Brottfararúrræði – brottvísunarbúðir
Fyrir rúmu ári skrifaði ég um sambandið lokað búsetuúrræði sem fyrst kom fyrir í frumvarpi um breytingu á útlendingalögum sem þáverandi dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi vorið 2022. Ég benti á að þetta samband, sem var notað sem þýðing á detention center, væri óheppilegt og villandi á margan hátt. Grunnmerking orðsins úrræði er 'möguleiki til úrlausnar, kostur' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók og þótt samsetningin búsetuúrræði hafi að vísu unnið sér nokkra hefð í málinu í merkingunni 'heimili fyrir fólk í viðkvæmri stöðu' er þarna vitanlega ekki um neins konar „heimili“ að ræða. Þarna var gert ráð fyrir að fólk sætti frelsisskerðingu og því er í raun um að ræða fangelsi eða fangabúðir.
Þarna var því um að ræða skýrt dæmi um pólitíska misnotkun tungumálsins – merking orða sveigð til í þeim tilgangi að slá ryki í augu almennings og milda aðgerðir stjórnvalda. Umrætt frumvarp varð reyndar ekki að lögum, og ekki heldur frumvarp sem þáverandi dómsmálaráðherra hugðist leggja fram í fyrravor þar sem lokað búsetuúrræði var skýrt nánar og líkindi þess við fangelsi dregin skýrt fram. Þetta frumvarp var aldrei lagt fram og lokað búsetuúrræði er því ekki komið inn í lög, en dómsmálaráðherra var ekki af baki dottin og málið var að finna á þingmálaskrá þáverandi ríkisstjórnar sem lögð var fram í upphafi haustþings 2024, en undir nýju nafni. Nú hét þetta lokað brottfararúrræði.
Þetta rifjaði einu sinni sem oftar upp fyrir mér ógleymanlega frásögn úr uppáhaldsbókum mínum þegar ég var strákur – bókunum um Grím grallara (Just William) eftir Richmal Crompton (sem ég komst að löngu síðar mér til mikillar furðu að var kona) í snilldarþýðingu Guðrúnar Guðmundsdóttur. Með eftirminnilegustu köflunum í þessum bókum var frásagan af því þegar Grímur kom heim allur rifinn og tættur og Helga móðir hans fór að þýfga hann um hverju það sætti. Grímur sagði að þeir vinirnir hefðu verið að leika ljónatemjara – einn var ljónið og hinir ljónatemjarar sem reyndu að handsama það. Helga lagði umsvifalaust blátt bann við því að þeir lékju ljónatemjara aftur og Grímur lofaði vitanlega öllu fögru.
Daginn eftir kom hann samt heim í svipuðu ástandi og Helga byrjaði að skamma hann fyrir að hafa brotið gegn banni við að leika ljónatemjara. En Grímur hélt nú ekki að hann hefði brotið það – þeir voru nefnilega að leika tígrisdýratemjara. Þegar Helga innti eftir lýsingu á þeim leik kom í ljós að hann fólst í því að einn væri tígrisdýr og hinir reyndu að handsama það. Augljóslega allt annar leikur, en Grími var samt stranglega bannað að fara í hann aftur. Næsta dag kom hann enn heim í svipuðu standi og hafði verið að leika krókódílatemjara að eigin sögn – þið megið giska á hvernig sá leikur fór fram. Því miður leikur stjórnmálafólk iðulega þennan leik – býr til ný og villandi heiti á óvinsæl mál til að auðveldara verði að ná þeim í gegn.
Orðið brottfararúrræði er vissulega örlítið nær því en búsetuúrræði að lýsa því sem um er að ræða, en þó vantar í orðið það grundvallaratriði að brottförin er ekki sjálfviljug. Þess vegna væri brottvísunarúrræði nær lagi, en eftir sem áður er seinni hlutinn úrræði þarna notaður í óeðlilegri merkingu. Eðlilegast væri að tala um lokaðar brottvísunarbúðir því að í búðum er fólk oft ekki sjálfviljugt, svo sem í einangrunarbúðum, fangabúðum, flóttamannabúðum, herbúðum o.fl. Okkur er sagt að samkvæmt Schengen-samningnum sé okkur skylt að koma upp búðum af þessu tagi og ég ætla ekki að taka afstöðu til þess. Hins vegar er dapurlegt að nýr dómsmálaráðherra skuli virðast ætla að halda áfram pólitískri misnotkun fyrirrennara sinna á tungumálinu.