Það á eftir að gera þetta

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að segja ég á eftir að gera þetta og það er eftir að gera þetta (ekki „það á eftir að gera þetta“) – og einnig: „Notað er sagnorðið eiga þegar einhver á eftir að gera eitthvað. Þú átt eftir að gera þetta. Sögnin vera er höfð í ópersónulegri notkun: Það er eftir að gera þetta.“ Þarna er sem sé gert ráð fyrir að sögnina eiga megi aðeins nota með tilgreindum geranda. Aftur á móti virðist ekkert þykja athugavert við setningar sem í fljótu bragði virðast hliðstæðar, eins og það á eftir að rigna eða það á eftir að verða gaman í kvöld. En munurinn er sá að þau sambönd geta ekki tekið geranda og í þeim er ekki hægt að nota sögnina vera – útilokað að segja *það er eftir að rigna eða *það er eftir að verða gaman í kvöld.

En vegna þess hve samböndin (ég) á eftir að gera þetta og (það) á eftir að rigna eru lík er ekkert undarlegt að þeim slái saman á þann hátt sem varað er við í Málfarsbankanum. Elsta örugga dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1936: „Hann giskaði á, að það væri viss eiturtegund, en það á eftir að rannsaka hana nánara.“ Næsta örugga dæmi er ekki fyrr en í Vikunni 1955: „Ég veit að það á eftir að fægja þær og að þær eru ekki stórar.“ Í Tímanum 1960 segir: „Þá eru eggin tilbúin á markaðinn, nema hvað það á eftir að innpakka þeim í sellofanpappír.“ Í Vikunni 1960 segir: „Það á eftir að setja og brjóta um, og flugvélin leggur upp frá Kastrup á slaginu 9!“ Upp úr 1960 fjölgar dæmum um þessa notkun svo ört og hún er mjög algeng síðustu áratugina.

Árið 1981 birti Gísli Jónsson í þætti sínum í Morgunblaðinu bréf frá manni sem vildi greina milli (það er) eftir að gera þetta og (ég á) eftir að gera þetta á þann hátt sem Málfarsbankinn mælir með. En Gísli var á báðum áttum og sagði: „Nú verð ég að játa, að mér þykir það, sem bréfritari segir um er og á, orka tvímælis. Skilsmunur þessa fyrir mér er ekki skýr. Ég hneigist til að verja hvort tveggja: Það á eftir að gera þetta og það er eftir að gera þetta. Í hinu fyrra dæmi táknar það einhvern ópersónulegan kraft sem á verkið ógert. En í síðara tilvikinu er verk ógert, eftir er að gera það.“ Í svari við öðru bréfi 1985 sagði hann svo: „Mjög erfitt er að halda í sundur orðasamböndunum er eftir og á eftir […] en sjálfsagt er að reyna, svo sem bréfritari vill.“

Engin þungvæg rök verða séð fyrir því að amast við það á eftir að gera þetta. Vissulega er það nýjung miðað við það er eftir að gera þetta en hefur þó verið algengt í sextíu ár og því löngu komin hefð á það. Þótt Málfarsbankinn segi að sögnin vera sé höfð í ópersónulegri notkun en ekki eiga má benda á að sögnin eiga er notuð í ýmsum ópersónulegum samböndum eins og það á að dansa, það á að gefa börnum brauð, það á að rigna á morgun, í merkingunni 'það stendur til, það ber, það lítur út fyrir'. Þessi notkun þykir ekki athugaverð svo að ég viti og þess vegna sé ég engar forsendur fyrir því að gera upp á milli dæma eins og það á að gera þetta og það á eftir að gera þetta. Hvort tveggja er gott og gilt – og það er eftir að gera þetta vitaskuld líka.