Hafðu góðan dag
Ég rakst í gær á umræðu á Facebook um kveðjuna Hafðu góðan dag og meintan uppruna hennar í ensku. Ég hef vikið að þessu áður og oft er bent á að kveðjan á sér beinar fyrirmyndir í fornum textum, svo sem „Haf góðan dag, herra“ í Stúfs þætti og „Haf góðan dag frú“ í Ólafs sögu Tryggvasonar. Eftir að ég skrifaði um þetta hefur Sigríður Sæunn Sigurðardóttir gert sambandinu ítarleg skil í grein í Íslensku máli 2020. Hún bendir á að í ofangreindum dæmum er um heilsun að ræða, en sambandið kemur einnig fyrir sem brottfararkveðja eins og það er notað í nútímamáli: „Og er Þórarinn heyrði svör hennar þá bað hann drottningu að hafa góðan dag“ segir í Ólafs sögu Tryggvasonar. Lokaorð greinar Sigríðar Sæunnar eru þessi:
„Af ofangreindri umræðu má ráða að orðasambandið Hafðu góðan dag hafi ratað tvisvar sinnum inn í íslensku í hlutverki kveðju. Í fyrra skiptið kom það inn í málið á 13. öld, eða örlítið fyrr, og festist í sessi sem heilsan. Í þeirri notkun hefur sögnin hafa (í boðhætti) fallið brott, hugsanlega tiltölulega snemma. Í síðara skiptið kom orðasambandið inn í málið, að því er virðist, á síðari hluta 20. aldar og var notað sem brottfararkveðja. Líklegt er að tilhneiging til að halda heilsunum og brottfararkveðjum formlega aðgreindum komi í veg fyrir að sögnin falli þar brott. Þrátt fyrir að Hafðu/Eigðu góðan dag megi rekja til erlendra áhrifa má segja að ýmislegt í íslensku málkerfi og íslenskri málnotkun ýti undir uppkomu hennar og notkun.“
Í umræðu um þetta á Facebook í gær var sagt að þessi dæmi úr fornsögum „skiptu ekki nokkru máli“ og spurt hvort það væri „kannski líklegt að íslenskir leigubílstjórar nútímans hafi farið að lesa þessar fornsögur og ákveðið að haga málfari sínu eftir þeim“. Ýmsir leigubílstjórar hafa raunar verið bókmenntalega sinnaðir, en á bak við þetta liggur sú afstaða að sambandið hafðu góðan dag sé óæskilegt vegna ensks uppruna síns. Væntanlega felst þá líka í þessu sú afstaða að sambandið væri gott og gilt ef hægt væri að sýna fram á að notkun þess í nútímamáli ætti sér rætur í fornu máli, hvort sem sú saga væri óslitin eða sambandið hefði beinlínis verið tekið upp úr fornu máli á meðvitaðan hátt eins og dæmi eru um, svo sem orðið vá og samsetningar af því.
Það er lítill vafi á því að framangreind niðurstaða Sigríðar Sæunnar er rétt – notkun sambandsins hafðu (eða eigðu) góðan dag í nútímamáli er tilkomin fyrir ensk áhrif. Spurningin er hins vegar hvort við eigum að láta það ráða afstöðu okkar til sambands sem er í fullkomnu samræmi við íslenskt mál og kemur auk þess fyrir í fornu máli. Þá er í raun og veru verið að láta enskuna ráða afstöðu okkar til íslensks orðasambands og vanhelga það, ef svo má segja. Hitt er annað mál að auðvitað er ekkert við það að athuga þótt kveðjan hafðu/eigðu góðan dag falli ekki að smekk allra og ýmsum finnist njóttu dagsins fallegri kveðja – þrátt fyrir að hún eigi sér óumdeilanlega upphaf í ensku fyrir þrjátíu árum eða svo en engar fyrirmyndir í fornu máli.