Hvað kostar að tala íslensku?

Eftir erindi um stöðu og framtíðarhorfur íslenskunnar sem ég flutti í Rótarýklúbbi nokkrum fyrr í vetur sagði einn fundargesta að þótt hann væri vissulega hlynntur íslenskunni þætti honum vafasamt að hún ætti framtíð fyrir sér og spurði hvort það hefði verið reiknað út hvað hún kostaði – og hversu mikið hægt væri að spara með því að skipta yfir í ensku. Ég gat frætt hann um að það hefði einmitt verið reiknað út – vissulega ekki nýlega, og vissulega yrði að hafa marga fyrirvara á slíkum útreikningum. En Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og fjármálaráðherra, skrifaði grein sem heitir „Hvað kostar að tala íslensku?“ og birti í bókinni Greinar af sama meiði helgaðar Indriða Gíslasyni sjötugum árið 1998.

Benedikt skoðaði bæði hvaða útgjöld myndu sparast ef skipt væri yfir í ensku, og einnig hvaða tækifærum við glötum með því að nota íslensku. Sparnaðurinn kæmi einkum fram í kennslu og þýðingum, en tækifæri glatast einkum á sviði lista, ferðamennsku og innflutnings á nemendum og sjúklingum. „Tekjuauki alls ef enska yrði tekin upp í stað íslensku“ yrði samkvæmt útreikningum Benedikts rúmir 17 milljarðar á ári, sem framreiknað eru um 55 milljarðar á verðlagi 2023. Hér verður að leggja áherslu á að þjóðfélagið hefur auðvitað gerbreyst á þessum aldarfjórðungi og forsendur útreikninganna því að mörgu leyti úreltar. Þessi framreikningur er því aðeins settur hér fram til gamans – eins og reyndar útreikningar Benedikts í upphafi.

Öllu gamni fylgir samt nokkur alvara og á þessum tímum þegar tilhneiging er til að meta allt til fjár þurfum við að taka spurningar um kostnað við íslenskuna alvarlega – og hafa svör við þeim. Það er enginn vafi á því að út frá hreinum efnahagslegum forsendum er auðvelt að reikna sig upp í mikinn sparnað við að skipta yfir í ensku, hvort sem það væru 10 milljarðar, 50 eða 100. En hvað myndi tapast? Benedikt velti því líka fyrir sér og sagði: „Almenningur gæti ekki lesið íslenskar bókmenntir á frummálinu. Margir telja eflaust að þar með hyrfi menningararfleifð þjóðarinnar og fljótlega á eftir færi sjálfstæði. Þar á eftir minnkaði frumkvæði og aflahvöt sem fylgir því að vera sérstök þjóð í frjálsu landi, og hagnaðurinn af því að skipta hyrfi fljótt.“

En Benedikt hélt áfram: „Ekki skal gert lítið úr þessari hættu. Á móti má spyrja að hve miklu leyti þessi arfleifð sé þegar horfin. […] Erlend áhrif á öllum sviðum hafa gerbreytt stöðu allra landsmanna. […] Í þessari grein er skrifað um þann árangur sem næðist, ef þjóðin tæki þá meðvituðu ákvörðun að hætta að tala íslensku […]. En hvað ef það gerist án þess að nokkur ætli sér það?“ Feitletrunin er mín vegna þess að mér finnst ástæða til að leggja sérstaka áherslu á þetta. Ég er sannfærður um að það er ekki almennur vilji fyrir því meðal Íslendinga að skipta yfir í ensku. En þá verðum við líka að vera tilbúin til að greiða þann kostnað sem fylgir því að tala sérstakt tungumál. Því miður finnst mér oft skorta töluvert á almennan skilning á því.