Kynusli í knattspyrnulýsingum
Lýsingar og viðtöl frá Evrópumóti kvenna í knattspyrnu eru hreint hunang fyrir áhugafólk um mál og kyn. Þar koma nefnilega upp ýmsir árekstrar milli málfræðilegs kyns og kyns þeirra sem um er rætt og það er mjög áhugavert hvernig þeir árekstrar eru leystir. Annars vegar koma þeir fram í máli karlkyns þjálfara þegar þeir tala um lið sitt og frammistöðu þess. Þjálfarinn er auðvitað ekki að spila og ekki beinlínis hluti af liðinu og því lægi beinast við að hann talaði um það í kvenkyni og notaði þriðju persónu fornafnið þær. Samt sem áður er ekki óeðlilegt að hann samsami sig liðinu og telji sig eiga hlut í frammistöðu þess, hvernig sem hún er, og noti þess vegna fornafn fyrstu persónu fleirtölu, við. En hvaða kyn lýsingarorða og fornafna á að nota?
Meginreglan í íslensku er auðvitað sú að nota hvorugkyn fleirtölu í vísun til kynjablandaðs hóps og þess vegna mætti búast við að karlkyns þjálfari kvennaliðs segði við vorum góð, við vorum léleg o.s.frv. En einhvern veginn hljómar það samt undarlega að karlkyn þjálfarans dugi til að breyta kyninu úr kvenkyni í hvorugkyn, í ljósi þess að hann er ekki að spila og lýsingarorðið vísar til frammistöðu kvennanna sem eru inni á vellinum. Ég man fyrst eftir því að hafa tekið eftir því hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni sem var þjálfari kvennalandsliðsins fyrir rúmum áratug að hann notaði kvenkyn fleirtölu – „mér fannst við óheppnar að tapa þessum leik“ og „Svo vorum við óheppnar á móti Kína“ sagði hann t.d. í viðtali við fótbolta.net árið 2009.
Mér fannst þetta dálítið undarlegt á sínum tíma en um leið áttaði ég mig á því að þetta væri líklega skásta leiðin – þótt karlkyn sé notað í kynhlutlausri merkingu í hefðbundnu máli er það ótækt þarna, og hvorugkynið fannst mér ekki heldur alveg eðlilegt eins og áður segir. En þetta er með ýmsu móti – mér sýnist að eftirmaður Sigurðar Ragnars, Freyr Alexandersson, hafi yfirleitt notað hvorugkyn fleirtölu, t.d. „við spiluðum taktískt mjög vel og vorum góð í leiknum“ og „við erum bara hörmuleg í leiknum gegn Austurríki“ í viðtali í DV 2017. Mér hefur líka heyrst að núverandi landsliðsþjálfari, Þorsteinn Halldórsson, noti oft hvorugkyn fleirtölu – talar um að við þurfum að „vera bara svolítið við sjálf“, „vera óttalaus“ o.fl.
Það er hins vegar erfitt að skoða þetta vegna þess að ekki er alltaf hægt að treysta því hvernig fjölmiðlar vinna úr viðtölum. Í nýlegri frétt DV byggðri á viðtali við Þorstein Halldórsson um tapleik gegn Sviss er haft eftir honum „við vorum ekki nógu góð í dag til að klára þennan leik“ – sem hann sagði örugglega ekki, samkvæmt upptöku af viðtalinu. Í frétt á vef Ríkisútvarpsins byggðri á sama viðtali er haft eftir Þorsteini „við vorum ekki nógu góðar til að klára þennan leik“ – sem hann gæti hafa sagt en mér heyrist hann jafnvel segja „við vorum ekki nógu góðir“. Í frétt á Vísi 2023 um annan leik er haft eftir Þorsteini „Hefðum mátt vera aðeins rólegri þegar við vorum komnar þangað“ en mér heyrist hann segja „þegar við vorum komin þangað“.
Annað atriði sem kemur upp varðar þjóðaheiti sem öll eru karlkyns í íslensku – Danir, Svíar, Frakkar, Ítalir, Englendingar o.s.frv. Ég hef áður bent á að þótt þessi heiti séu að nafninu til kynhlutlaus, vísi til fólks af öllum kynjum, eru skýrar vísbendingar um að margir málnotendur noti þau síður um konur og vísi oft til þeirra á annan hátt. Þess vegna kom það mér ekkert á óvart þegar ég heyrði „Frakkarnir virðast vera frústreraðar“ í lýsingu í gær – lýsingarorðið var sem sé í kvenkyni fleirtölu þrátt fyrir að eiga við karlkynsorðið Frakkar. Ég hafði ekki tekið eftir þessu áður en það virðist samt ekki vera alveg nýtt – í viðtali við Sigurð Ragnar Eyjólfsson á vef KSÍ 2013 sagði hann: „Svíar eru mjög hreyfanlegar, duglegar að hreyfa sig án bolta.“
Vissulega er löng hefð fyrir merkingarlegri sambeygingu með ákveðnum orðum sem oftast vísa til kynjablandaðs hóps, eins og foreldrar og krakkar sem oft taka með sér lýsingarorð og fornöfn í hvorugkyni þrátt fyrir að vera karlkynsorð – foreldrar mínir eru skilin, krakkarnir voru þæg. Á undanförnum árum hefur slík sambeyging færst í vöxt eins og ég hef skrifað um – nú er oft notað kvenkyn með karlkynsorði sem vitað er að vísar til konu, eins og forsetinn var viðstödd. Samt sem áður myndi flestum líklega þykja setning eins og Svíar eru mjög hreyfanlegar ótæk við venjulegar aðstæður. Í þessu samhengi finnst mér hún þó fullkomlega eðlileg – það hljómar undarlega að nota karlkyn lýsingarorðs þarna þegar ljóst er að eingöngu er vísað til kvenna.
Þarna eru ýmis tilbrigði og því fer fjarri að allir karlkyns þjálfarar kvennaliða noti kvenkyn fleirtölu þegar þeir tala um sig og lið sitt, og því fer líka fjarri að allir lýsendur kvennaleikja noti kvenkyn lýsingarorða með karlkyns þjóðaheitum. En mikilvægt er að átta sig á að þarna er ekki um að ræða meðvitaðar breytingar á málinu í átt til kynhlutleysis. Þótt oft sé – með réttu – lögð áhersla á að ekki megi setja samasemmerki milli málfræðilegs kyn og kyns fólks breytir það því ekki að í huga málnotenda eru oft mjög sterk tengsl þarna á milli, og í þessum dæmum eru almennir málnotendur bara að nota það kyn lýsingarorða og fornafna sem þeim finnst eðlilegast hverju sinni út frá málkennd sinni. Engin ástæða er til að gera athugasemdir við það.