Er þjóðin að breytast úr mönnum í fólk?

Fyrir rúmu ári birtist í Fréttablaðinu grein sem hét „Íslenska þjóðin að breytast úr mönnum í fólk“. Þar var vísað til þess að á seinustu árum ber nokkuð á því að samsetningar sem enda á -fólk eru notaðar þar sem (meiri) hefð er fyrir orðum sem enda á -menn. Í upphafi greinarinnar sagði: „„Nær öllu Sjálfstæðisfólki líst vel á ríkisstjórnina“. Þannig var fyrirsögn forsíðufréttar Fréttablaðsins 15. desember síðastliðinn. Fyrir nokkrum árum hefði fyrirsögnin án efa verið: „Nær öllum Sjálfstæðismönnum líst vel á ríkisstjórnina“.“ Það hefur verið amast við því að orð eins og lögreglufólk, björgunarfólk, hestafólk og stuðningsfólk séu notuð í stað samsetninga með -maður, og ótal sinnum hefur verið kvartað undan þessu í Málvöndunarþættinum.

Í Fréttablaðsgreininni er haft eftir Sóleyju Tómasdóttur „að ef manni sé skipt út fyrir fólk virðist sem útkoman verði misþjál. „Íþróttafólk“ þyki núorðið gott og gilt orð en önnur orð eins og þingfólk eða lögfólk eigi lengra í land. Skýringin gæti verið að sum þessara orða eigi sér karlsögulegri rætur en önnur. Eftir því sem konur verði meira áberandi í íþróttum sé auðveldara að tala um íþróttafólk. Erfiðara sé enn að tala um „lögfólk“, sennilega vegna þess að ímynd stéttarinnar sé enn ansi karllæg í hugum fólks.“ Í framhaldi af þessu fannst mér áhugavert að skoða 100 algengustu orðmyndir í Risamálheildinni sem enda á -menn og athuga hvort samsvarandi orð sem enda á -fólk fyndust á tímarit.is – og hversu gömul þau væru í málinu.

Ég sleppti sérnöfnum eins og Bandaríkjamenn, Norðmenn, Eyjamenn, Skagamenn, Valsmenn o.fl. Niðurstaðan var sú að 93 af þessum 100 orðum eiga sér samsvaranir með -fólk – sumar hverjar vissulega sjaldgæfar. Níu orð koma fyrir í eitt til tíu skipti en 26 koma fyrir oftar en þúsund sinnum, þar af 12 oftar en tíu þúsund sinnum. Orðin sem aldrei koma fyrir eru *forfólk, *lögfólk, *markfólk, *stjórnarþingfólk, *sýslufólk, *varnarfólk og *vígafólk. Þetta er skiljanlegt – samsvarandi samsetningar með -maður eru sjaldnast notaðar um (kynjablandaða) hópa heldur um einstaklinga (formaður, lögmaður, markmaður, sýslumaður, varnarmaður). Hins vegar verður að líta á það sem tilviljun að orðin *stjórnarþingfólk og *vígafólk koma ekki fyrir.

Þegar einstök dæmi eru skoðuð er greinilegt að ef vitað er að hópurinn sem um ræðir er blandaður er rík tilhneiging til að nota samsetningu með -fólk frekar en -menn. Gott dæmi um það er orðið skákfólk sem kemur í fyrsta sinn fyrir í fyrirsögn í Vísi 1964: „Tekið á móti frægu skákfólki á Reykjavíkurflugvelli: Gosið við Eyjar var það sem hreif hugi skákfólksins mest.“ Þarna voru fjórir erlendir skákmeistarar að koma til landsins til að taka þátt í fyrsta Reykjavíkurskákmótinu og í þeirra hópi var ein kona, heimsmeistarinn Nona Gaprindashvili. Á þessum tíma var mjög óvenjulegt að konur tækju þátt í sterkum skákmótum og þeim sem skrifuðu fréttina hefur greinilega fundist óeðlilegt að tala um blandaðan hóp sem skákmenn.

Áður hefur verið bent á að margar samsetningar með fólk eru gamlar – í Heimskringlu Snorra Sturlusonar koma fyrir orðin bónda­fólk, byggðarfólk, býjar­fólk, bæjar­fólk, fátækisfólk, fjölkynng­is­fólk, hern­aðarfólk, ill­þýð­is­fólk, inn­an­landsfólk, landsfólk, mannfólk og þingfólk. Elstu dæmi á tímarit.is um rúmlega fimmtung orðanna í þessu safni eru frá nítjándu öld, og um helmingur er meira en níutíu ára gamall. Aðeins tvö orð, bæði mjög sjaldgæf (slökkviliðsfólk og bandafólk) eru frá þessari öld – og þrjú til viðbótar frá því eftir að Kvennalistinn kom fram. Það er því ekki hægt að halda því fram að samsetningar með -fólk séu einhver ný uppfinning femínista þótt vissulega hafi notkun margra þessara orða aukist á síðustu árum.

Orðið fólk er auðvitað rammíslenskt og hefur verið notað sem seinni liður samsettra orða allt frá fornu máli. Þessi orð eru yfirleitt lipur þótt vitanlega hljómi nýjar samsetningar af þessu tagi oft undarlega og þeim þurfi að venjast eins og öðrum nýjum orðum. Það er fráleitt að halda því fram að einhver málspjöll eða „gelding“ tungumálsins felist í því að nota samsetningar með -fólk í stað -menn þegar vísað er til hópa, þótt óneitanlega sé óheppilegt að ekki skuli hægt að nota samsetningar með -fólk í stað -maður í vísun til einstaklinga. En meginatriðið er að öllum er vitanlega frjálst að halda áfram að nota samsetningar með -menn, en engin ástæða er til að amast við því að þau sem kjósa fremur að nota – og búa til – samsetningar með -fólk geri það.