Tíu gráðu frost og fimmtán stiga hiti

Í dag var spurt í „Málspjalli“ hvort fólk þekkti dæmi um það að orðið stig væri aðeins notað um hita yfir frostmarki en gráður væri notað um frost. Ég hef aldrei vitað til þess að slíkur merkingarmunur væri gerður en í umræðum kom fram að þetta væri mál margra þátttakenda. Það kemur ekki beinlínis fram í orðabókum að merkingarmunur af þessu tagi sé á orðunum stig og gráða. En í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er ein skýring orðsins stig '(gráða) Grad' og notkunardæmi „10 stiga hiti; hafa 40 stiga hita“. Ein skýring á gráða er svo '(stig) Grad' og notkunardæmi „10 gráða frost“. Það getur auðvitað verið tilviljun að hiti er notaður í dæmum með stig en frost í dæmum með gráða en það gæti líka sýnt dæmigerða notkun.

Þegar hiti er tilgreindur er orðið stig margfalt algengara en orðið gráða, hvort sem talað er um frost eða hita, og það er því ljóst að meginhluti málnotenda gerir ekki umræddan merkingarmun á gráða og stig. En þó er munur á orðunum – í Risamálheildinni er orðið gráða notað í 17,5% dæma sem tilgreina frost en í tæplega 13% dæma sem tilgreina hita. Það er ólíklegt að þessi munur sé tilviljun enda staðfestir hann það sem kom fram í umræðum í „Málspjalli“ að fjöldi málnotenda gerir eða þekkir þennan mun. Ég hef ekki hugmynd um uppruna hans og hversu útbreiddur hann er, og veit ekki til að þetta hafi einhvers staðar verið rætt á prenti eða rannsakað. En þetta er mjög áhugavert og gott dæmi um tilbrigði í málinu sem við tökum sjaldan eftir.

En með þessu er ekki öll sagan sögð. Þótt orðið stig sé margfalt algengara en gráða þegar lofthiti er tilgreindur gegnir öðru máli um háar hitatölur, t.d. þegar tilgreindur er hiti á ofni. Þar er miklu algengara að segja t.d. hitið ofninn í 180 gráður en í 180 stig þótt það sé vissulega líka til. Ein ástæða fyrir því er sennilega sú að í ritmáli er hitastigið mjög oft ekki tilgreint með orði á eftir tölunni, heldur með tákninu ° – hitið ofninn í 180°. En ° heitir „gráðumerki“  og eðlilegt að það sé lesið sem gráður frekar en stig. Í þessu sambandi má einnig nefna að titill bókar Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000°, er ævinlega lesinn Konan við þúsund gráður en ekki þúsund stig. Sjálfsagt má finna fleiri dæmi um að annað orðið sé tekið fram yfir hitt í ákveðnu samhengi.