Spurt hef ég tíu miljón manns
Hér var í gær vakin athygli á fyrirsögninni „Eftirvænting vegna 300 milljón króna yfirhalningar gamla félagsheimilisins“ á vef Ríkisútvarpsins og spurt hvort milljón væri „að frjósa í hel af beygingarleysi og afkynjun“. Í Málvöndunarþættinum var nýlega vakin athygli á auglýsingu þar sem segir: „Markmið verkefnisins er að setja niður eina milljón plöntur á næstu árum.“ Þarna kæmi vissulega til greina að láta milljón stýra eignarfalli og segja „eina milljón plantna“ og það væri í samræmi við það sem mælt er með í Málfarsbankanum: „Orðið milljón ætti fremur að beygja en láta óbeygt. Ft. milljónir. Tíu milljónir króna (ekki: „tíu milljón krónur“). Um er að ræða þriggja milljóna króna tap. Innflutningurinn nemur fjórum milljónum. […]“
Þetta er samt ekki alveg einfalt. Eins og orðin hundrað og þúsund er milljón flokkað bæði sem töluorð og nafnorð í orðabókum. Þegar nafnorð tekur með sér annað nafnorð er það síðarnefnda venjulega í eignarfalli, en ef töluorð tekur með sér nafnorð stendur það venjulega í sama falli og töluorðið. Við segjum tíu menn en ekki *tíu manna af því að tíu er eingöngu töluorð, ekki nafnorð; en hins vegar tugur manna (eða tugur manns), ekki *tugur menn af því að tugur er eingöngu nafnorð, ekki töluorð. Vegna þess að hundrað og þúsund geta verið bæði töluorð og nafnorð má því búast við að bæði sé hægt að segja eitt hundrað (to.) menn og eitt hundrað (no.) manna, eitt þúsund (to.) menn og eitt þúsund (no.) manna – og það er einmitt hægt.
Þess vegna ætti líka að vera hægt að segja bæði setja niður eina milljón (to.) plöntur og setja niður eina milljón (no.) plantna – og það er hægt. Þótt Málfarsbankinn mæli með því síðarnefnda er það ekki spurning um rétt og rangt, enda sagt „ætti fremur að beygja en láta óbeygt“ (feitletrun mín). Þarna er í raun og veru verið að segja að fremur eigi að nota milljón sem nafnorð en sem töluorð og það er vitanlega spurning um smekk og venju. En ef töluorðinu á undan milljón er sleppt er óeðlilegt að nota orðið sem nafnorð – setja niður milljón plantna hljómar mun óeðlilegar en setja niður milljón plöntur. Sé milljón hins vegar fall- og tölubeygt er það nafnorð og verður að taka eignarfall – milljónir plantna, ekki *milljónir plöntur.
Því fer fjarri að það sé einhver nýjung að nota milljón sem töluorð og sleppa því að beygja það í föllum og tölum. Í Lögfræðingi 1899 segir: „Ríkið veitir stofnuninni 5 miljón krónur sem stofnfje.“ Í Eldingu 1900 segir: „200 miljón franka ríkislán þykjast Frakkar þurfa að taka nú.“ Í Þjóðviljanum 1910 er talað um „tveggja milljón franka skuld konungs“. Í Gjallarhorni 1912 segir: „Mundu þá sparast ríflega 300 miljón krónur.“ Í Dagsbrún 1915 segir: „Umsetningin óx frá 1903 úr 157 milljón krónur í 450 milljón krónur 1911.“ Í Lögréttu 1924 segir: „En þar vill stjórnin spara 7 milljón pund.“ Og árið 1935 orti Halldór Laxness í orðastað Bjarts í Sumarhúsum: „Spurt hef ég tíu miljón manns / sé myrtir í spaugi utanlands.“
Það er líka fráleitt að tengja beygingarleysi orðsins milljón eitthvað við „afkynjun“ sem er gildishlaðið orð og notað til að lýsa breytingum í átt til kynhlutleysis þar sem hvorugkyn er notað sem hlutlaust (ómarkað) kyn í stað karlkyns – reyndar er afkynjun rangnefni því að hvorugkyn er vitanlega fullgilt kyn. Hér verður að gera skýran mun á kynbeygingu annars vegar og beygingu í tölum og föllum hins vegar – orðið milljón tekur með sér ákvæðisorð (töluorð eða fornafn) í kvenkyni hvort sem það beygist í tölum og föllum eða ekki. Ekkert bendir til þess að nokkur breyting sé að verða á kyni orðsins – það er ævinlega kvenkyns eins og það hefur verið. Engin dæmi eru um að sagt sé *eitt milljón króna, *tvö milljón(ir) króna eða neitt slíkt.