Hvað er kennitalan? Hvað er síminn? Hvað er málið?
Nýlega var spurningin hvað er kennitalan? hér til umræðu. Mörgum fannst að frekar ætti að segja hver er kennitalan? og það er í sjálfu sér eðlilegt – nafnorðið kennitala er kvenkyns og því mætti búast við að um kennitöluna væri spurt með kvenkynsmyndinni hver frekar en spurnarmyndinni hvað sem er hvorugkyns. Samt sem áður er ljóst að spurningar á við hvað er kennitalan? eru ekki einsdæmi í seinni tíð. Aðeins eitt dæmi er þó að finna á tímarit.is, úr Morgunblaðinu 2015, en dæmin um hver er kennitalan? eru svo sem ekki nema sjö. Í Risamálheildinni eru hlutföllin önnur – þar eru tíu dæmi um hvað er kennitalan? en 21 um hver er kennitalan?. Í báðum tilvikum eru nær öll dæmin af samfélagsmiðlum.
En ýmis fleiri dæmi, jafnvel gömul, má finna um að spurnarmyndin hvað sé notuð þar sem búast mætti við annarri mynd spurnarfornafnsins. Í Fálkanum 1933 segir: „Hvað er númerið hennar?“. Í Morgunblaðinu 1941 segir: „Hvað er símanúmerið.“ Í Vikunni 1956 segir: „Hvað er heimilisfangið?“ Í Helgarpóstinum 1986 segir: „Hvað er málið?“ Allt er þetta þó frekar sjaldgæft nema það síðastnefnda sem hefur orðið gífurlega algengt á þessari öld. Vissulega eru orðin númer, símanúmer, heimilisfang og mál öll hvorugkyns eins og spurnarmyndin hvað, en hins vegar er venjulega kennt að sú mynd sé aðeins notuð sérstæð en þegar spurnarorðið á við nafnorð sé notuð myndin hvert – hvert er númerið?, hvert er heimilisfangið?, hvert er málið?.
Þótt kynið sé hið sama eru setningar þar sem hvað stendur með hvorugkynsorði því í raun frávik frá hefðbundinni notkun spurnarorðsins, rétt eins og hvað er kennitalan?. En málnotendur virðast ekki kippa sér eins upp við slíkar setningar þótt stundum séu gerðar athugasemdir við þær – „Rétt er að segja hvert er málið“ segir t.d. á Bland.is 2005, og „Þótt enginn segi það er málfræðilega réttara að segja „hvert er málið?““ segir á Hugi.is 2010. En fleiri dæmi eru um að hvað sé notað með nafnorði af öðru kyni en hvorugkyni, t.d. karlkynsorðinu sími – „Hvað er síminn?“ segir í Alþýðublaðinu 1959. Í Vísi 1979 segir: „Hvað er síminn á afgreiðslu Vísis?“ Alls eru um 150 dæmi um hvað er síminn? í Risamálheildinni en aðeins 13 um hver er síminn?.
Það má færa rök að því að myndin hvað sé að þróast í þá átt að verða hlutlaust og óbeygjanlegt spurnarorð, eins konar ígildi spurningarmerkis eða spurnarhreims. Þetta er rétt eins og við segjum Kennitala? Heimilisfang? Sími? – við erum ekki að spyrja um eðli þessara fyrirbæra, heldur biðja um tilteknar upplýsingar. Svipuð þróun er ekki einsdæmi. Spurnarfornafnið hvaða er eingöngu notað hliðstætt með nafnorði og er eins í öllum kynjum og föllum og báðum tölum – hvaða kennitölu / heimilisfang / síma hefur þú?. Orðið er ekki til í fornu máli en kemur fyrst fyrir á 16. öld og er talið hafa orðið til úr hvað að (áður hvat at) – hvað að manni > hvaða maður. Mér finnst eðlilegt að segja hvað er kennitalan? og sé ekkert að þessari þróun.