Að veita mikið/miklu fé

Oft eru gerðar athugasemdir við notkun sagnarinnar veita. Í bókinni Íslenskt málfar segir Árni Böðvarsson að hún hafi „tvær aðalmerkingar í nútímamáli sem koma fram í samböndunum veita vatni á land og veita fjárstuðning. Í hlutrænu merkingunni, um vatnið, er alltaf notað þágufall (tækisfall), en að réttu lagi þolfall í þeirri fjárhagslegu. Því er vondur stíll að tala um að „veita peningum til e-s, veita fjármunum til Kontraskæruliða“ í stað veita peninga, fjármuni.“ Málfarsbankinn er á sama máli – en notkun þágufalls með veita í sambandinu veita fé er ekki ný af nálinni. Það er þó ekki auðvelt að finna upphaf hennar vegna þess að er eins í þolfalli og þágufalli og því er aðeins hægt að skera úr um fallið að lýsingarorð fylgi.

Jón G. Friðjónsson hefur bent á að þolfallið er eldra og upprunalegra í þessari merkingu og sambönd með því koma til á seinni hluta 19. aldar, en ótvíræð dæmi um þágufallið eru þó litlu yngri. Í Vestra 1907 segir: „Útsala þessi gæti orðið til þess að veita miklu fje inn í landið.“ Í Morgunblaðinu 1919 segir: „Þessi ráðstöfun Bandaríkjanna mun mjög bæta úr atvinnuleysinu, sem nú er hið megnasta í Danmörku, og þannig veita miklu fé inn í landið.“ Í Lögréttu 1921 segir: „En aðrir lögðu áherslu á það, að þessi atvinnuvegur hefði veitt miklu fje inn í landið.“ Í Tímanum 1923 segir: „Hinar stóru íþróttasýningar mundu veita miklu fé í þennan sjóð.“ Í Alþýðublaðinu 1924 segir: „Á næstu árum þarf að veita miklu fé til landbúnaðarins.“

Í nútímamáli er bæði þolfall og þágufall algengt í þessum samböndum en erfitt er að átta sig á hlutfallslegri tíðni fallanna vegna þess að þau falla saman í orðinu eins og áður segir. Um ástæður þess að þágufall er iðulega notað í stað þolfalls segir Málfarsbankinn: „Þegar sagt er að miklum fjármunum hafi verið veitt til verkefnis (í stað: miklir fjármunir hafa verið veittir til verkefnisins) er e.t.v. um að ræða áhrif frá sagnorðinu verja (miklum fjármunum hefur verið varið til verkefnisins) en aðrir líta á þetta sem myndmál þar sem líkingin sé sótt til áveitu.“ Mér finnst engin ástæða til að tala um þetta sem „myndmál“ – þarna er einfaldlega um það að ræða að sögnin er notuð í „hlutrænu“ merkingunni, svo að notað sé orðalag Árna Böðvarssonar.

Það má styðja ýmsum rökum. „Þegar sögnin stýrir þolfalli merkir hún afhenda, láta í tésegir Málfarsbankinn, en „[þ]egar sögnin stýrir þágufalli merkir hún frekar dreifa“. Í elstu dæmunum um þágufallið er talað um að veita miklu fé inn í landið eins og fram kom hér á undan. Þar er enginn ákveðinn viðtakandi og því ekki verið að afhenda neinum neitt eða láta einhverjum eitthvað í té, heldur er beinlínis verið að dreifa fé eða láta það renna til landsins. Þarna er því ekki um myndmál eða líkingu að ræða, heldur er veita notuð í bókstaflegri merkingu. Þetta yfirfærist svo á önnur tilvik þar sem verið er að veita fé/fjármunum í tiltekin verkefni eða til tiltekinna verkefna eða viðtakenda – þar er merkingin 'dreifa, láta renna' mjög eðlileg.

Þetta má líka sjá á því að þágufallið er bundið við fjárveitingar í venjulegum skilningi – aldrei er talað um að *veita styrkjum, *veita láni eða slíkt. Ástæðan er væntanlega sú að þar er ákveðinn viðtakandi og merkingin 'afhenda, láta í té' liggur beint við. Þegar veita tekur tvö andlög er eða fjármunir aldrei í þágufalli – ekki er sagt *veita félaginu fjármunum þótt sagnir geti tekið tvö þágufallsandlög, svo sem lofa félaginu fjármunum. Þarna gegnir sama máli – þegar viðtakandi er tilgreindur í fyrra andlaginu liggur merkingin 'afhenda, láta í té' beint við. Niðurstaðan er sú að bæði veita miklu fé og veita mikið fé sé fullkomlega eðlilegt og rétt mál – á þessu tvennu er nokkur merkingarmunur en báðar merkingarnar sér eiga langa hefð.