Kvæntir karlar, kvæntar konur, kvænt kvár
Í „Málspjalli“ var í gær vísað í fyrirsögn í DV, „Fékk áfall þegar hann komst að því að hann hefði gift sig án þess að vita af því“ og spurt hvort ekki hefði frekar átt að segja að hann hefði verið kvæntur án þess að vita af því vegna þess að karlmenn kvæntust en konur giftust. Vissulega er rétt að sögnin gifta er skyld gefa og merkti áður 'gefa til eiginkonu'. Sú merking er gefin fyrst í Íslenskri orðabók en einnig merkingin 'gefa saman, vígja í hjónaband'. Miðmyndin giftast er skýrð 'ganga í hjónaband' og sagt „nú bæði um karl og konu, áður aðeins um konuna“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er gifta sig skýrt 'ganga í hjónaband' og miðmyndin giftast skýrð 'ganga í hjónaband (með e-m)'. Þar er því ekki gert upp á milli kynja sem endurspeglar venjulega notkun.
Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er sagt að upphaflegum mun á giftast og kvongast sé oft haldið í ritmáli, en í talmáli sé giftast og gifta sig notað um bæði kyn. En þetta fór að riðlast löngu fyrr, líka í ritmáli. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 segir t.d. „Og Abraham gifti sig aftur“ og „Hver sína eiginkonu forlætur og giftist annarri, sá drýgir hór“. Í Biskupa-annálum Jóns Egilssonar frá fyrri hluta sautjándu aldar segir: „sagði það eitt vera, að prestinum væri bannað að giptast.“ Fleiri dæmi frá sautjándu og átjándu öld eru í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, og á tímarit.is má finna fjölda dæma frá nítjándu öld um að karlmenn giftist. Það er því óhætt að segja að notkun sagnarinnar gifta(st) og lýsingarorðsins giftur um bæði karla og konur sé fullkomlega venjuleg og eðlileg.
Öðru máli gegnir um sögnina sem notuð var um karla sem gengu í hjónaband – kvænast (kvongast). Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'gifta sig (um karlmann)' og í Málfarsbankanum er varað sérstaklega við rangri notkun hennar: „Sögnin kvænast merkir: giftast konu. Konur giftast mönnum en kvænast þeim ekki.“ Þessi munur á giftast og kvænast er svo sem skiljanlegur. Hin orðsifjafræðilegu tengsl giftast við gefa eru málnotendum ekki ofarlega í huga, enda er það ekki í samræmi við nútíma hugmyndir að kona gefist manni eða sé gefin honum. Aftur á móti er kvænast komið af kván sem síðar varð kvon og kemur fram í myndinni kvongast, og þótt kvænast sé ekki sérlega líkt kona dugir eignarfallsmyndin kvenna e.t.v. til að málnotendur tengi kvænast við konu.
Það má þó finna slæðing af gömlum dæmum um að sögnin kvænast og lýsingarorðið kvænt sé notað um konur. Í Þjóðólfi 1863 segir: „þángað til hún í einhverju rænuleysi játaði, að hún hefði ekki verið „virgo immaculata‘‘, þegar hún kvæntist honum.“ Í Skuld 1879 segir: „Dagmar [...] kvæntist stórfurstanum af Rússlandi.“ Í Lögbergi 1891 segir: „Hún er nú kvænt, en barnið lifir.“ Í Þjóðviljanum 1900 segir: „kvæntist hún þá skömmu síðar fátækum, lítt þekktum hershöfðingja.“ Í Þjóðviljanum 1901 segir: „kona þessi hafði verið kvænt verkstjóra einum þar í borginni.“ Í Ísafold 1907 segir: „Hún kvæntist úr föðurgarði 1855.“ Í Bjarma 1907 segir: „Hún kvæntist eftirlifandi manni sínum 1894.“ Í Þjóðviljanum 1907 segir: „Hún var kvænt Jóhanni söðlasmið Jónssyni.“
Notkun sagnarinnar kvænast og lýsingarorðsins kvænt(ur) um konur á sér því langa sögu og alls eru a.m.k. þrjú hundruð dæmi (og sennilega mun fleiri) um það á tímarit.is að þessi orð séu notuð um konur. Sú notkun hefur farið vaxandi og er veruleg í nútímamáli – í Risamálheildinni eru dæmin a.m.k. hátt á fjórða hundrað og aðeins lítill hluti þeirra af samfélagsmiðlum enda eru þessi orð nokkuð formleg og lítið notuð í óformlegu málsniði. Það er athyglisvert að þetta er sérstaklega algengt í minningargreinum – höfundar þeirra eru oft fólk sem er ekki vant að skrifa formlegan texta en grípur þarna til formlegs orðs sem ekki er hluti af virkum orðaforða þess og áttar sig þess vegna ekki á því að notkun þess um konur er ekki í samræmi við málstaðalinn.
Grundvöllur þess að nota mismunandi orð um að ganga í hjónaband og vera í hjónabandi hefur gerbreyst með ýmsum samfélagsbreytingum seinni ára. Langt er síðan sögnin giftast hætti að vera bundin við karlmenn eins og áður segir, en með tilkomu samkynja hjónabanda og viðurkenningu á því að kynin eru ekki bara karl og kona eru forsendur fyrir kyngreiningu orða um hjónaband algerlega fallnar brott og sú kyngreining samræmist tæpast nútíma jafnréttishugmyndum. Vitanlega getur sögnin kvænast og lýsingarorðið kvæntur slitið tengslin við orðsifjafræðilegan uppruna sinn ekkert síður en giftast og giftur – fyrir slíku eru ótal fordæmi í málinu. Við eigum ekki að hika við að tala um að kvænast karli og kvænast kvári – og kvæntar konur og kvænt kvár.