Að vökva blómum – og vatna þeim

Í greininni „Ástkæra, ylhýra málið“ sem birtist í Regin 1942 og ég hef áður vitnað í kvartar Friðrik Hjartar yfir ýmsum málbreytingum – sú athyglisverðasta er að hans sögn „fráhvarf frá nefnifalli og þolfalli til þágufalls“. Um þetta nefnir hann ýmis dæmi, bæði af frumlögum með sögnum eins og langa og dreyma, en einnig af andlögum með sögnum eins og pakka, framlengja, skora – og vökva. „Þá er sagt, að nú þurfi að vökva blómunum, vökva görðunum, í stað þess að segja: að vökva blómin, vökva garðana, m. ö. orðum: vökva eitthvað, ekki vökva einhverju.“ Sögnin vökva tekur vissulega með sér þolfall í fornu máli en er gefin upp með bæði þolfalli og þágufalli í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og þágufallið er greinilega gamalt.

Það er notað í einu af elstu dæmum um sögnina á tímarit.is, í Norðurfara 1849: „svo menn þessvegna víst hefðu getað sparað það blóð, sem nú ei varð til annars enn að vökva götum Parísar.“ Í Skuld 1879 segir: „þessi ungi maðr er líka „eik“, sem visnar, ef henni er ekki vökvað.“ Í sögunni „Lífið í Reykjavík“ eftir Gest Pálsson frá 1888 segir: „sumir eru í óða önn að vökva blómum og trjám.“ Í Frey 1904 segir: „Það má auka blómgunina og lengja blómgunartímann með því að vökva þeim með áburðarlegi.“ Í Búnaðarritinu 1907 segir: „auk þess þarf að vökva blómkálinu með áburðarlegi.“ Í Sindra 1921 segir: „Það þarf þannig að vökva rakri steypu í eigi minna en ½ mánuð.“ Í Blika 1936 segir: „Það þarf að vökva því dyggilega.“

Þágufall virðist hafa verið töluvert notað með vökva á seinni hluta nítjándu aldar og langt fram eftir þeirri tuttugustu, en dæmum fer fækkandi eftir miðja öldina. Yngsta dæmi sem ég hef fundið á tímarit.is er í Morgunblaðinu 1992: „Jafnframt er í húsgæslukerfinu þjónusta öryggisvarða VARA sem tvisvar í viku tæma póstkassa, vökva blómum og gefa gæludýrum.“ Tvö yngri dæmi fundust í Risamálheildinni: „Mun minni hætta fólgin í að vökva blómum“ á Málefnin.com 2006 og „hann fór til þess að vökva plöntunum“ í héraðsdómi frá 2012. En ég hafði aldrei rekist á þágufallið og hélt að það væri alveg horfið – þangað til í gærkvöldi að ég heyrði í sjónvarpinu eldri mann á Ísafirði tala um að vökva blómunum.

Þessi maður hefur væntanlega alist upp við notkun þágufalls með vökva og vitanlega engin ástæða til að amast við því. Það er í sjálfu sér vel skiljanlegt að vökva hneigist til að taka með sér þágufall í stíl við sagnir eins og vatna og brynna sem eru merkingarlega skyldar þótt þær séu vissulega einkum notaðar um húsdýr. Notkun vökva og vatna skarast þó eitthvað – til eru dæmi eins og „Margir hirða ekki nógu vel um að vökva fénu“ í Búnaðarritinu 1914, og allnokkur dæmi um að vatna blómum, t.d. í Æskunni 1924: „Í blómgarði við húsið var mær ein ung og vatnaði blómunum.“ Þetta virðist hverfa upp úr 1970 og í ritdómi í Morgunblaðinu 1981 segir: „Sem gamall sveitamaður hlýt ég að vara við reykvískunni að „vatna blómum“.“