Jólatréssala

Þessa dagana glymja auglýsingar um jólatrjáasölu í útvarpinu. Auðvitað er ekkert við það orð að athuga, en til skamms tíma var myndin jólatréssala þar sem fyrri liðurinn er í eintölu þó miklu algengari. Sú mynd virðist líka vera eldri í málinu þótt ekki muni miklu – elsta dæmi um hana á tímarit.is er frá 1948, en elsta dæmi um þá fyrrnefndu frá 1953. Dæmin um jólatréssala eru nærri þrisvar sinnum fleiri en um jólatrjáasala og það var ekki fyrr en eftir aldamót sem dæmum um síðarnefndu myndina fór að fjölga. Árið 2012 sigldi hún fram úr fyrrnefndu myndinni og á árunum 2010-2019 eru dæmin um jólatrjáasala nærri helmingi fleiri en um jólatréssala. Í Risamálheildinni eru dæmin um myndirnar álíka mörg.

Eina hugsanlega skýringin sem ég sé á þessari auknu notkun myndarinnar jólatrjáasala á kostnað jólatréssala er misskilin málvöndun – að fólk telji síðarnefndu myndina „órökrétta“ vegna þess að verið sé að selja fleiri en eitt tré. Slíkar athugasemdir má víða finna í málfarshópum og athugasemdadálkum, þrátt fyrir að Málfarsbankinn segi: „Bæði orðin jólatréssala og jólatrjáasala eru rétt mynduð.“ Það er nefnilega alls ekki alltaf þannig að tala fyrri liðar í samsettu orði endurspegli fjölda þess sem um er rætt. Þetta hefur oft verið hér til umræðu og um það má nefna ótal dæmi, svo sem rækjusamloka, perutré, stjörnuskoðun, nautalund, lambalæri, nýrnagjafi o.s.frv. Myndin jólatréssala er alveg hliðstæð við þessi orð.