Posted on

Félag atvinnurekenda gegn íslenskunni

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú að finna drög að reglugerð um plastvörur sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hyggst setja til að innleiða tilteknar Evrópureglur. Í drögunum segir m.a.: „Merkingarnar skulu vera í samræmi við kröfur sem koma fram í framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2151 frá 17. desember 2020 [...].“ Í þriðju grein þessara reglna segir á ensku: „The information text of the marking shall be written in the official language or languages of the Member State(s) where the single-use plastic product is placed on the market“ – á íslensku „Upplýsingatextinn á merkingunni skal vera á opinberu tungumáli eða tungumálum þess aðildarríkis þar sem einnota plastvaran er sett á markað“.

Í umsögn Félags atvinnurekenda um reglugerðardrögin er þessu ákvæði mótmælt harðlega og sagt: „Krafan um að merking skuli vera á opinberu tungumáli viðkomandi ríkis kemur illa niður á örmarkaði eins og Íslandi.“ Félagið telur augljóst „að sú breyting, sem lögð er til með reglugerðardrögunum, er verulegt inngrip í atvinnufrelsi“ og segir „gengið er mun lengra en þörf krefur til að ná markmiðum löggjafarinnar sem um ræðir.“ Félagið telur að að á endanum muni neytendur „að sjálfsögðu“ greiða þann kostnað sem breytingin hafi í för með sér og reglugerðin muni „stuðla að því að umræddar vörur hækki í verði“. Það virðist ekki koma til greina hjá félaginu að innflytjendur varanna taki á sig neinn kostnað vegna merkinga á íslensku.

Félag atvinnurekenda bendir á að í Evrópureglugerð um merkingar á matvælum komi fram að merkingar skuli „birtar á tungumáli sem er auðskiljanlegt fyrir neytendur í þeim aðildarríkjum þar sem tiltekin matvæli eru markaðssett“ og í samræmi við það sé í íslenskum reglum kveðið á um að upplýsingar skuli vera á „íslensku, ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku“ enda „skilur yfirgnæfandi hluti almennings ensku eða skandinavísku málin“. Félagið skilur því ekki hvers vegna væntanleg reglugerð á að ganga lengra. En þótt „yfirgnæfandi hluti almennings“ skilji ensku eða Norðurlandamálin er það ekki nóg – textinn þarf að vera skiljanlegur öllum. Því ber að fagna að Evrópusambandið er þarna að gera þjóðtungum hærra undir höfði en áður.

Í lok umsagnarinnar segir: „Félagið fer fram á að ráðherra leggi fram frumvarp á Alþingi um innleiðinguna, þannig að löggjafarsamkoman geti rætt málið í þaula og vegið saman þau markmið og hagsmuni sem halda þarf til haga; þ.e. sjónarmið varðandi umhverfisvernd, samkeppni, atvinnufrelsi, hag neytenda og verðlagsstöðugleika.“ Það er mjög sláandi að í þessa upptalningu á því sem „halda þarf til haga“ skuli vanta tvenns konar mikilvæga hagsmuni sem ekki virðist hvarfla að félaginu að Alþingi þurfi að halda til haga – hagsmuni íslenskunnar sem opinbers tungumáls í landinu, og hagsmuni málnotenda að hafa sem mest af upplýsingum á móðurmáli sínu. En félagið „fær ekki séð hvaða hagsmuni [krafa um íslensku] eigi að vernda.“

Það er dapurlegt metnaðarleysi fyrir hönd íslenskunnar og íslenskra málnotenda sem kemur fram í þessari umsögn. Því miður er það ekki einsdæmi – við sjáum alltaf fleiri og fleiri dæmi um að það sé talinn óþarfi að hafa tilteknar upplýsingar, auglýsingar eða viðburði á íslensku vegna þess að „það skilja allir ensku“. Í umsögninni segir t.d. „Í tilviki innflytjenda komast upplýsingar betur til skila á ensku en íslenzku“ – sem á ekki endilega við um alla innflytjendur og kemur málinu auk þess ekki við vegna þess að enskan er þarna hvort eð er. En það hefur alltaf legið fyrir að það fylgir því töluverður kostnaður að halda í íslenskuna. Ef við erum ekki frekar en Félag atvinnurekenda til í að borga þann kostnað lætur hún smátt og smátt undan síga.