Þarsíðast

Orðið þarsíðast í merkingunni 'næstsíðast' er hátt í fimmtíu ára gamalt í málinu a.m.k. – elsta dæmi sem ég hef séð um það er í Dagblaðinu 1977: „Hingað kom hann um þarsíðustu helgi.“ Frá níunda áratugnum eru nokkur dæmi um orðið en þeim fjölgar svo verulega upp úr 1990 og sérstaklega eftir 2000. Á tímarit.is eru rúm 1500 dæmi um orðið og í Risamálheildinni eru um 1200 dæmi. Þótt orðið sé vissulega hlutfallslega algengara í óformlegu málsniði en formlegu kemur það fyrir í öllum textategundum – er mjög algengt í ræðum á Alþingi og meira að segja komið inn í dóma og lög. Orðið er langoftast lýsingarorð en kemur einnig fyrir sem atviksorð – „Við fengum silfur síðast þegar við fórum og brons þarsíðast“ segir í Fréttablaðinu 2008.

Í þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu var árið 1999 birt tilgáta Björns Ingólfssonar um tilurð orðsins: „Einhver málfátæklingur kom óvenju illa niður eftir „gleðina“ sem haldin var helgina fyrir síðustu helgi. Frá þessu ætlaði hann að segja vinnufélaga sínum á byggingarkrananum eða í síldarbræðslunni og mundi ekki hvernig hann átti að orða það. Hann rámaði þó í að helgin eftir næstu helgi heitir þarnæsta helgi. Þar með rann upp ljós. Þetta hlaut þá að hafa verið þarsíðasta helgi þegar teitin mislukkaðist. Þar með var orðið þarsíðastur komið í umferð og hver át upp eftir öðrum. Ég heyri þetta allt í kringum mig […]. Mér virðist jafnvel rígfullorðið fólk vera búið að gleyma því sem það ólst upp við; að tala um næstsíðast.“

Ólíklegt er að tildrög að myndun orðsins hafi verið með nákvæmlega þeim hætti sem þarna er lýst en grundvallarhugmyndin er væntanlega rétt – orðið þarsíðast hefur örugglega orðið til fyrir áhrif frá þarnæst. Það er svo sem ekki órökrétt að álykta að fyrst þarnæst merkir 'það sem kemur á eftir því næsta' hljóti 'það sem kemur á undan því síðasta' að vera þarsíðast. En löng hefð er fyrir orðinu næstsíðast um þessa merkingu og því eðlilegt að þarsíðast strjúki mörgum öfugt. Í bréfi á bloggsíðu Eiðs Guðnasonar árið 2011 sagði að í „þarsíðustu viku“ væri „beinlínis klúðurslegt orðalag“ og í öðru bréfi á sömu síðu árið 2013 sagði: „Orðskrípið ,,þarsíðast“ hefur einhvern veginn komizt inn í kollinn á ungu fréttafólki og sést nú æ oftar.“

Vitanlega er þarsíðast ekkert frekar „orðskrípi“ en þarnæst – orðmyndunin er alveg hliðstæð. Það sem angrar fólk er annars vegar að þetta er tiltölulega nýlegt orð – þótt það sé að verða hálfrar aldar gamalt – og hins vegar að það kemur í stað annars orðs sem rík hefð er fyrir í málinu, næstsíðast. Því fer samt fjarri að þarsíðast sé að útrýma næstsíðast – síðarnefnda orðið er 3,5 sinnum algengara í 21. aldar textum í Risamálheildinni. En þrátt fyrir aldur, tíðni og útbreiðslu er þarsíðast er ekki að finna í helstu orðabókum, Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók, hvorki sem lýsingarorð né atviksorð – og ekki heldur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Mér finnst mál til komið að viðurkenna þarsíðast og taka það í orðabækur.

En það er ekki þannig að þarsíðast geti alltaf komið í stað næstsíðast. Talað er um þarsíðustu helgi, þarsíðustu viku, þarsíðasta fund o.s.frv. Hins vegar er tæplega sagt *hann var þarsíðastur í hlaupinu eða *við hittumst þarsíðasta dag hvers mánaðar – þar verður að segja hann var næstsíðastur í hlaupinu og við hittumst næstsíðasta dag hvers mánaðar. Ástæðan er sú að merking orðsins þar er afstæð, og sama gildir um samsetningar af því – miðast við þann punkt í tíma eða rúmi sem mælandinn er staddur á. En í hann var næstsíðastur í hlaupinu og við hittumst næstsíðasta dag hvers mánaðar er merkingin ekki afstæð og því á þarsíðast ekki við. Þarna er því kominn upp nýr greinarmunur sem auðgar málið – er það ekki skemmtilegt?