Langstoðsendingahæstur
Áðan rakst ég á eitt lengsta orð sem ég hef séð í íslenskum texta í körfuboltafrétt á mbl.is. Það var orðið langstoðsendingahæstur – heilir 22 bókstafir, sjö atkvæði, fjórar rætur (lang, stoð, send og há (hæst) og eitt viðskeyti (ing) auk beygingarendinga. Þetta er þó fjarri því að vera lengsta orð málsins – í greininni „Hve langt má orðið vera?“ í Íslensku máli 1992 nefnir Magnús Snædal dæmi um orð sem hafa að geyma allt að ellefu atkvæði og hátt á þriðja tug bókstafa, svo sem undirstöðuatvinnufyrirtæki. Magnús segir þó: „Áttkvæð orð eru þau lengstu sem geta haft óbrotna hrynjandi, þ.e. verið eitt orð gagnvart áherslunni.“ Lengri orð brotna sem sé í raun í tvennt í framburði – og raunar gera mörg styttri orð það líka eins og Magnús nefnir.
Frá orðmyndunarfræðilegu sjónarmiði er í raun ekkert við langstoðsendingahæstur að athuga. Til er fjöldi algengra samsetninga með -hæstur, svo sem aflahæstur, stigahæstur, leikjahæstur, markahæstur, launahæstur o.fl. Fyrir kemur að fyrri liðurinn sé einnig samsettur, eins og í frákastahæstur og stoðsendingahæstur. Flest þessara orða eru í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og Íslenskri nútímamálsorðabók, en þar eru þau öll gefin upp í frumstigi eins og venja er þótt frumstig þeirra sé sárasjaldgæft. En sum þeirra geta líka bætt lang- eða næst- framan við sig, eins og næstaflahæstur og langstoðsendingahæstur, og þá er ekki um annað að ræða en gefa þau upp í efsta stigi – *næstaflahár og *langstoðsendingahár gengur alls ekki.
Þegar lang- eða næst- er bætt framan við ósamsett orð fær það yfirleitt venjulegt áherslumynstur þar sem aðaláherslan kemur á fyrsta atkvæði – langelstur, næstbestur o.s.frv. En ef lang- eða næst- er bætt framan við orð sem er samsett fyrir fær nýja samsetningin oftast tvær aðaláherslur og slitnar í sundur í framburði, verður í raun að tveimur orðum – lang-markahæstur, næst-aflahæstur o.s.frv. Það er svo sem engin frágangssök, en mér fyndist samt betra að umorða þetta og segja t.d. langsamlega stoðsendingahæstur eða gaf langflestar stoðsendingar. Löng orð torvelda lesskilning og geta valdið vandkvæðum í framburði og þess vegna er almennt séð æskilegt að nota þau í hófi og búa ekki til lengri samsetningar en þörf krefur.