Staðbundinn framburður örnefna

Hér hefur stöku sinnum verið minnst á forsetningar með staðanöfnum sem geta verið misjafnar eftir landshlutum. Stundum notar heimafólk tiltekna forsetningu en fólk annars staðar á landinu þekkir ekki málvenjuna og notar því iðulega aðra forsetningu. Nýlega var hér rætt um Neskaupstað í þessu sambandi. Þar er málvenja heimafólks að segja í Neskaupstað en hjá öðrum er á Neskaupstað hins vegar algengt. Í slíkum tilvikum er sjálfsagt að kynna sér málvenju heimafólks ef þess er kostur og virða hana. En forsetningar eru ekki það eina í meðferð örnefna sem getur verið mismunandi milli heimafólks og annarra. Það er líka algengt að örnefni séu borin fram á ólíkan hátt eftir því hvort fólk þekkir þau frá blautu barnsbeini eða ekki.

Eitt slíkt dæmi er Slútnes í Mývatni – sem er reyndar eyja en ekki nes. Í máli staðkunnugra er þetta borið fram með aðblæstri, [stluhtnɛs], eins og skrifað væri Slúttnes – og sá ritháttur sést reyndar stundum. En í munni þeirra sem ekki þekkja til er þetta líklega oftast [stluːtnɛs], með löngu ú, eins og í sögninni slúta. Fyrri hluti nafnsins er talinn vera nafnorðið slútur sem er eldra heiti á gulvíði. Annað dæmi er svo Stafnes á Reykjanesskaga. Það mun yfirleitt vera borið fram með b, [stapnɛs], í máli heimafólks, eins og skrifað væri Stabnes og er rithátturinn Stafnnes til marks um það. En annað fólk ber þetta líklega oftast fram með v, [stavnɛs]. Sagt er að nesið sé kennt við boða sem nefnist Stafur en reyndar heitir nesið Starnes í eldri heimildum.

Í þessum örnefnum eru tvær íslenskar hljóðkerfisreglur að verki – aðblástursregla í Slútnes og lokhljóðunarregla í Stafnes. Þar sem tn (og tl) standa saman í ósamsettum orðum kemur jafnan fram aðblástur, þ.e. h er skotið inn á undan hljóðasambandinu, í orðum eins og vatn, vetni, slitna o.s.frv. Þetta gerist hins vegar ekki ef orðhlutaskil eru milli t og n, í orðum eins og rót-naga, skít-nóg, smit-næmur, flat-nefur o.s.frv. – og ekki í Slút-nes nema í máli staðkunnugra. Svipað er með fn – önghljóðið f (v) breytist jafnan í lokhljóðið b á undan n (og l) í ósamsettum orðum, eins og nafn, nefna, stafn o.s.frv. En þetta gerist ekki ef orðhlutaskil eru milli f og n, í orðum eins og hrif-næmur, of-nýttur, of-næmi, af-not – og ekki í Staf-nes nema í máli staðkunnugra.

Örnefni sem ekki eru í nærumhverfi okkar lærum við oftast eftir máltökuskeið og iðulega af bók. Þá reynum við yfirleitt að greina orðin í frumeindir sínar til að skilja þau og áttum okkur á því að Slútnes er samsett úr slút- og -nes, og Stafnes er samsett úr staf-og -nes. Þess vegna beitum við ekki aðblástursreglu eða lokhljóðunarreglu í þeim, eins og við myndum gera í ósamsettum orðum. En fyrir þeim sem alast upp við þessi örnefni frá blautu barnsbeini hafa hlutar þeirra enga merkingu – orðin eru bara heiti á tilteknum stöðum. Þau eru þess vegna skynjuð sem ein heild, ekki sem samsett orð, og þar af leiðandi er hljóðkerfisreglum beitt á þau eins og þau væru ósamsett. Þetta er skýringin á þeim framburðarmun sem þarna kemur upp.