Í gær var spurt í „Málspjalli“ um ástæðu þess að myndin þæginlegt, með n, í stað þægilegt virtist vera að „festa sig í sessi í ritmáli hjá yngri kynslóðinni“. Ég hef áður skrifað um þessa breytingu og haldið því fram að um sé að ræða áhrif frá nafnorðinu þægindi og ætla ekki að endurtaka þau skrif það hér. En í spurningunni og umræðu um hana komu fram tvö atriði varðandi uppkomu og útbreiðslu málbreytinga sem ástæða er til að staldra við. Annars vegar er það orðalag spurningarinnar þar sem sérstaklega er vísað til ritmáls og yngri kynslóðarinnar. Nýjungar í máli eru yfirleitt meira áberandi hjá yngra fólki en eldra svo að vísun til yngri kynslóðarinnar þarf ekki að koma á óvart, en aðalatriðið er að vísað er sérstaklega til ritmáls.
Það er eðlilegt – við höfum engar heimildir um talmál yngri kynslóðarinnar (og svo sem ekki þeirrar eldri heldur) sem hægt væri að byggja fullyrðingar af þessu tagi á. Þar fyrir utan er framburðarmunur á þægilegt og þæginlegt sáralítill og örugglega oft sagt þæginlegt án þess að við tökum eftir því – þessi litli munur er reyndar forsenda fyrir því að myndir með n komi upp. Tilfinning fólks fyrir því að eitthvað sé að breytast í þessu byggist því á ritmálinu, og hvar sjáum við helst ritmál yngri kynslóðarinnar? Það er á samfélagsmiðlum, og þar eru myndir með n vissulega mjög algengar – af tæplega 6.600 dæmum um lýsingarorðið þæginlegur og atviksorðið þæginlega í Risamálheildinni eru allar nema um 300 af samfélagsmiðlum.
Til samanburðar má nefna að dæmi um n-lausu myndirnar þægilegur og þægilega á samfélagsmiðlum eru 59 þúsund þannig að þótt nýju myndirnar séu vissulega algengar þar eru þær ekki nema um tíundi hluti af heildinni. En það sem skiptir máli í þessu er að athuga að samfélagsmiðlar eru tiltölulega nýtt form ritmáls, ekki nema 20-25 ára gamlir, og fyrir daga þeirra sáum við sjaldan ritaðan texta frá almenningi – sérstaklega ekki frá ungu fólki. Þótt við tökum miklu meira eftir einhverju málfarstilbrigði nú en áður þarf það ekki endilega að sýna að það sé að breiðast út. Það getur hafa verið algengt lengi – við vissum bara ekki af því vegna þess að við sáum sjaldan eða aldrei texta af því tagi þar sem það er líklegt til að koma fram.
Annað atriði sem vert er að skoða kom fram í skýringum þátttakenda í umræðum á breytingunni. Þar var sagt að þetta væri „Líklega vegna þess að þau eru ekki leiðrétt“ og „Þetta er önnur kynslóð, annar kennslumáti og enginn sem leiðréttir“. Órökstuddar fullyrðingar af þessu tagi eru algengar í málfarsumræðu en engar rannsóknir liggja fyrir sem styðja að það sé rétt að börn séu ekki lengur leiðrétt. Þótt óumbeðnar leiðréttingar á málfari fullorðins fólks eigi ekki að tíðkast veit ég ekki til að amast hafi verið við því að foreldrar leiðbeini börnum sínum á máltökuskeiði um málfar, rétt eins og um annað í uppeldinu – a.m.k. hef ég ekki gert það. En hitt er annað mál að rannsóknir benda til þess að beinar leiðréttingar á máli hafi sáralítil áhrif.
Þær rannsóknir eru vissulega erlendar en þótt við höfum engar íslenskar rannsóknir á þessu er ekkert sem bendir til og engar líkur á að annað gildi hér. Enda þurfum við svo sem engar rannsóknir til að sýna fram á gagnsleysi leiðréttinga – við þurfum ekki annað en skoða þróun málbreytinga eins og svonefndrar „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigðar“ síðustu 80-100 árin. Það er ekki eins og fólk sem segir mér langar og mér vantar hafi ekki verið leiðrétt – á heimilum, í skólum, í fjölmiðlum og annars staðar. Það hefur verið barist gegn þessari breytingu með hörku allan þennan tíma – með þeim árangri einum að hún heldur áfram að breiðast út eins og fjöldi rannsókna sýnir. Sama mætti segja um ýmsar aðrar þekktar „málvillur“.
Það er sem sé tvennt að athuga í þessu. Annars vegar getur oft verið að við ofmetum hraða og útbreiðslu málbreytinga einfaldlega vegna þess að við höfum annars konar heimildir og gögn en áður – það getur oft verið að breytingar hafi verið lengi í gangi í talmáli þótt við höfum ekki tekið eftir þeim, en þegar farið er að skrifa talmálið eins og á síðustu áratugum æpa þær á okkur. Hins vegar er engin sönnun fyrir því að dregið hafi úr leiðréttingum, en þótt svo hefði verið er það ekki ástæða málbreytinga. Leiðréttingar á máli barna skila litlu – það sem skiptir máli er að halda málinu að þeim, lesa fyrir þau og hvetja þau til lestrar og vera þeim góðar fyrirmyndir. Börn sem aldrei sjá foreldra sína lesa bók eru ekki líkleg til að hafa áhuga á að gera það sjálf.