Posted on Færðu inn athugasemd

„Vestlendinga uggir“

Í „Málvöndunarþættinum“ var umræða um fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í gær: „Vestlendinga uggir vegna veiðigjalda.“ Merkingarlega séð er ekkert athugavert við notkun sagnarinnar ugga þarna – ljóst er af fréttinni að hún er notuð í merkingunni 'óttast, vera hræddur um (e-ð)' sem er önnur aðalmerking hennar samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók. Sögnin ugga í þessari notkun hefur raunar lengi verið sjaldgæf eins og m.a. kemur fram í grein Halldórs Halldórssonar í Íslensku máli 1982 þar sem hann segir frá könnun á notkun frumlagsfalls meðal 19-20 ára nemenda árið 1981. „Þá virtust nokkuð margir aldrei hafa heyrt mig sundlaði og mig uggir, og sögnin ugga yfirleitt virtist líka heldur lítt kunnugt dæmi.“

Í þessari merkingu tekur ugga venjulega þolfallsfrumlag eins og hún gerir í fyrirsögn Morgunblaðsins, en þó er ekki hægt að segja að notkunin sé þar í fullu samræmi við málhefð. Í öllum notkunardæmum, í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók tekur hún nefnilega með sér skýringarsetningu, t.d mig uggir að illt muni hljótast af; hann uggði að hann yrði ekki langlífur. Ég sé ekki betur en þannig sé sögnin undantekningarlítið notuð, a.m.k. á síðari öldum – auk þolfallsfrumlagsins þarf hún að taka með sér annan röklið (fallorð eða fallsetningu). „Vestlendinga uggir“ er því hliðstætt við mig langar, mig vantar án upplýsinga um það hvað mig langar í eða hvað mig vantar.

Nú gætu einhver auðvitað sagt að það kæmi fram í framhaldinu „vegna veiðigjalda“ hvað veldur þessum ugg. Það er út af fyrir sig rétt að merkingin kemst til skila með því. En það er ekki nóg því að sagnir gera ekki bara merkingarlegar kröfur til þeirra liða sem standa með þeim, heldur einnig setningafræðilegar kröfur. Sumar sagnir taka ekkert andlag, t.d. ég sef, aðrar geta tekið andlag en þurfa þess ekki eins og ég les (bókina), enn aðrar verða að taka andlag eins og ég óttast veiðigjöldin – *ég óttast gengur ekki eitt og sér, ekki frekar en *mig uggir. Svo eru sagnir sem taka eða geta tekið tvö andlög, eins og ég gaf henni bókina. Sumar sagnir geta svo tekið fallsetningu (-setningu) sem andlag og ugga er ein af þeim sem verða að taka slíkt andlag.

Hins vegar hefur lýsingarháttur nútíðar af sögninni, uggandi, öðlast sjálfstætt líf sem lýsingarorð og er sérstök fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem hann er skýrður 'kvíðafullur, sem býst við illu' – sem passar nákvæmlega í þessu tilviki. Það er auðvitað ekkert einsdæmi að lýsingarháttur nútíðar verði að sjálfstæðu lýsingarorði en ekki algengt að hann verði svo margfalt algengari en sögnin sem hann er leiddur af – rúm fimm þúsund dæmi eru um uggandi í Risamálheildinni. Það er líka sérkennilegt við lýsingarorðið að ólíkt sögninni getur það staðið án framhalds – Vestlendingar uggandi (vegna veiðigjalda) væri fullkomlega eðlileg setning. E.t.v. hefur það ruglað höfund áðurnefndrar fyrirsagnar í ríminu.

Posted on Færðu inn athugasemd

„Kyn orðsins kemur kyni viðkomandi bara ekkert við!“

„Kyn orðsins kemur kyni viðkomandi bara ekkert við!“ Þetta var fullyrt í „Málspjalli“ í gær og fjöldi fólks hefur tekið undir það. Svipaðar fullyrðingar sjást oft í umræðu um mál og kyn, þrátt fyrir að þetta sé svo augljóslega rangt að það ætti ekki að þurfa að ræða það. Vitanlega eru bæði sterk og náin tengsl á milli málfræðilegs kyns orða og kyns þess fólks sem orðin eru notuð um. Með því að halda því fram að málfræðilegt kyn komi kyni fólks „ekkert við“ er í raun verið að segja að það sé helber tilviljun að orð eins og karl, sveinn, piltur, strákur, hnokki, faðir, sonur, bróðir eru málfræðilega karlkyns en orð eins og kona, meyja, stúlka, stelpa, hnáta, móðir, dóttir, systir eru málfræðilega kvenkyns. Auðvitað dettur engum í hug að halda slíku fram.

Hitt er annað mál – sem er væntanlega það sem fólk á við þegar það afneitar tengslum málfræðilegs kyns og kyns fólks – að þessi tengsl eru hvorki einkvæm né algild. Oft eru dregin fram dæmi eins og orðið kvenmaður sem er málfræðilega karlkyns en vísar til konu, orðið fljóð sem vísar einnig til konu en er málfræðilega hvorugkyns, og fáein önnur. En þessi orð eru undantekningar. Aðalfrávikið frá tengslum málfræðilegs kyns við kyn fólks felst í kynhlutleysi karlkynsins – málfræðilegt karlkyn er mjög oft notað í vísun til annarra en karlmanna í fornöfnum, lýsingarorðum og töluorðum, og fjölmörg nafnorð sem hafa almenna vísun eru karlkyns. Þetta hefur margoft verið rakið hér og annars staðar og á sér sögulegar rætur.

Þetta eru staðreyndir sem eru óumdeilanlegar. Það sem er deilt um er hvort þessir yfirburðir hins málfræðilega karlkyns fram yfir önnur málfræðileg kyn skipti einhverju máli utan tungumálsins – hvort hinn óumdeilanlegi kynjahalli tungumálsins hafi einhver meðvituð eða ómeðvituð áhrif á málnotkun og viðhorf málnotenda, og hvort andóf gegn honum sé misskilin jafnréttisbarátta eða eigi sér raunverulegar rætur í tilfinningu fólks. Um þetta er erfitt að fullyrða nokkuð vegna þess að tilfinnanlegur skortur er á íslenskum rannsóknum á þessu sviði. Ýmsar erlendar rannsóknir eru vissulega til en málfræðilegt kynjakerfi íslenskunnar er sér á báti og þess vegna hæpið að yfirfæra erlendar rannsóknaniðurstöður á íslenskt málsamfélag.

Ég hef þó gert nokkrar athuganir (ofrausn væri að kalla það „rannsóknir“) á málnotkun í Risamálheildinni eins og ég hef rakið í nokkrum pistlum í „Málspjalli“. Þessar athuganir sýna ótvírætt að málnotendur nota síður karlkynsorð í vísun til kvenna en karla. Það er mun algengara að vísa til kvenna með kynbeygðu lýsingarorð að viðbættu kvenkyns nafnorði (bandaríska konan Hillary, danska sóknarkonan Pernille) en að vísa til karla á sambærilegan hátt. Ómögulegt er að túlka þetta öðruvísi en svo að í huga (margra) málnotenda eigi karlkyns starfs-, hlutverks- og þjóðaheiti síður við konur en karla og (margt) fólk hafi þess vegna tilhneigingu til að nota aðra aðferð (lýsingarorð + kvenkynsnafnorð) í vísun til kvenna.

Textamagnið sem er undir í þessum athugunum er svo mikið og fjölbreytt að þessar niðurstöður sýna ótvírætt að sú (oft ómeðvitaða) tilfinning að karlkyns starfs-, hlutverks- og þjóðaheiti tengist karlmönnum meira en konum er ekki bundin við fámennan hóp, heldur er útbreidd í málsamfélaginu og endurspeglast í málnotkun margra. Hitt er svo allt annað mál hvort þetta hafi einhver áhrif út fyrir tungumálið, og hvort ástæða sé til – eða yfirleitt mögulegt – að gera eitthvað í því að leiðrétta kynjahalla tungumálsins. Um það hefur fólk deilt og heldur sjálfsagt áfram að gera, en mikilvægt er að sú umræða sé byggð á staðreyndum en ekki misskilningi, eins og sú fullyrðing að kyn orða sé kyni fólksins sem þau vísa til alls óviðkomandi.