Vanskilegt, vanskillegt, vænskilegt

Í rúmlega hundrað ára gömlu sendibréfi sem ég var að lesa um daginn kom fyrir orðið vanskilegt – „Annars er mjög vanskilegt að ná fólki saman til að hlusta á fyrirlestra“. Ég kannaðist svo sem við þetta orð þótt ég hafi ekki rekist á það lengi enda er það mjög sjaldgæft – aðeins 23 dæmi á tímarit.is, þar af aðeins þrjú frá síðasta aldarfjórðungi og öll úr gömlum textum. Í Risamálheildinni eru tvö dæmi til viðbótar. Orðið er ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók en í Íslenskri orðabók er það skýrt 'vandgæfur, vandmeðfarinn, sem erfitt er að gera til hæfis' (um mann) og 'brigðull, ótraustur'. Í Íslenskri orðsifjabók er orðið sagt 19. aldar tökuorð úr vanskelig í dönsku og merkja nokkurn veginn það sama – 'erfiður, vandgæfur, brigðull'.

En á tímarit.is er einnig að finna fjögur dæmi um myndina vanskillegur, með tveimur l-um, og þá mynd er einnig að finna í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 auk þess sem hún er gefin til hliðar við vanskilegur í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar þar sem hún er greind van|skil|legur. Sú greining bendir til þess að orðið hafi ekki alltaf verið skilið sem íslenskun á vanskelig, heldur einnig sem íslensk orðmyndun af nafnorðinu vanskil með viðskeytinu -legur, og stafsetning með tveimur l-um gæti bent til hins sama þótt erfitt sé að fullyrða um það vegna þess að ritháttur var mjög á reiki fyrir daga samræmdrar stafsetningar. En e.t.v. hefur fólk tengt þetta orðum eins og vanskilamaður – merkingin 'brigðull, ótraustur' gæti bent til þess.

Í grein um Kristrúnu í Hamravík eftir Guðmund G. Hagalín í Lesbók Morgunblaðsins 1971 telur Matthías Johannessen vanskilegur upp í hópi orða sem „eiga sér öll danskar fyrirmyndir, en sú merking, sem þau hafa í sögunni, er allt önnur en samsvarandi myndir þeirra hafa í dönsku. Hef ég reynt að finna skýringar á merkingarbreytingum þessara erlendu orða í íslenzku með samanburði við nágrannatungur okkar, en ekki komizt að neinni ákveðinni niðurstöðu í þeim efnum.“ Meðal dæma sem hann tekur um þetta er „Hún, breysk og vanskilleg manneskjan“ og segir: „Danska fyrirmynd þessa orðs er vanskelig (= erfiður), og er merkingarmunurinn augljós.“ Væntanlega á hann við að vanskilleg merki þarna 'brigðul' eða eitthvað slíkt.

En mig rámaði í að ég hefði líka heyrt myndina vænskilegur, með æ í stað a. Þá mynd finn ég ekki í orðabókum en átta dæmi eru um hana á tímarit.is. Mér finnst ég þekkja þessa mynd í merkingunni 'varasamur‘ og a.m.k. sum dæmanna styðja þann skilning. Í Vikunni 1940 segir t.d.: „Einnig þótti þeim stofan á bænum vænskileg til þess að taka þar á sig náðir.“ Í Þjóðviljanum 1970 segir: „sum orð eru svolítið vænskileg og ofnotkun þeirra getur  hæglega leitt til þess, að við hættum jafnvel að taka eftir raunverulegri merkingu þeirra.“ Í Húnavöku 2019 segir: „Þar er áin breið og ekki djúp en flúðir eru þar miklar örskammt neðar og vaðið því vænskilegt ef eitthvað ber útaf.“ En auðvitað er ekki langt á milli 'varasamur' og 'brigðull'.

Hvað sem þessu líður, og hvort sem líta ber á vænskilegur, vanskilegur og vanskillegur sem sama orðið, er ljóst að síðastnefnda myndin er mun eldri í málinu en frá 19. öld, a.m.k. frá fyrsta hluta 18. aldar – „original af so gamalle þyngbók er vanskillegt ad fá“ segir í bréfi Árna Magnússonar frá 1728. Þar og í fleiri 18. aldar dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans virðist ljóst að merkingin er 'erfiður' eins og í dönsku, en önnur náskyld merkingartilbrigði hafa sennilega þróast síðar. Vel má vera að mismunandi myndir hafi fengið eitthvað mismunandi merkingu, en dæmin eru of fá til að hægt sé að fullyrða nokkuð um það, auk þess sem samhengið sker oft ekki úr um nákvæma merkingu vegna þess hve merking tilbrigðanna er skyld.