Að leita af

Í fornu máli var sögnin leita langoftast notuð með eignarfallsandlagi – leita einhvers. „Ganga þeir nú til húss og leita Gísla og finna hann eigi“ segir í Gísla sögu. Örfá dæmi eru þó um leita að – „Og skulu þessir þangað fara að leita að Gísla og taka hann ef hann væri þar kominn“ segir einnig í Gísla sögu. En auk þess er sambandið leita eftir nokkuð notað – „Eyjólfur heitir enn að leita eftir Gísla og skiljast þeir að því“ segir enn í Gísla sögu. Öll þessi sambönd eru mjög algeng í nútímamáli en leita eftir er þó nær eingöngu notað í merkingunni 'æskja, óska' eða 'sækja um' – „Fyrirtækið er nú þegar með íslenska hluthafa og hyggst leita eftir skráningu á Verðbréfaþing“ segir í Morgunblaðinu 2000. En nýlega hefur leita af bæst við, ýmsum til ama.

Elstu dæmi sem ég finn á prenti um leita af eru frá því í lok níunda áratugarins. „Illa brunnið lík tveggja ára drengs fannst undir stéli vélarinnar eftir að örvilna móðir hans hafði leitað af honum í nokkrar klukkustundir“ segir í Tímanum 1988; „Gísli sagðist ekkert hafa orðið var við bátana og þyrluna sem voru að leita af honum“ segir í DV 1990; „Hann fann það sem hann leitaði af“ í Víkurfréttum 1992. Vel má þó vera að þetta samband hafi komið upp mun fyrr þótt það hafi ekki komist á prent – óformlegra mál fór að sjást meira á prenti en áður eftir 1980 og sennilega hefur einnig dregið úr prófarkalestri. En hvað sem um það er virðist þetta hafa breiðst nokkuð ört út eftir 1990, og þó sérstaklega eftir aldamótin, og einkum í óformlegu máli.

Grunnmerking er 'í áttina til' en grunnmerking af er 'frá, burt' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. Þar sem þessi grunnmerking er skýr verður þess ekki vart að forsetningunum sé blandað saman – það er aldrei sagt *ég gekk í átt af húsinu eða *ég tók bókina að honum svo að ég viti. En þegar ekki liggur í augum uppi að önnur hvor þessi grunnmerking eigi við má búast við víxlum. Þarna er máltilfinning fólks oft mismunandi. Sumum finnst t.d. augljóst að það sé leitað að einhverju vegna þess að við leitina sé verið að reyna að komast 'í áttina til' þess sem leitað er. En hinn mikli og sívaxandi fjöldi dæma um leita af sýnir að því fer fjarri að allir málnotendur skynji merkinguna 'í áttina til' í í þessu sambandi. Hvernig stendur á því?

Um það verður ekkert fullyrt en aðeins hægt að velta vöngum. Það má halda því fram að dæmigerðar leitir nútímans séu frábrugðnar leitum fyrri tíma. Áður hafi einkum verið leitað í raunheiminum – leitað að fólki, leitað að fé, leitað að stöðum, leitað að hlutum. Þegar leitað var að vinnu þurfti að fara á tiltekna staði. Við slíka leit er eðlilegt að fólk skynji merkinguna 'í áttina til' í sambandinu leita að. En leitir nútímans eru ekki síður í bókum og á seinustu árum á netinu, og þar liggur merkingin 'í áttina til' ekki eins í augum uppi. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að dæmum um sambandið leita af fjölgaði mjög um svipað leyti og notkun leitarvéla á netinu breiddist út. Það er freistandi að ætla að þar á milli séu einhver tengsl.

Mér finnst mikilvægt að halda í merkingarmuninn milli og af, sem vísað er til hér að framan. En það er fjöldi sambanda í málinu, bæði með og af, þar sem engin leið er að sjá tengsl við þessar grunnmerkingar og í slíkum tilvikum finnst mér satt að segja ekki skipta öllu máli hvor forsetningin er notuð. Það eru fjölmörg dæmi um að víxl í slíkum samböndum megi rekja a.m.k. aftur til 19. aldar og í sumum tilvikum er „ranga“ notkunin eldri og/eða algengari en sú sem er talin „rétt“. En þótt hægt sé að leiða líkur að því að tengsl við grunnmerkinguna 'í áttina til' hafi dofnað með sögninni leita er æskilegt að virða málhefð og halda sig við leita að. Það er samt engin ástæða til að fordæma leita af og engar forsendur fyrir því að telja það rangt.