðinu 2009 og var þá eðlilega eingöngu notað í eintölu, en um miðja öldina var farið að nota það til að vísa til einstakra kosninga.

Samfara þessari breytingu snarfjölgaði dæmum um orðið, og breytingin kallaði á að hægt væri að nota orðið í fleirtölu. Elsta dæmi sem ég finn um fleirtöluna er í Tímanum 1946: „Miðstjórnarmaður flokksins í Suður-Þingeyjarsýslu […] færði almenn prófkjör flokksmanna í sýslunni tal við hann í vetur.“ Í Tímanum 1952 segir: „Eins og sakir standa er erfitt að spá um úrslitin í prófkjörunum hjá republikönum.“ En ekki hugnaðist öllum þetta – í bréfi í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1986 sagði að „ekki fyrir margt löngu“ hefði orðið „fallið í kviksyndi fleirtölunnar“ og Gísli Jónsson sagði í sama þætti: „Prófkjör fer illa í fleirtölu“ og bætti við: „Hugsum okkur bara eignarfallið. Á það að vera prófkjara eða prófkjöra?“

Elstu dæmi um báðar eignarfallsmyndirnar eru jafngömul, frá árinu 1970. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru báðar myndir gefnar og í athugasemd þar við orðið kjör segir: „Í merkingunni skilmálar; hagur; laun er orðið aðeins notað í fleirtölu og þar er eignarfallið alltaf kjara“ en „Í merkingunni val, kosning er orðið yfirleitt haft í eintölu. Í þessari merkingu er fleirtalan fágætari og þá er eignarfallið yfirleitt kjöra, t.d. í samsetta orðinu prófkjör.“ Þetta er þó ekki rétt – á tímarit.is er hlutfallið milli prófkjara og prófkjöra u.þ.b. 3:4, en í Risamálheildinni er það u.þ.b. 5,5:4,5. Myndin prófkjara sækir því greinilega á og í Málfarsbankanum er ekki gert upp á milli myndanna og sagt: „Ef.ft. prófkjara eða prófkjöra.“

Langflest hvorugkynsorð sem hafa ö í stofni í nefnifalli, þolfalli og þágufalli fleirtölu fá a í eignarfalli fleirtölu. Þetta eru orð eins og börn – barna, lönd – landa, göt gata o.m.fl. Sama gildir um orð sem aðeins eru til í fleirtölu (í tiltekinni merkingu) eins og kjör, lög o.fl. – eignarfall þeirra er kjara og laga. Út frá þessu mynstri mætti búast við eignarfallinu prófkjara af nefnifalli fleirtölu prófkjör. En öfugt við prófkjör hafa þessi orð a í stofni í eintölunni, ef þau hafa eintölu á annað borð: barn, land, gat. Hvorugkynsorð sem hafa ö í stofni í eintölunni, eins og prófkjör, halda því hins vegar í allri fleirtölunni – líka eignarfalli. Þetta eru orð eins og rör, uppgjör, ör sem eru röra, uppgjöra, öra í eignarfalli fleirtölu – ekki *rara, *uppgjara, *ara.

Þegar málnotendur þurfa að nota tiltölulega sjaldgæfar beygingarmyndir eins og eignarfall fleirtölu, sem óvíst er að þeir hafi lært sérstaklega, leita þeir – ósjálfrátt og ómeðvitað – að mynstri til að fara eftir, og í þessu tilviki er um tvennt að ræða. Annars vegar er hægt að miða við beygingardæmið í heild og þá verður eignarfallið prófkjöra af því að orðið hefur ö í stofni í eintölunni. Hins vegar er hægt að miða eingöngu við fleirtöluna og þá verður eignarfallið prófkjara af því að þannig er það oftast af orðum með ö í nefnifalli fleirtölu – auk þess sem líklegt er að eignarfall fleirtöluorðsins kjör styrki þessa mynd. En þetta val milli mynstra getur verið truflandi – „Mér þykir hvort tveggja álíka hallærislegt“ sagði Gísli Jónsson.