Mér hlakkar til
Þegar aukafalli fór að bregða fyrir með sögninni hlakka til var það frekar þolfall framan af. Þetta má bæði sjá af dæmum um þessa málnotkun á prenti og á athugasemdum við hana. Í elsta dæmi um slíkar athugasemdir sem ég hef fundið, í Foreldrablaðinu 1939, er reyndar talað um bæði þolfall og þágufall, „Ambögurnar í máli barnanna eru margskonar, t.d. […] mér eða mig hlakkar til, í stað, ég hlakka til“, en oft er eingöngu talað um mig hlakkar. Orðalag Eiríks Hreins Finnbogasonar í Vísi 1956, „Afar algengt er, að fólk fari rangt með sögnina að hlakka til, láti hana standa með þolfalli eða jafnvel þágufalli“, bendir líka til þess að þágufallið hafi verið sjaldgæfara. Oft er reyndar ekki hægt að greina milli falla, t.d. í hann hlakkar og okkur hlakkar.
Slæðing af dæmum um þolfallið má finna í blöðum og tímaritum frá undanförnum áttatíu árum, en ég hef ekki fundið nein ótvíræð dæmi um þágufallið fyrir 1990 nema þegar verið er að vitna orðrétt í talað mál eða gera athugasemdir við þessa notkun. Líklega hefur þolfallið stundum verið talið „réttara“ en þágufallið. Til þess benda m.a. dæmi um það á prenti, sem og spurningin í Heimilisritinu 1948, „„Er réttara að segja „mig hlakkar til“ heldur en „mér hlakkar til““. Alþekkt eru líka orðaskiptin í Punktur punktur komma strik eftir Pétur Gunnarsson frá 1976 þar sem Andri segir „Mamma, mamma – mér hlakkar svo til“, faðirinn leiðréttir: „Mig hlakkar“, en móðirin áréttar „Ég hlakka til“ og faðirinn segir „Ertu eitthvað klikkuð kona“.
Það er ljóst að notkun aukafalls með hlakka til hefur lengi verið útbreidd þótt útbreiðslan hafi verið mismunandi eftir þjóðfélagshópum eins og kom fram í könnun Félagsvísindastofnunar 1986 sem Gísli Pálsson segir frá í Þjóðlífi 1987. Þar var spurt: „Sumir segja „Ég hlakka til að fara“, aðrir „Mig hlakkar til að fara“, og enn aðrir „Mér hlakkar til að fara“. Hvað af þessu myndir þú segja?“ Hátt í helmingur reyndist nota „rangt“ fall: „Flestir svarendur, eða 54,7%, sögðust myndu segja „ég“, 36,8% „mig“ og 8,4% „mér“ (1,1% þátttakenda tók ekki afstöðu). Marktækt samband reynist vera á milli málnotkunar og félagsstöðu. Því hærri sem félagsstaðan er þeim mun ólíklegra er að viðkomandi noti „rangt“ fall (þolfall eða þágufall).“
Í verkefninu Rannsókn á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis árið 2017 var þátttakendum 13 ára og eldri gefin setningin Það er aðfangadagskvöld og bræðurnir geta ekki beðið, og síðan beðið um mat á tvenns konar framhaldi: Þeir hlakka svo til og Þeim hlakkar svo til. 49% þátttakenda töldu að „rétta“ setningin með nefnifallinu þeir væri „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“ en 47% þótti hún „frekar eðlileg“ eða „alveg eðlileg“. 56% fannst setningin með þágufallinu þeim „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“ en 37% fannst hún „frekar eðlileg“ eða „alveg eðlileg“. Ekki var spurt um þolfallið en gera má ráð fyrir að einhver þeirra sem fannst bæði nefnifallið og þágufallið óeðlilegt hefðu valið þolfallið ef það hefði verið í boði.
Í rannsókninni kom fram skýr munur eftir menntun, einkum í mati á þágufallinu – hlutfall fólks með háskólamenntun sem taldi það eðlilegt var mun lægra en hlutfall fólks með minni menntun. Sáralítill munur var á dómum mismunandi aldurshópa um nefnifallið, en hins vegar voru mun færri í hópunum yfir fertugu sem töldu þágufallið eðlilegt, og má leiða líkum að því að það fólk hefði fremur valið þolfallið. En notkun aukafalls með hlakka til hefur væntanlega lengi verið margfalt algengari en prentaðar heimildir benda til, því að slík frávik frá viðurkenndu máli hafa oftast verið hreinsuð út í prófarkalestri. Það er fyrst með tilkomu Risamálheildarinnar sem við höfum aðgang að miklu magni óprófarkalesinna texta, en þeir eru flestir frá þessari öld.
Þar er mikill fjöldi dæma um þágufall með hlakka til en þó u.þ.b. þrisvar sinnum fleiri dæmi um þolfall – í báðum tilvikum eru hátt í 90% dæmanna af samfélagsmiðlum. Þetta er breyting sem hefur verið í gangi síðan á nítjándu öld, hefur náð til verulegs hluta málnotenda á öllum aldri, og engar líkur eru á að verði stöðvuð eða snúið við. Ótal sambærilegar breytingar hafa orðið í málinu á undanförnum öldum. Þess vegna er fáránlegt að telja þessa málnotkun ranga og líta niður á hana. Nær er að taka mark á því sem Guðbergur Bergsson sagði í DV 1987: „Það er ekkert vit í að vera sífellt að staglast á því, í tíma og ótíma: Mér hlakkar til er rangt mál. Miklu nær væri að búa unga fólkið undir að heyra eitthvað, sem það hlakkar til að heyra.“